Þrek og tár - tvær sýningar eftir!

4 mar 2013

Þrek og tár - tvær sýningar eftir!

Leikfélag Menntaskólans á Ísafirði frumsýndi  leikritið Þrek og tár eftir Ólaf Hauk Símonarson föstudagskvöldið 1. mars í Edinborgarhúsinu. Leikfélagið hefur verið við æfingar frá því í byrjun janúar og er mikið lagt í sýninguna en um 50 manns koma að henni. Halldóra Björnsdóttir er leikstjóri verksins og tekst henni afar vel að ná fram því besta hjá leikurum. Leikverkið gerir afdráttarlausar kröfur til tónlistarhæfileika til þorra leikara. Leikendur standast þær kröfur fyllilega og ekki síst hljómsveitin sem náði þessum angurværa tón sem var svo einkennandi fyrir þetta tímabil. Leikhópurinn í heild nær vel að skila fallegri og áhrifamikilli mannlífsmynd. Sýningin í heild er afskaplega skemmtileg og góð. Til hamingju með stórglæsilega sýningu.

 

Tvær sýningar eru nú eftir af sex. Sú fyrri verður kl. 20 í kvöld en einnig hefur verið bætt við miðnætursýningu sem hefst kl. 23. Hægt er að panta miða í síma 450 5555.

 

Jón Reynir Sigurvinsson

skólameistari

 

Til baka