13 feb 2024

Laus störf við kennslu næsta vetur

Menntaskólinn á Ísafirði auglýsir þrjár lausar stöður í kennslu. Um er að ræða kennslu í húsasmíði, kennslu í rafiðngreinum og kennslu í vélstjórnargreinum á A- og B-stigi. Leitað er að einstaklingum sem hafa áhuga á fjölbreyttri kennslu í stað- og dreifnámi, eru færir í samskiptum og falla vel að aðstæðum og þörfum skólans. 

Nánari upplýsingar um störfin og umsóknaeyðublöð má finna á www.starfatorg.is  og á eftirfarandi tenglum: 

Kennari í húsasmíði

Kennari í rafiðngreinum

Kennari í vélstjórnargreinum á A- og B-stigi

 

Umsóknarfrestur er til 29. febrúar, nánari upplýsingar veita Heiðrún skólameistari á heidrun@misa.is og Dóróthea aðstoðarskólameistari á dorothea@misa.is

6 feb 2024

Alþjóðlegi netöryggisdagurinn

Í dag, 6. febrúar, er alþjóðlegi netöryggisdagurinn (e. Safer Internet Day). Dagurinn er haldinn árlega víða um heim til að vekja athygli á öryggi barna og ungmenna á netinu og hvetja til góðra samskipta. Á heimasíðu SAFT (www.saft.is) er að finna margskonar fróðleik og námsefni fyrir börn og ungmenni um örugga netnotkun. Þar er einnig að finna heilræði og leiðbeiningar fyrir fyrir foreldra. 

5 feb 2024

Jöfnunarstyrkur - umsóknarfrestur til 15. febrúar

Athygli er vakin á að umsóknarfrestur um jöfnunarstyrk vegna vorannar 2024 er til 15.febrúar næstkomandi. Jöfnunarstyrkur er námsstyrkur fyrir nemendur sem búa og stunda nám fjarri lögheimili og fjölskyldu sinni. 

Jöfnunarstyrkur skiptist í dvalarstyrk og akstursstyrk:

  1. Akstursstyrkur er ætlaður þeim nemendum sem keyra daglega í skólann frá lögheimili sínu. Lögheimili má þó ekki vera í nágrenni skóla, sjá töflu um skilgreiningar á nágrenni skóla hér fyrir ofan. Akstursstyrkur er einnig fyrir þá nemendur sem búa ekki í foreldrahúsum en geta ekki sýnt fram á leigugreiðslur.

  2. Dvalarstyrkur er fyrir þá nemendur sem flytja a.m.k. 30km frá lögheimili sínu og fjölskyldu til þess að geta stundað nám sitt, það er, þeir nemendur sem eru á heimavist og/eða greiða leigu.

Eingöngu er hægt að sækja um jöfnunarstyrkinn með rafrænum skilríkjum á heimasíðunni www.menntasjodur.is 



Fyrir frekari upplýsingum er hægt að senda fyrirspurn á menntasjodur@menntasjodur.is.

31 jan 2024

Stöðupróf í rússnesku

Stöðupróf verður haldið í rússnesku í Menntaskólanum við Sund föstudaginn 9. febrúar kl. 14-16. Próftökugjald er 15.000 kr. og er óendurkræft. Nemendur geta fengið allt að 20 einingar metnar í tungumálinu.

Próftakar þurfa að millifæra prófgjaldið í síðasta lagi fyrir kl. 12:00 þriðjudaginn 6. febrúar og mæta með kvittun fyrir greiðslu og skilríki í prófið.

Nánari upplýsingar eru hér á heimasíðu MS

Martha Kristín áfanga- og fjarnámsstjóri veitir nánari upplýsingar og aðstoð varðandi skráningu í prófið, martha@misa.is

19 jan 2024

MÍ komið áfram í sjónvarpshluta Gettu betur

Nú rétt í þessu lauk viðureign MÍ og Framhaldsskólans á Laugum í 2. umferð Gettu betur. MÍ vann viðureignina 18-7. Það þýðir að MÍ er kominn áfram í næstu umferð sem fer fram í sjónvarpi. Er það í 3. skipti sem skólinn nær svo langt að keppa í sjónvarpi. Til hamingju Daði Hrafn, Mariann, Saga Líf, Signý og þjálfararnir Einar Geir og Jón Karl.

19 jan 2024

MÍ keppir í Gettu betur í kvöld

Í kvöld keppir lið skólans í 2. umferð Gettu betur. Mótherjar að þessu sinni er Framhaldsskólinn á Laugum. Keppnin fer fram á RÁS 2 kl. 19:23. Áfram MÍ!

16 jan 2024

Margir nemendur skólans heiðraðir fyrir árangur í íþróttum

Um helgina voru útnefndir íþróttamenn ársins bæði í Bolungarvík og í Ísafjarðarbæ auk þess sem efnilegir íþróttamenn voru heiðraðir. Margir MÍ-ingar fengu þar viðurkenningar. Mörg þeirra sem hlutu viðurkenningar eru á íþróttasviði skólans en þar stunda nú alls 40 nemendur, eða 23% dagskólanemenda, nám í 8 íþróttagreinum; blaki, bogfimi, handbolta, knattspyrnu, körfubolta, ólympískum lyftingum, skíðagöngu og sundi.

Í Bolungarvík voru Jóhanna Wiktoría Harðardóttir í körfubolta og Mattías Breki Birgisson skíðamaður tilnefnd til íþróttamanns ársins. Auk þess fengu Bríet María Ásgrímsdóttir, Jóhanna Wiktoria Harðardóttir og Katla Salóme Hagbarðsdóttir viðurkenningu fyrir góðan árangur í íþróttum en þær æfa allar körfubolta.

Í Ísafjarðarbæ voru tveir nemendur tilnefndir sem íþróttamaður ársins en það voru þær Sigrún Betanía Kristjánsdóttir í knattspyrnu og Svanfríður Guðný Þorleifsdóttir í blaki. Elmar Atli Garðarsson knattspyrnumaður var valinn íþróttamaður Ísafjarðarbæjar 2023 en hann er fyrrum nemandi skólans. 8 nemendur voru tilnefndir sem efnilegasti íþróttamaður Ísafjarðarbæjar 2023 en það voru þau Grétar Smári Samúelsson í skíðagöngu, Guðrún Helga Sigurðardóttir í lyftingum, Hjálmar Helgi Jakobsson í körfuknattleik, Karen Rós Valsdóttir í skotfimi, Maria Kozak í bogfimi, Patrekur Bjarni Snorrason í knattspyrnu, Svala Katrín Birkisdóttir í knattspyrnu og Sverrir Bjarki Svavarsson í blaki. Maria Kozak og Sverrir Bjarki Svavarsson voru valin efnilegustu íþróttamenn ársins.

Við óskum nemendum okkar til hamingju með viðurkenningarnar.

Myndirnar sem fylgja fréttinni eru fengnar af www.bolungarvik.is og www.isafjordur.is

15 jan 2024

MÍ fær veglegan skólaþróunarstyrk

Fyrir helgi úthlutaði mennta- og barnamálaráðuneytið styrkjum til nýsköpunar og skólaþróunarverkefna á vettvangi leik-, grunn- og framhaldsskóla og frístundastarfs. Um nýja tímabundna styrki er að ræða til að innleiða aðgerð 2 í menntastefnu stjórnvalda til ársins 2030 um aukna skólaþróun um allt land.

Markmið styrkjanna er að stuðla að öflugri skólaþróun með fjölbreyttum verkefnum þar sem horft er til heildarnálgunar á menntun og víðtækrar samvinnu innan skóla og milli skóla og annarra stofnana, auk samvinnu heimila og skóla. Styrkjunum er þannig ætlað að styðja við nýja nálgun og vera hreyfiafl framfara í skóla- og frístundastarfi við innleiðingu menntastefnu, jafna tækifæri nemenda um land allt og hvetja skóla til nýsköpunar á sviði skólaþróunar.

Alls bárust 73 umsóknir og hlutu 40 þeirra styrk að upphæð 99.816.802 kr. Fjórir framhaldsskólar hlutu styrk og er Menntaskólinn á Ísafirði einn þeirra. Skólinn hlaut alls 4.909.420 kr í styrk og er það þriðja hæsta styrkupphæðin á landsvísu.

Verkefnið sem MÍ hlaut styrk fyrir er þverfaglegt skólaverkefni með samstarfsaðilum um orkuframleiðslu og felst verkefnið í nýtingu mismunandi orkugjafa til að draga úr losun, umhverfisáhrifum og kostnaði.

Verkefninu í heild er ætlað að auka skilning kennara og nemenda á orkuframleiðslu og hvernig hægt er að nýta mismunandi orkugjafa til að draga úr losun, umhverfisáhrifum og kostnaði. Verkefnið verður unnið með sérfræðingum Bláma (Blámi er samstarfsverkefni Landsvirkjunar, Orkubús Vestfjarða, Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis og Vestfjarðastofu) og Orkubús. Með þverfaglegri nálgun innan skólans mun skapast vettvangur til að samþætta námsgreinar og tengja saman nemendur úr ólíkum námsgreinum.

Menntaskólinn á Ísafirði hyggst setja upp sólarsellur við verkmenntahús skólans sem nota á til kennslu, þjálfunar og til að sinna hluta af orkunotkun skólans. Nemendur í húsasmíða-, málm- og vélstjórnargreinum munu smíða grind undir sólarsellurnar og nemendur í rafiðn- og vélstjórnargreinum munu koma þeim fyrir og tengja í samvinnu við sérfræðinga frá Orkubúi Vestfjarða og Bláma. Nemendur í ýmsum öðrum námsgreinum munu vinna ýmis verkefni í tengslum við sólarorkuverið. Þannig verður verkefnið bæði hluti af þverfaglegum áfanga sem skólinn mun hanna en sömuleiðis skapast möguleikar í hinum ýmsu áföngum til að tengjast verkefninu, bæði bóklegum og verklegum.

Við erum afar þakklát fyrir þennan veglega styrk og hlökkum mikið til samstarfsins við Bláma og Orkubú Vestfjarða. Verkefnið fer af stað nú á vordögum og verður komið á fulla ferð næsta haust.

 

11 jan 2024

MÍ mætir Laugum í 2. umferð Gettu betur

Nú hefur verið dregið í 2. umferð eða 16 liða úrslit Gettu betur. MÍ sem komst áfram í 2. umferð eftir góðan sigur á ME mun í þeirri umferð mæta Framhaldsskólanum að laukum. Keppnin mun fara fram í útvarpi þann 18. janúar n.k. kl. 20:00. Við óskum liði MÍ góðs gengis í keppninni.

10 jan 2024

Húsasmiðjan gefur húsasmiðanemendum smíðavesti

Á dögunum færði Húsasmiðjan á Ísafirði húsasmiðanemendum smíðavesti að gjöf, merkt nafni hvers og eins. Vestin eiga eftir að koma sér vel í námi nemendanna. Við þökkum Húsasmiðjunni kærlega fyrir gjöfina og góðvild þeirra í garð skólans í gegnum tíðina.