21 jún 2019

Sumarlokun skrifstofu

Skrifstofa skólans verður lokuð frá og með 24. júní og opnar aftur kl. 10:00 þann 6. ágúst. Erindi sem þola ekki bið má senda í tölvupósti á stjórnendur skólans. 

Þann 14. ágúst verður nýnemakynning í skólanum og sama dag verður opnað fyrir stundatöflur nemenda í INNU. Kennsla hefst mánudaginn 19. ágúst.

Njótið sumarsins.

19 jún 2019

Innritun lokið

Innritun nýnema í framhaldsskóla er lokið og geta nemendur nú fengið upplýsingar um skólavist. Farið er inn á menntagatt.is og ýtt á breyta umsókn. Þar er flipi sem heitir umsókn en þar birtast upplýsingar um hvaða skóli hefur samþykkt umsóknina.

Í dag fór út bréfpóstur til allra nýinnritaðra nemenda við MÍ og greiðsluseðill fyrir skólagjöldum haustannar var sendur í heimabanka nemenda, en í heimabanka forráðamanna ef nemandinn er yngri en 18 ára.

Áhugasamir um nám við skólann geta haft samband við Heiðrúnu Tryggvadóttur áfangastjóra, heidrun@misa.is

12 jún 2019

Grunnnám hársnyrtigreina í boði eftir nokkurt hlé

Í haust verður í boði, eftir nokkurt hlé, grunnnám háriðna. Enn er hægt að bæta við nemendum á brautina og geta áhugasamir haft samband við Heiðrúnu Tryggvadóttur áfangastjóra í s. 450 4400 eða með því að senda tölvupóst á heidrun@misa.is

 

 

10 jún 2019

MÍ-ingar halda til Hondúras

Í dag heldur vaskur hópur MÍ-inga ásamt kennara sínum Ragnheiði Fossdal áleiðis til Mið-Ameríku ríkisins Hondúras. Þar mun hópurinn dvelja næstu tvær vikur við rannsóknir á lífríki lands og sjávar. Verkefnið er á vegum rannsóknarstofnunarinnar Opwall og hafa nemendurnir ásamt Ragnheiði undirbúið sig undir ferðina í allan vetur. Í áfanganum LÍFF3ÚT05 sóttu nemendurnir sér ítarlega þekkingu um Hondúras fyrr og nú. Bæði var fjallað um menningu og sögu ríkisins en áherslan þó fyrst og fremst á lífríkið og einnig á það starf sem bíður nemendanna við rannsóknir á því næstu tvær vikur. Það verður spennandi að sjá og heyra hvernig dvölin og vinnan í Hondúras mun ganga og en með því að smella á hlekkinn hér fyrir neðan komast lesendur á bloggsíðu verkefnisins þar sem fréttir verða settar inn eftir því sem tími og netsamband gefst. Héðan frá MÍ eru sendar óskir um góða ferð og góða og árangursríka dvöl í Hondúras.

Bloggsíða Hondúrasfara frá MÍ 2019

27 maí 2019

Brautskráningarathöfn vorið 2019

Laugardaginn 25. maí voru 40 nemendur brautskráðir og tveir skiptinemar kvaddir, við brautskráningarathöfn í Ísafjarðarkirkju. Þrír nemendur luku A-réttindum vélstjórnar, 2 nemendur luku skipstjórnarréttindum A og tveir skipstjórnarréttindum B. Fjórir nemendur voru brautskráðir með framhaldsskólapróf af lista- og nýsköpunarbraut, þrír af sjúkraliðabraut, einn af starfsbraut og 26 stúdentar. Ellefu nemendur luku stúdentsprófi af félagsvísindabraut, einn af náttúrufræðabraut, átta af náttúruvísindabraut, fimm af opinni stúdentsbraut og einn lauk stúdentspróf af fagbraut. Að vanda sáu útskriftarnemar um tónslistarflutning á athöfninni. Þeir Gunnar Smári Rögnvaldsson, Pétur Ernir Svavarsson og Tryggvi Fjölinsson léku á blásturshljóðfæri ásamt kennara sínum Madis Maëkalle og Pétur Ernir söng einsöng við undirleik Halldórs Smárasonar sem fagnaði 10 ára stúdentsafmæli. Fulltrúar 10, 25, 30 og 40 ára afmælisárganga fluttu ávörp skemmtlegan og hátíðlegan svip á athöfnina. Við athöfnina voru fjölmargar viðurkenningar veittar fyrir góðan námsárangur. Hæstu meðaleinkunn á stúdentsprófi og þar með titilinn dúx scholae hlaut Pétur Ernir Svavarsson. Hann lauk námi af náttúruvísindabraut með meðaleinkunn 9,69 sem er hæsta meðaleinkunn á stúdentsprófi sem gefin hefur verið við skólann. Semi dúx var Ína Guðrún Gísladóttir en hún lauk prófi af náttúruvísindabraut með einkunnina 9,06. Eins og venja er þá flutti dúxinn ávarp og kom flestum viðstöddum á óvart með skemmtilegu tónlistaratriði með þátttöku fjölmagra tónlistarmanna og útskriftarnema. Við óskum öllum útskriftarnemum innilega til hamingju með áfangann og óskum þeim góðs gengis í framtíðinni.

23 maí 2019

Brautskráning vorannar 2019

Laugardaginn 25. maí verður 41 nemandi brautskráður frá skólanum. Níu nemendur ljúka námi af verk- og starfsnámsbrautum. Þrír með A réttindi vélstjórnar, tveir með A réttindi skipstjórnar og einn með B réttindi skipstjórnar. Þá brautskrást þrír sjúkraliðar frá skólanum. Fjórir nemendur ljúka námi á lista og nýsköpunarbraut, þar af er einn sem einnig lýkur stúdentsprófi af opinni stúdentsprófsbraut. Alls ljúka 29 nemendur námi af bóknámsbrautum skólans, einn lýkur stúdentsprófi af fagbraut og einn af starfsbraut. Sjö brautskrást af opinni stúdentsbraut, níu af náttúruvísindabraut og 11 af félagsvísindabraut. Útskriftarathöfnin verður í Ísafjarðarkirkju og hefst kl. 13. Allir eru velkomnir á athöfnina. en þeir sem ekki komast geta fylgst með henni í beinu streymi hér

11 maí 2019

Sýning á verkum nemenda í hugmyndum og nýsköpun

Nú stendur yfir sýning á verkum nemenda sem unnin voru í áfanganum hugmyndir og nýsköpun, HUGN1HN05, á þessari önn.  Í áfanganum kynntust nemendur hönnunarferli og nýsköpun.  Byrjað var að vinna með hugmyndir, tengingu og fleira þar sem hugmyndir þróuðust. Að lokum var gert sýnishorn af væntanlegri framleiðslu. Verkin á sýningunni sýna hvernig hugmyndir nemenda fæddust, hvernig þær þróuðust og hver hugsamleg útkoma gæti orðið. 

Sýningin  er á göngunum á efri hæð bóknámshússins og stendur yfir dagana 13.-15. maí og er opin á skólatíma. Allir eru velkmnir.

 

 

2 maí 2019

Opið fyrir umsóknir í ungmennaráð heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna

Ungmennaráð heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna óskar eftir ungu fólki á aldrinum 13-18 ára. Ráðið fundar sex sinnum á ári en þar að auki hefur starfandi ungmennaráð tekið þátt í fjölmörgum viðburðum á síðastliðnu ári. Má þar meðal annars nefna þátttöku í Hringborði Norðurslóða í Hörpu, heimsþingi kvenleiðtoga, friðarráðstefnu Höfða friðarseturs og hátíðarhöldum í tengslum við fullveldisafmæli Íslands þann 1. desember síðastliðinn!
 
Valdir verða tólf fulltrúar í ráðið á aldrinum 13-18 ára sem munu fræðast og fjalla um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna ásamt því að vinna og miðla gagnvirku efni á samfélagsmiðlum um markmiðin og sjálfbæra þróun. Ungmennaráðið veitir stjórnvöldum, í gegnum verkefnastjórn heimsmarkmiðanna, aðhald og ráðgjöf við innleiðingu markmiðanna ásamt því að funda árlega með ríkisstjórn.
 

Frekari upplýsingar og umsóknareyðublað er að finna á stjornarradid.is/umsokn. Opið verður fyrir umsóknir til og með 13. maí nk.

 
 
Hér má lesa nánar um ráðið.
30 apr 2019

Æfingum á afreksíþróttasviði að ljúka þetta vorið

Í haust hóf afreksíþróttasvið aftur starfsemi við MÍ eftir nokkurt hlé. 32 nemendur í 5 íþróttagreinum stunda nú nám á sviðinu og vonir standa til að í haust fjölgi bæði nemendum og greinum. Síðustu æfingarnar á afreksíþróttasviðinu standa nú yfir og í dag var tilvalið að færa blakæfinguna út sem gaf körfuboltakrökkunum tækifæri til að spila einn leik inni á meðan.

Frekari upplýsingar um nám á afreksíþróttasviðinu má finna hér.

30 apr 2019

Fræðsla um kvíða

Fimmtudaginn 2. maí verður boðið upp á fræðslu um kvíða í fundartímanum kl. 10:30-11:30. Fræðslan fer fram í Gryfjunni. Um fræðsluna sér Steinunn Anna Sigurjónsdóttir sálfræðingur á Litlu kvíðameðferðarstöðinni. Áhugasamir nemendur eru hvattir til að mæta.