15 jan 2018

MÍ keppir í Gettu betur

Í kvöld, 15. janúar, keppir MÍ í annarri umferð Gettu betur - spurningakeppni framhaldsskólanna. Keppnin fram fram kl. 21:00 á Rás 2 og koma andstæðingar MÍ að þessu sinni frá Menntaskólanum á Akureyri. Lið MÍ skipa Emil Uni Elvarsson, Sonja Katrín Snorradóttir og Veturliði Snær Gylfason. Varamaður er Sigríður Erla Magnúsdóttir. Um utanumhald liðsins sér Kolbeinn Sæmundur Hrólfsson málfinnur skólans. Við óskum keppendum okkar góðs gengis í kvöld. Áfram MÍ!

21 des 2017

Útskrift og jólafrí

Í dag útskrifuðust 7 nemendur frá skólanum. Tveir nemendur útskrifuðust með B-réttindi skipstjórnar, 1 nemandi með B-réttindi vélstjórnar, 1 sjúkraliði og 3 stúdentar. Skólinn færir útskriftarefnum og fjölskyldum þeirra hamingjuóskir í tilefni dagsins. Útskriftin markaði lok haustannar en skólastarf hefst að nýju 4. janúar 2018. Skrifstofa skólans opnar aftur eftir jólafrí þann 3. janúar. Menntaskólinn á Ísafirði óskar starfsfólki sínu, nemendum, fjölskyldum þeirra og öllum velunnurum skólans gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

7 des 2017

Námsmatsdagar

Í dag, 7. desember, var síðasti kennsludagur haustannar og við taka námsmatsdagar til 15. desember. Misjafnt er í áföngum hvernig viðveru á námsmatsdögum er háttað með tilliti til verkefnaskila, hlutaprófa og fleira. Eru nemendur beðnir um að kynna sér fyrirkomulag námsmatsdaganna vel.

Opnað verður fyrir einkunnir í INNU föstudaginn 15. desember n.k. Kennarar hafa tíma til mánudagsins 18. desember kl. 16:00 að skila einkunnum. Eru nemendur beðnir um að sýna biðlund þangað til ef einkunnir eru ekki komnar inn í INNU þann 15. desember.

Skólastarf vorannar hefst fimmtudaginn 4. janúar 2018.

28 nóv 2017

Vísindadagar á miðvikudag og fimmtudag

Á morgun og fimmtudag, 29.-30. nóvember fara fram Vísindadagar en það eru óhefðbundnir skóladagar með þátttöku nemenda. Á Vísindadögum sýna nemendur hver öðrum og gestum þekkingarnám sitt. Allir nemendur eru vísindamenn en þeir eru mislangt komnir í öguðum vinnubrögðum við að afla sér þekkingar og svara knýjandi spurningum, t.d. með því að raða saman þekkingu á hugvitsamlegan hátt. Mikilvægur þáttur í sköpun nýrrar þekkingar er að deila henni hvert með öðru. Þessir dagar eru fyrir nemendur og þá þekkingu sem þeir vilja setja saman til að gera okkur öll vísari.

Meira

21 nóv 2017

Lýðheilsudagur á fimmtudaginn

Fimmtudaginn 23. nóvember verður lýðheilsudagur í Menntaskólanum á Ísafirði. Dagskráin hefst kl. 9 og lýkur kl. 13:00.   Í haust hafa 18 nemendur verið í lýðheilsuáfanga hjá Kolbrúnu Fjólu Arnarsdóttur íþróttakennara þar sem unnið hefur verið að öllu því sem viðkemur viðburði eins og þessum.

Meira

21 nóv 2017

Slæmt veður og veðurspá

Vegna slæms veðurs og veðurspár fyrir daginn eru nemendur og forráðamenn hvattir til að fylgjast vel með veðurspá og fréttum af færð og veðri. Skólanum verður ekki lokað vegna veðurs nema eftir tilmæli frá lögreglu eða almannavörnum. Ef nemandi kemst ekki í skóla vegna ófærðar þarf hann eða forráðamaður að tilkynna það samdægurs á skrifstofu skólans í síma 450-4400.
16 nóv 2017

Sterkari ég

Fljótlega fer af stað áfangi sem heitir STERKARI ÉG (HAME1HA01) í umsjón þeirra Auðar Ólafsdóttur og Hörpu Guðmundsdóttur. Í áfanganum kynnast þátttakendur leiðum til að takast á við vandamál og mótlæti sem getur haft truflandi áhrif í daglegu lífi. Áhersla er lögð á að skoða hvernig hugsanir, hegðun og líðan tengjast og hvernig þátttakendur geta nýtt sér þá tengingu til að efla sig í leik og starfi. Áhugasamir hafi samband við Stellu námsráðgjafa (stella@misa.is)

16 nóv 2017

Dagur íslenskrar tungu

Í dag var haldinn hátíðlegur dagur íslenskrar tungu sem jafnframt er fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar. Af því tilefni voru nemendur með dagskrá á sal undir handleiðslu Emils Inga Emilssonar íslenskukennara. Dagskráin var sérstaklega tileinkuðu skáldunum Jóni Kalmann og fyrrum MÍ-ingnum Vilborgu Davíðsdóttur.