Fyrstu verðlaun í nýsköpunarkeppni MEMA

29 nóv 2024

Fyrstu verðlaun í nýsköpunarkeppni MEMA

1 af 4

Í hádeginu í dag fór fram verðlaunahátíð nýsköpunarkeppni MEM. Keppnin er árlegur viðburður og hefur það að markmiði að hvetja ungt fólk til að takast á við samfélagslegar áskoranir með hugviti og tækni. Nemendur fá tækifæri til að nýta hugvit sitt og leita lausna í þverfaglegu samstarfi við t.d. Fab Lab, sérfræðinga og aðila úr atvinnulífinu. Sýnt var frá athöfninni í beinu streymi í mötuneyti MÍ að viðstöddum nemendum, starfsfólki og öðrum gestum.

Í keppninni er áhersla er lögð á heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og að þessu sinni var unnið með markmiðið ,,Líf á landi“ sem felur í sér sjálfbæra nýtingu vistkerfa á landi, sjálfbæra stjórnun auðlinda og viðhaldi líffræðilegrar fjölbreytni.

Tvö lið frá Menntaskólanum á Ísafirði komust í úrslit að þessu sinni. Annars vegar var það hópurinn Natturon Go sem þróaði hugmynd um app sem vekur fólk til aukinnar meðvitundar um náttúruna. Hinn hópurinn keppti undir nafninu Endurskínandi kind og fólst hugmyndin þeirra í því að endurskinsmerkja kindur. Úrslit fóru svo að Endurskínandi kind hlaut fyrstu verðlaun keppninnar að þessu sinni. Hópinn skipuðu Bjargey Sandra, Elísabet Emma, Guðrún Natalía, Margrét Rós og Soffía Rún. ,,Þetta var fyrsta hugmyndin okkar, að hafa kindur einfaldlega í endurskinsvesti. Það er því miður keyrt á fullt af sauðfé allt árið í kring því þær sjást ekki nógu vel í myrkrinu. Og hvað ætlum við að gera til þess að vernda þær betur? Hugmyndin okkar heitir Endurskínandi kind, við viljum setja endurskinsmerki í eyrnamerkinguna hjá kindunum svo þær sjáist betur,“ sögðu þær stöllur um verkefnið sitt. 

Við óskum nemendunum innilega til hamingju með þennan frábæra árangur og sömuleiðis Ólöfu Dómhildi kennara á Lista- og nýsköpunarbraut sem haldið hefur utan um verkefnið.

Til baka