10 des 2024

Kynning á lokaverkefnum

Sem hluti af námi nemenda á stúdentsprófsbrautum er lokaverkefnisáfangi. Í áfanganum vinna nemendur að verkefnum að eigin vali í samráði við kennara áfangans og oft undir handleiðslu annarra kennara við skólann.

Í lokaverkefnisvinnunni þurfa nemendur að sýna sjálfstæði í vinnubrögðum, virkni, frumkvæði og þjálfa skipulagshæfileika sína, enda skipuleggja þeir vinnu sína sjálfir undir almennri verkstjórn kennara. Lokaverkefnisáfanganum er ætlað að skerpa undirbúning nemenda fyrir háskólanám, sérstaklega hvað varðar leikni og hæfni til að afla áreiðanlegra gagna, vinna úr þeim og koma niðurstöðum sínum á framfæri. Í áfanganum fá nemendur tækifæri til að draga saman reynslu og fyrra nám í verkefnavinnu og að velja sér nýtt svið til þekkingaröflunar.

Hægt er að ljúka verkefnum á ýmsan hátt, s.s. í formi heimildaritgerðar, rannsóknarskýrslu, vefsíðu, heimildamyndar, fullunnar afurðar eða tímaritsgreinar. Afrakstur allra lokaverkefna haustannar var kynntur á opnu málþingi í morgun og þar mátti finna mörg ólík og áhugaverð verkefni:

  • Theodore Robert Bundy - raðmorðingi verður til
  • Hvati íslenskra kvenna í lyftingum
  • Keramikgerð og saga
  • Íþróttasálfræði
  • Hvað hefur áhrif á upplifun einstaklinga sem fara í skiptinám?
  • Sjálfsmynd ungmenna
  • Hönnun og uppsetning fataherbergis

Við óskum nemendum í lokaverkefnisáfanganum til hamingju með vel heppnaðar kynningar og áhugaverð verkefni.

29 nóv 2024

Fyrstu verðlaun í nýsköpunarkeppni MEMA

Í hádeginu í dag fór fram verðlaunahátíð nýsköpunarkeppni MEM. Keppnin er árlegur viðburður og hefur það að markmiði að hvetja ungt fólk til að takast á við samfélagslegar áskoranir með hugviti og tækni. Nemendur fá tækifæri til að nýta hugvit sitt og leita lausna í þverfaglegu samstarfi við t.d. Fab Lab, sérfræðinga og aðila úr atvinnulífinu. Sýnt var frá athöfninni í beinu streymi í mötuneyti MÍ að viðstöddum nemendum, starfsfólki og öðrum gestum.

Í keppninni er áhersla er lögð á heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og að þessu sinni var unnið með markmiðið ,,Líf á landi“ sem felur í sér sjálfbæra nýtingu vistkerfa á landi, sjálfbæra stjórnun auðlinda og viðhaldi líffræðilegrar fjölbreytni.

Tvö lið frá Menntaskólanum á Ísafirði komust í úrslit að þessu sinni. Annars vegar var það hópurinn Natturon Go sem þróaði hugmynd um app sem vekur fólk til aukinnar meðvitundar um náttúruna. Hinn hópurinn keppti undir nafninu Endurskínandi kind og fólst hugmyndin þeirra í því að endurskinsmerkja kindur. Úrslit fóru svo að Endurskínandi kind hlaut fyrstu verðlaun keppninnar að þessu sinni. Hópinn skipuðu Bjargey Sandra, Elísabet Emma, Guðrún Natalía, Margrét Rós og Soffía Rún. ,,Þetta var fyrsta hugmyndin okkar, að hafa kindur einfaldlega í endurskinsvesti. Það er því miður keyrt á fullt af sauðfé allt árið í kring því þær sjást ekki nógu vel í myrkrinu. Og hvað ætlum við að gera til þess að vernda þær betur? Hugmyndin okkar heitir Endurskínandi kind, við viljum setja endurskinsmerki í eyrnamerkinguna hjá kindunum svo þær sjáist betur,“ sögðu þær stöllur um verkefnið sitt. 

Við óskum nemendunum innilega til hamingju með þennan frábæra árangur og sömuleiðis Ólöfu Dómhildi kennara á Lista- og nýsköpunarbraut sem haldið hefur utan um verkefnið.

26 nóv 2024

Nemendur frá Danmörku í heimsókn

Síðustu daga hafa átta stálsmíðanemar frá samstarfsskóla okkar í Danmörku, EUC Lillebælt, dvalið á Ísafirði. Nemendurnir komu til Ísafjarðar 18. nóvember og gista á heimavistinni ásamt kennaranum sínum, Mads Damman.

Nemarnir hafa stundað nám í skólanum á Ísafirði og tekið þátt í ýmsum verkefnum og verklegum æfingum. Heimsóknin er hluti af samstarfsverkefni milli skólanna tveggja, sem miðar að því að efla faglega færni og menningarsamskipti nemenda.

Auk námsins hafa nemarnir skoðað sig um í nágrenninu og heimsótt meðal annars Dynjanda og Bolafjall. Nemendurnir halda héðan aftur heim 26. nóvember, með nýja reynslu og þekkingu í farteskinu. Á meðfylgjandi mynd má sjá hópinn ásamt Mads og Alexíusi stálsmíða kennara Menntaskólans á Ísafirði, nemendurnari halda á kertaluktum sem þau smíðuðu á meðan dvöl þeirra stóð. 

18 nóv 2024

MÍ hlaut Íslenskusénsinn 2024

Laugardaginn 16. nóvember, á degi íslenskrar tungu, hlaut MÍ Íslenskusénsinn 2024. Það er Gefum íslensku séns – íslenskuvænt samfélag sem stendur að verðlaununum. Íbúum norðarverðra Vestfjarða gafst tækifæri til að útnefna þann aðila, fyrirtæki, stofnun, einstakling eða félagasamtök sem hvetja sem mest til íslenskunotkunar í víðum skilningi og stuðla þar af leiðandi að framförum í meðförum tungunnar samkvæmt þeim einkunnarorðum að íslenska lærist ekki nema hún sé notuð. MÍ hlaut flestar tilnefningar og hlýtur þar með fyrst allra Íslenskusénsinn. Við í MÍ erum þakklát fyrir þennan heiður og verðlaunin hvetja okkur enn frekar til dáða í að efla íslenskunotkun innan skólans. 

 

15 nóv 2024

Dagur íslenskrar tungu

Dagur íslenskrar tungu er haldinn hátíðlegur á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar, 16. nóvember ár hvert. Í ár ber hann upp á laugardegi og nemendur og starfsfólk tóku því forskot á sæluna og fögnuðu deginum í dag. Vaida Braziunaité er kennari í íslensku sem öðru máli og stóðu hún og nemendur hennar fyrir skemmtilegu innslagi um tungumálið. Nemendur kynntu sín móðurmál og fengu viðstaddir m.a. að læra að segja góðan daginn á arabísku, telja upp á tíu á tékknesku, segja bless á tælensku, blóta á pólsku og hlusta á tungubrjót á ungversku.

12 nóv 2024

Framboðsfundur og skuggakosningar

Þessa dagana stendur yfir lýðræðisvika í flestum framhaldsskólum landsins. Kennarar eru hvattir til að leggja fyrir lýðræðistengd verkefni í tímum, hvetja nemendur til þess að svara spurningum kosningavitans og stuðla að  stjórnmálaumræðu í tímum. Í gær, mánudaginn 11 nóvember mættu fulltrúar allra flokka sem bjóða fram í alþingiskosningum á framboðsfund sem nemendafélag MÍ stóð fyrir. Fundurinn fór fram í gryfjunni og voru það Jón Gunnar gjaldkeri NMÍ og Sæunn Lív menningarviti NMÍ sem stýrðu fundi. Eftir stutta framsögu frá öllum frambjóðendum voru teknar fyrir spurningar úr sal. 

Lýðræðisvikan endar á skuggakosningum þann 21. nóvember. Á kjörskrá skuggakosninga eru allir nemendur í dagskóla sem fæddir eru 26. september 2003 og síðar. Nánar er hægt að fræðast um lýðræðisvikuna og skuggakosningar á síðunni www.egkys.is.

8 nóv 2024

8. nóvember er dagur gegn einelti

Áttundi nóvember er ár hvert helgaður baráttunni gegn einelti. Í tilefni þess héldu þrír nemendur, þau Jón Gunnar, Kristján Hrafn og Sæunn Lív, kynningu fyrir nemendur um hvað ofbeldi og einelti er og hversu víðtækar og alvarlegar afleiðingar það getur haft. Í kynningu sinni komu þau inn á sameiginlega ábyrgð allra í skólanum á því að skapa góða skólamenningu þar sem pláss er fyrir alla og hvöttu samnemendur til að þess að tilkynna allt ofbeldi og einelti sem þau verða vör við. Það má t.d. gera í gegnum ábendingahnapp á heimasíðunni www.misa.is. Í gæðahandbók skólans er að finna upplýsingar um stefnu skólans, aðgerðir og viðbrögð við einelti og ofbeldi, sjá hér.

8 nóv 2024

Nemendaþing

Fimmtudaginn 7. nóvember var haldið nemendaþing með svokölluðu þjóðfundasniði. Nemendum var skipt í hópa og tekin voru til umfjöllunar spurnigar um metnað, nám og félagslíf við skólann. Eftir umræður í hópum kynntu borðstjórar niðurstöður síns hóps. Boðið var upp á snúða og safa í hléi en fundurinn stóð frá kl. 9:45 til kl. 11: 45

Skólafundir skulu haldnir a.m.k. einu sinni á ári skv. lögum um framhaldsskóla og í MÍ hafa slíkir fundir verið haldnir á hverri önn um nokkurt skeið. Góð þátttaka var meðal nemenda og kennara á fundinum í ár og verða niðurstöður hans teknar saman og kynntar áður en önninni lýkur. 

4 nóv 2024

Dreifnám á vorönn 2025

Á vorönn 2025 er stefnt að því að bjóða upp á tvær nýjar námsgreinar í lotubundnu dreifnámi. Um er að ræða húsasmíði annars vegar og múraraiðn hins vegar, hvoru tveggja með fyrirvara um næga þátttöku. Námið verður kennt í staðbundnum helgarlotum og fjarnámi þess á milli. Nemendur sem náð hafa 23 ára aldri og eru með 3 ára starfsreynslu í viðkomandi grein geta farið í raunfærnimat. Fyrir frekari upplýsingar má senda póst á fjarnam@misa.is eða hringja í síma 4504400. 

31 okt 2024

Nám á vorönn

Skráning í nám á vorönn 2025 hefst  föstudaginn 1. nóvember.

  

Innritun í fjarnám fer fram á umsóknarvef skólans og stendur yfir til 3. janúar 2025.

Innritun í dagskóla fer fram á menntagátt og stendur yfir til 30. nóvember.

Innritun í dreifnám fer fram á fjarnam@misa.is  

Nánari upplýsingar veitir Martha Kristín áfanga- og fjarnámsstjóri, martha@misa.is