23 maí 2019

Brautskráning vorannar 2019

Laugardaginn 25. maí verður 41 nemandi brautskráður frá skólanum. Níu nemendur ljúka námi af verk- og starfsnámsbrautum. Þrír með A réttindi vélstjórnar, tveir með A réttindi skipstjórnar og einn með B réttindi skipstjórnar. Þá brautskrást þrír sjúkraliðar frá skólanum. Fjórir nemendur ljúka námi á lista og nýsköpunarbraut, þar af er einn sem einnig lýkur stúdentsprófi af opinni stúdentsprófsbraut. Alls ljúka 29 nemendur námi af bóknámsbrautum skólans, einn lýkur stúdentsprófi af fagbraut og einn af starfsbraut. Sjö brautskrást af opinni stúdentsbraut, níu af náttúruvísindabraut og 11 af félagsvísindabraut. Útskriftarathöfnin verður í Ísafjarðarkirkju og hefst kl. 13. Allir eru velkomnir á athöfnina. en þeir sem ekki komast geta fylgst með henni í beinu streymi hér

11 maí 2019

Sýning á verkum nemenda í hugmyndum og nýsköpun

Nú stendur yfir sýning á verkum nemenda sem unnin voru í áfanganum hugmyndir og nýsköpun, HUGN1HN05, á þessari önn.  Í áfanganum kynntust nemendur hönnunarferli og nýsköpun.  Byrjað var að vinna með hugmyndir, tengingu og fleira þar sem hugmyndir þróuðust. Að lokum var gert sýnishorn af væntanlegri framleiðslu. Verkin á sýningunni sýna hvernig hugmyndir nemenda fæddust, hvernig þær þróuðust og hver hugsamleg útkoma gæti orðið. 

Sýningin  er á göngunum á efri hæð bóknámshússins og stendur yfir dagana 13.-15. maí og er opin á skólatíma. Allir eru velkmnir.

 

 

2 maí 2019

Opið fyrir umsóknir í ungmennaráð heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna

Ungmennaráð heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna óskar eftir ungu fólki á aldrinum 13-18 ára. Ráðið fundar sex sinnum á ári en þar að auki hefur starfandi ungmennaráð tekið þátt í fjölmörgum viðburðum á síðastliðnu ári. Má þar meðal annars nefna þátttöku í Hringborði Norðurslóða í Hörpu, heimsþingi kvenleiðtoga, friðarráðstefnu Höfða friðarseturs og hátíðarhöldum í tengslum við fullveldisafmæli Íslands þann 1. desember síðastliðinn!
 
Valdir verða tólf fulltrúar í ráðið á aldrinum 13-18 ára sem munu fræðast og fjalla um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna ásamt því að vinna og miðla gagnvirku efni á samfélagsmiðlum um markmiðin og sjálfbæra þróun. Ungmennaráðið veitir stjórnvöldum, í gegnum verkefnastjórn heimsmarkmiðanna, aðhald og ráðgjöf við innleiðingu markmiðanna ásamt því að funda árlega með ríkisstjórn.
 

Frekari upplýsingar og umsóknareyðublað er að finna á stjornarradid.is/umsokn. Opið verður fyrir umsóknir til og með 13. maí nk.

 
 
Hér má lesa nánar um ráðið.
30 apr 2019

Æfingum á afreksíþróttasviði að ljúka þetta vorið

Í haust hóf afreksíþróttasvið aftur starfsemi við MÍ eftir nokkurt hlé. 32 nemendur í 5 íþróttagreinum stunda nú nám á sviðinu og vonir standa til að í haust fjölgi bæði nemendum og greinum. Síðustu æfingarnar á afreksíþróttasviðinu standa nú yfir og í dag var tilvalið að færa blakæfinguna út sem gaf körfuboltakrökkunum tækifæri til að spila einn leik inni á meðan.

Frekari upplýsingar um nám á afreksíþróttasviðinu má finna hér.

30 apr 2019

Fræðsla um kvíða

Fimmtudaginn 2. maí verður boðið upp á fræðslu um kvíða í fundartímanum kl. 10:30-11:30. Fræðslan fer fram í Gryfjunni. Um fræðsluna sér Steinunn Anna Sigurjónsdóttir sálfræðingur á Litlu kvíðameðferðarstöðinni. Áhugasamir nemendur eru hvattir til að mæta.

30 apr 2019

Góðgerðavika NMÍ

Nú stendur yfir góðgerðarvika í Menntaskólanum á Ísafirði og eru nemendur að safna fyrir börn í Jemen. Hægt er að leggja inn á reikning 0556-26-1036, kt. 460389-2119. Þegar ákveðinni upphæð hefur verið safnað munu ýmiss konar áheit verða að veruleika.

13 apr 2019

Páskaleyfi

Páskaleyfi er hafið í Menntaskólanum á Ísafirði. Skrifstofa skólans opnar aftur kl. 8 miðvikudaginn 24. apríl og kennsla hefst sama dag samkvæmt stundaskrá. Gleðilega páska! 

8 apr 2019

Innritun annarra en 10. bekkinga hafin

7. apríl hófst innritun annarra en 10. bekkinga í MÍ. Fjölbreytt námsframboð er í boði sem hægt er að kynna sér nánar á heimasíðu skólans. Margar námsleiðir eru í boði í dagskóla, allir bóknámsáfangar eru kenndir í fjarnámi og nokkrar námsleiðir eru kenndar í dreifnámi sem þýðir að það nám er hægt að stunda með vinnu.

Allar frekari upplýsingar um nám við skólann gefa Heiðrún Tryggvadóttir áfangastjóri og Stella Hjaltadóttir náms- og starfsráðgjafi. 

Forinnritun 10. bekkinga hefur nú staðið yfir frá því 8. mars og lýkur henni 12. apríl. Lokainnritun er síðan 6. maí - 7. júní. Innritun annarra en 10. bekkinga lýkur 31. maí.

 

Hægt er að sækja um nám beint í skólann eða í gegnum Menntagátt.

5 apr 2019

Hópur danskra nemenda í heimsókn

Þessa viku og næstu munu 9 nemendur frá samstarfsskóla okkar í Danmörku, EUC Lillebælt, ásamt kennara og deildarstjóra vera við nám í skólanum. Hópurinn gistir á heimavistinni og vinnur hér að skólaverkefnum undir leiðsögn kennarans síns. Þetta er í fyrsta skipti sem við fáum heimsókn af þessu tagi og vonum við að þær eigi eftir að verða fleiri í framtíðinni.

Fyrir utan námið hefur hópurinn farið í heimsóknir í 3X og Vélsmiðjuna Þrist sem og skoðað gömlu vélsmiðjuna á Þingeyri. Danirnir halda heim á leið föstudaginn 12. apríl. 

20 mar 2019

Heimsleikar Special Olympics í Abu Dhabi - Þorsteinn Goði keppir í badminton

Þorsteinn Goði Einarsson nemandi á 1. ári í MÍ er núna staddur í mikilli ævintýraferð í Abu Dhabi þar sem hann tekur þátt í heimsleikum Special Olympics. Þorsteinn Goði keppir fyrir hönd íþróttafélagsins Ívars ásamt félaga sínum úr Bolungarvík Guðmundi Kristni Jónassyni. Þeir keppa í tvíliðaleik í badminton og þjálfari þeirra er Jónas L. Sigursteinsson er með þeim í Abu Dhabi. Keppni er hafin og hafa drengirnir mátt þola töp en einnig unnið sigra. Þeim er óskað innilega til hamingju með árangurinn. Öll ferðin er mikil upplifun og má fylgjast með ævintýrum þeirra í myndum á instagram síðunni: itr_ivar_abu_dhabi

Íslenski hópurinn á heimsleikunum hefur nú dvalið ytra í nær tvær vikur við undirbúning og keppni. Íþróttasamband fatlaðra er með fréttir af hópnum inn á sínum síðum: Snapchat (ifsport) og Instagram (npciceland) sem og á Facebook-síðu sambandsins.