19 jan 2024

MÍ komið áfram í sjónvarpshluta Gettu betur

Nú rétt í þessu lauk viðureign MÍ og Framhaldsskólans á Laugum í 2. umferð Gettu betur. MÍ vann viðureignina 18-7. Það þýðir að MÍ er kominn áfram í næstu umferð sem fer fram í sjónvarpi. Er það í 3. skipti sem skólinn nær svo langt að keppa í sjónvarpi. Til hamingju Daði Hrafn, Mariann, Saga Líf, Signý og þjálfararnir Einar Geir og Jón Karl.

19 jan 2024

MÍ keppir í Gettu betur í kvöld

Í kvöld keppir lið skólans í 2. umferð Gettu betur. Mótherjar að þessu sinni er Framhaldsskólinn á Laugum. Keppnin fer fram á RÁS 2 kl. 19:23. Áfram MÍ!

16 jan 2024

Margir nemendur skólans heiðraðir fyrir árangur í íþróttum

Um helgina voru útnefndir íþróttamenn ársins bæði í Bolungarvík og í Ísafjarðarbæ auk þess sem efnilegir íþróttamenn voru heiðraðir. Margir MÍ-ingar fengu þar viðurkenningar. Mörg þeirra sem hlutu viðurkenningar eru á íþróttasviði skólans en þar stunda nú alls 40 nemendur, eða 23% dagskólanemenda, nám í 8 íþróttagreinum; blaki, bogfimi, handbolta, knattspyrnu, körfubolta, ólympískum lyftingum, skíðagöngu og sundi.

Í Bolungarvík voru Jóhanna Wiktoría Harðardóttir í körfubolta og Mattías Breki Birgisson skíðamaður tilnefnd til íþróttamanns ársins. Auk þess fengu Bríet María Ásgrímsdóttir, Jóhanna Wiktoria Harðardóttir og Katla Salóme Hagbarðsdóttir viðurkenningu fyrir góðan árangur í íþróttum en þær æfa allar körfubolta.

Í Ísafjarðarbæ voru tveir nemendur tilnefndir sem íþróttamaður ársins en það voru þær Sigrún Betanía Kristjánsdóttir í knattspyrnu og Svanfríður Guðný Þorleifsdóttir í blaki. Elmar Atli Garðarsson knattspyrnumaður var valinn íþróttamaður Ísafjarðarbæjar 2023 en hann er fyrrum nemandi skólans. 8 nemendur voru tilnefndir sem efnilegasti íþróttamaður Ísafjarðarbæjar 2023 en það voru þau Grétar Smári Samúelsson í skíðagöngu, Guðrún Helga Sigurðardóttir í lyftingum, Hjálmar Helgi Jakobsson í körfuknattleik, Karen Rós Valsdóttir í skotfimi, Maria Kozak í bogfimi, Patrekur Bjarni Snorrason í knattspyrnu, Svala Katrín Birkisdóttir í knattspyrnu og Sverrir Bjarki Svavarsson í blaki. Maria Kozak og Sverrir Bjarki Svavarsson voru valin efnilegustu íþróttamenn ársins.

Við óskum nemendum okkar til hamingju með viðurkenningarnar.

Myndirnar sem fylgja fréttinni eru fengnar af www.bolungarvik.is og www.isafjordur.is

15 jan 2024

MÍ fær veglegan skólaþróunarstyrk

Fyrir helgi úthlutaði mennta- og barnamálaráðuneytið styrkjum til nýsköpunar og skólaþróunarverkefna á vettvangi leik-, grunn- og framhaldsskóla og frístundastarfs. Um nýja tímabundna styrki er að ræða til að innleiða aðgerð 2 í menntastefnu stjórnvalda til ársins 2030 um aukna skólaþróun um allt land.

Markmið styrkjanna er að stuðla að öflugri skólaþróun með fjölbreyttum verkefnum þar sem horft er til heildarnálgunar á menntun og víðtækrar samvinnu innan skóla og milli skóla og annarra stofnana, auk samvinnu heimila og skóla. Styrkjunum er þannig ætlað að styðja við nýja nálgun og vera hreyfiafl framfara í skóla- og frístundastarfi við innleiðingu menntastefnu, jafna tækifæri nemenda um land allt og hvetja skóla til nýsköpunar á sviði skólaþróunar.

Alls bárust 73 umsóknir og hlutu 40 þeirra styrk að upphæð 99.816.802 kr. Fjórir framhaldsskólar hlutu styrk og er Menntaskólinn á Ísafirði einn þeirra. Skólinn hlaut alls 4.909.420 kr í styrk og er það þriðja hæsta styrkupphæðin á landsvísu.

Verkefnið sem MÍ hlaut styrk fyrir er þverfaglegt skólaverkefni með samstarfsaðilum um orkuframleiðslu og felst verkefnið í nýtingu mismunandi orkugjafa til að draga úr losun, umhverfisáhrifum og kostnaði.

Verkefninu í heild er ætlað að auka skilning kennara og nemenda á orkuframleiðslu og hvernig hægt er að nýta mismunandi orkugjafa til að draga úr losun, umhverfisáhrifum og kostnaði. Verkefnið verður unnið með sérfræðingum Bláma (Blámi er samstarfsverkefni Landsvirkjunar, Orkubús Vestfjarða, Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis og Vestfjarðastofu) og Orkubús. Með þverfaglegri nálgun innan skólans mun skapast vettvangur til að samþætta námsgreinar og tengja saman nemendur úr ólíkum námsgreinum.

Menntaskólinn á Ísafirði hyggst setja upp sólarsellur við verkmenntahús skólans sem nota á til kennslu, þjálfunar og til að sinna hluta af orkunotkun skólans. Nemendur í húsasmíða-, málm- og vélstjórnargreinum munu smíða grind undir sólarsellurnar og nemendur í rafiðn- og vélstjórnargreinum munu koma þeim fyrir og tengja í samvinnu við sérfræðinga frá Orkubúi Vestfjarða og Bláma. Nemendur í ýmsum öðrum námsgreinum munu vinna ýmis verkefni í tengslum við sólarorkuverið. Þannig verður verkefnið bæði hluti af þverfaglegum áfanga sem skólinn mun hanna en sömuleiðis skapast möguleikar í hinum ýmsu áföngum til að tengjast verkefninu, bæði bóklegum og verklegum.

Við erum afar þakklát fyrir þennan veglega styrk og hlökkum mikið til samstarfsins við Bláma og Orkubú Vestfjarða. Verkefnið fer af stað nú á vordögum og verður komið á fulla ferð næsta haust.

 

11 jan 2024

MÍ mætir Laugum í 2. umferð Gettu betur

Nú hefur verið dregið í 2. umferð eða 16 liða úrslit Gettu betur. MÍ sem komst áfram í 2. umferð eftir góðan sigur á ME mun í þeirri umferð mæta Framhaldsskólanum að laukum. Keppnin mun fara fram í útvarpi þann 18. janúar n.k. kl. 20:00. Við óskum liði MÍ góðs gengis í keppninni.

10 jan 2024

Húsasmiðjan gefur húsasmiðanemendum smíðavesti

Á dögunum færði Húsasmiðjan á Ísafirði húsasmiðanemendum smíðavesti að gjöf, merkt nafni hvers og eins. Vestin eiga eftir að koma sér vel í námi nemendanna. Við þökkum Húsasmiðjunni kærlega fyrir gjöfina og góðvild þeirra í garð skólans í gegnum tíðina.

8 jan 2024

MÍ komið áfram í Gettu betur

Lið Menntaskólans á Ísafirði er komið áfram í 2. umferð Gettu betur. Liðið vann góðan sigur á Menntaskólanum á Egilsstöðum, 29-13. 

 

Lið MÍ er skipað þeim Daða Hrafni Þorvarðarsyni, Mariann Raehni og Sögu Líf Ágústsdóttir. Signý Stefánsdóttir er varamaður og þjálfarar eru þeir Einar Geir Jónasson og Jón Karl Ngosanthiah Karlsson. 

Við óskum Gettu betur-liðinu innilega til hamingju með sigurinn!

5 jan 2024

MÍ keppir við ME í Gettu betur á mánudaginn

Lið Menntaskólans á Ísafirði og lið Menntaskólans á Egilsstöðum eigast við í fyrstu umferð Gettu betur á mánudaginn, 8. janúar. Fyrsta umferð fer fram í útvarpi. 

Lið MÍ er skipað þeim Daða Hrafni Þorvarðarsyni, Mariann Raehni og Sögu Líf Ágústsdóttir. Signý Stefánsdóttir er varamaður og þjálfarar eru þeir Einar Geir Jónasson og Jón Karl Ngosanthiah Karlsson. Liðið hefur æft stíft síðan í haust og er spennt fyrir komandi viðureign. Við óskum Gettu betur liðinu góðs gengis. Áfram MÍ!

 

2 jan 2024

Upphaf vorannar

Skólastarf hefst að nýju eftir jólafrí fimmtudaginn 4. janúar. Nemendur eiga að mæta í Gryfjuna kl. 11:45 þar sem verður stuttur fundur en eftir hann hefst kennsla skv. stundatöflu. 

21 des 2023

Brautskráning

Miðvikudaginn 20. desember fór fram brautskráning frá Menntaskólanum á Ísafirði. Athöfnin fór fram í Ísafjarðarkirkju og var henni jafnframt streymt af Viðburðastofu Vestfjarða.

Á haustönn voru 448 nemendur skráðir í nám við skólann. Alls voru 184 nemendur í dagskóla og þar af 57 nýnemar. Aðrir nemendur stunduðu dreifnám eða fjarnám. Nemendahópurinn okkar er mjög fjölbreyttur. Yngsti nemandinn er 14 ára og sá elsti 65 ára. Margir nemendur eru með annan tungumála- og menningarbakgrunn en íslenskan og í dagskóla er hlutfall þeirra 25%. Um helmingur dagskólanemenda skólans stundar nám á starfs- eða verknámsbrautum og er það svipað hlutfall og undanfarnar annir.

Alls brautskráðust 32 nemendur frá skólanum að þessu sinni. Af þeim voru 5  dagskólanemendur, 16 dreifnámsnemendur og 11 nemendur í fjarnámi með MÍ sem heimaskóla.

Nemendurnir 32 útskrifuðust af 13 námsbrautum:

  • 1 nemandi úr grunnnámi rafiðngreina 
  • 6 nemendur úr húsasmíði
  • 3 nemendur úr iðnmeistaranámi 
  • 1 nemandi af sjúkraliðabraut
  • 1 nemandi af sjúkraliðabrú
  • 1 nemandi af skipstjórnarbraut A 
  • 3 nemendur af skipstjórnarbraut B
  • 1 nemandi úr stálsmíðanámi 
  • 1 nemandi með viðbótarnám við smáskipanám 
  • 18 nemendur með stúdentspróf (4 af félagsvísindabraut, 1 af náttúruvísindabraut, 8 af opinni stúdentsbraut og 4 með stúdentspróf af fagbraut) 
     

Fimm nemendur fengu verðlaun við brautskráninguna:

Baldur Freyr Gylfason hlaut verðlaun fyrir góðan árangur í grunnnámi rafiðna. Fríða Ástdís Steingrímsdóttur hlaut verðlaun fyrir seiglu í námi. Jón Karl Ngosanthiah Karlsson hlaut verðlaun fyrir góða þátttöku í félagsstörfum. Lára Ósk Pétursdóttir hlaut verðlaun fyrir góðan námsárangur. Robera Soparaite hlaut verðlaun fyrir góðan árangur í húsasmíðanámi.

Við óskum útskriftarnemendum innilega til hamingju með áfangann og þökkum þeim ánægjulega samfylgd á námsárum þeirra í MÍ.