19 des 2023

Brautskráning 20. desember

Miðvikudaginn 20. desember verða 32 nemendur brautskráðir af 13 námsbrautum. Brautskráningarathöfnin fer fram í Ísafjarðarkirkju og hefst kl. 15:00. Viðburðarstofa Vestfjarða mun streyma frá athöfninni, hægt er að horfa hér.

14 des 2023

Stöðupróf

Viljum vekja athygli á að Menntaskólinn við Sund heldur stöðupróf í eftirfarandi tungumálum fimmtudaginn 25. janúar 2024:

Arabíska
Hollenska
Lettneska
Pólska
Rússneska
Víetnamíska
Þýska

Sjá nánari upplýsingar hjá MS

5 des 2023

Sænska 1&2 í fjarnámi á vorönn 2024

Á vorönn 2024 verða bæði sænska 1 og 2 í boði í fjarnámi* við MÍ.

Inntökuskilyrði í sænsku 1 (SÆNS2NB05) eru að nemendur hafi grunnþekkingu í sænsku.
Inntökuskilyrði í sænsku 2 (SÆNS2NV05) eru að nemendur hafi lokið sænsku 1.

Áhugasamir geta sótt um í gegnum umsóknarvef skólans til 3. janúar 2024.

Allar nánari upplýsingar veitir Martha Kristín áfanga- og fjarnámsstjóri, martha@misa.is

*með fyrirvara um næga þátttöku

30 nóv 2023

Jólavika

MÍ er sannarlega að komast í jólaskap þessa dagana. Jólavika nemendafélagsins stendur yfir og hafa nemendur verið að gera jólalegt í kringum sig með borðskreytingum og jólalegu þema alla vikuna. Í dag var jólapeysuþema og á morgun er sparifataþema í tilefni 1. des. Um kvöldið verður svo haldinn hinn árlegi fullveldisfagnaður og mikil stemning í loftinu. Vikan sem er að líða er síðasta heila vikan í kennslu og taka svo við námsmatsdagar 6. - 13. desember. 

30 nóv 2023

Jólavika

MÍ er sannarlega að komast í jólaskap þessa dagana. Jólavika nemendafélagsins stendur yfir og hafa nemendur verið að gera jólalegt í kringum sig með borðskreytingum og jólalegu þema alla vikuna. Í dag var jólapeysuþema og á morgun er sparifataþema í tilefni 1. des. Um kvöldið verður svo haldinn hinn árlegi fullveldisfagnaður og mikil stemning í loftinu. Vikan sem er að líða er síðasta heila vikan í kennslu og námsmatsdagar taka við 6. - 13. desember. 

28 nóv 2023

Nemendur frá EUC Lillebælt í heimsókn

Undanfarna daga hafa danskir málmsmíðanemendurnemendur og kennari þeirra frá samstarfsskóla okkar, EUC Lillebælt, verið í skólaheimsókn. Nemendurnir hafa unnið að verkefnum undir leiðsögn Jonasar kennara auk þess sem þeir hafa skoðað sig um hér á svæðinu. Hópurinn gistir á heimavistinni.

Menntaskólinn á Ísafirði og EUC Lillebælt hafa átt gott samstarf í málmiðngreinum frá árinu 2011. Nemendur og kennarar frá skólunum hafa skipst á heimsóknum, kynnst þannig nýjum skólaaðstæðum og farið í fyrirtækjaheimsóknir. Samstarfið hefur verið farsælt frá upphafi og stefnt er að því að hópur frá MÍ fari til Danmerkur árið 2024.

 

 

27 nóv 2023

Hörður Christian hlýtur 2. sæti í MEMA nýsköpunarhraðlinum

 

Þann 23. nóvember sl. fór fram verðlaunahátíð nýsköpunarhraðalsins MEMA en hraðallinn er árlegur viðburður sem hefur það að markmiði að hvetja ungt fólk til að takast á við samfélagslegar áskoranir með hugviti og tækni. Áhersla er lögð á heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, og í ár var sérstök áhersla lögð á líf í vatni. Sérfræðingar frá Háskóla Íslands og úr atvinnulífinu veittu nemendum stuðning og innsýn í þessi málefni og var verðlaunaafhendingin haldin þar. 

Samkeppnin var hörð að þessu sinni en 14 hugmyndum var skilað inn frá fimm framhaldsskólum. Allar lögðu áherslu á að bæta líf í vatni, sem er 14 heimsmarkmið sameinuðu þjóðanna. Fjölbrautaskólinn við Ármúla, Framhaldsskóli Snæfellinga,  Menntaskólinn við Hamrahlíð, Fjölbrautaskólinn í Breiðholti og Menntaskólinn á Ísafirði voru þeir skólar sem skiluðu inn lausnum að þessu sinni. Nemendur þessara skóla, sem hófu vinnu sína í haust, tókust á við þá flóknu áskorun að þróa lausnir sem geta haft jákvæð áhrif á vistkerfi vatns.

 Hörður Christian Newman nemandi við Menntaskólinn á Ísafirði heillaði alla dómnefndina upp úr skónum og hreppti annað sætið fyrir hugmyndina Sædís. Sædís er útsýnissjókví sem ræktar þara og kræklinga til að hreinsa mengun og draga úr súrnun sjávar. Sædís minnir notendur einnig á mikilvægi hafsins fyrir líf á jörðinni og fræðir um heilsu hafsins. 

 Dómnefndin stóð frammi fyrir erfiðu vali að sögn Þóru Óskarsdóttur forstöðukonu Fab Lab Reykjavík og eins stofnenda hraðalsins. Það var að lokum hugmynd FÁ sem skar sig úr.  Hugmynd þeirra felur í sér að nýta ugga og sporða á fiskum sem er alla jafna fargað á veiðum og við framleiðslu á fiskafurðum. Eftir mikið tilraunastarf náðu þau að þróa snakk úr uggunum sem er mjög næringarríkt en samt bragðgott. Snakkið er sérstaklega hugsað fyrir ungt fólk með ADHD eða á einhverfurófi sem forðast oft fisk vegna áferðarinnar.

 ,,Við gerum miklar kröfur til þátttakenda, þau þurfa ekki einungis að fá góða hugmynd, heldur þurfa þau einnig að sannfæra sérfræðinga á sviðinu um að þær væru raunhæfar“ segir Þóra og bætir við að í hraðlinum hafi nemendum tekist nokkuð sem fáum tekst að gera, að taka fyrstu skrefin í „frumgerðarsmíð“. Frumgerðir eru flestar eins og frumgerðir eiga að vera - ófullkomnar, en þær prófa eitthvað nýtt, hjálpa öðrum að skilja hugmyndina og færa hana nær veruleikanum. Þær skapa grundvöll til að þróa hugmyndina áfram og það er þessi vegferð sem þarf að fara til að þróa þær róttæku nýsköpunarlausnir sem á þarf að halda til að skapa sjálfbærri framtíð. 

 ,,Hugmyndirnar sem lagðar voru fram voru fjölbreyttar og áhrifaríkar sem gefur okkur sannarlega tilefni til að hafa trú á framtíðinni”. Segir Bryndís Steina Friðgeirsdóttir verkefnastjóri MEMA hraðalsins en frekari upplýsingar um hann fá finna á heimasíðunni mema.is.

 Við óskum Herði innilega til hamingju með árangurinn og sömuleiðis Ólöfu Dómhildi kennara hans á Lista- og nýsköpunarbraut sem haldið hefur utan um verkefnið. Í haust afa ýmsir aðilar í nærsamfélaginu  frætt og miðlað til nemenda MÍ um hönnun í atvinnulífinu. Hefur það vafalaust komi sér vel í undirbúningi fyrir verkefni af þessu tagi og má af þessu tilefni þakka góðar móttökur í Ívaf, Baader, Eflu, Pixel, Hampiðjunni og Netagerðinni. Einnig færum við Örnu Láru og Axel R. Överby þakkir fyrir að hlýða á kynningar nemenda á verkum sínum um hönnun við hafið og þá fær Catherine Chambers rannsóknarstjóri Háskólaseturs Vestfjarða sérstakar þakkir fyrir kynningu á sjávartengdum málefnum.

21 nóv 2023

Skólafundur

Í síðustu viku héldum við skólafund með svokölluðu ,,spurt og svarað" sniði þar sem nemendur gátu sent inn spurningar um hvað sem er tengt skólastarfinu, nafnlaust eða undir nafni. Starfsfólk og fulltrúar nemendafélags gerðu sitt besta til að svara og var þátttaka á fundinum góð. Margar áhugaverðar spurningar streymdu inn og hér eru nokkur dæmi um það sem tekið var til umræðu:

  • Hvað gerist ef ég fell á mætingu í vinnustofu?
  • Hvert getur maður farið til að tilkynna það að verið sé að leggja mann í einelti?
  • Hvað er gert ef að nemandi hættir ekki í símanum sínum?
  • Af hverju þurfum við að ná svona mörgum einingum til að útskrifast?
  • Þarf ég að fá leyfi til að fara á klósettið í tíma? 
  • Hvenær er næsti nemó viðburður?

Það er mikilvægt að eiga reglulega samtal við nemendur og fá að heyra þeirra rödd, skoðanir og vangaveltur varðandi skólastarfið. Skólafundir skulu haldnir a.m.k. einu sinni á ári skv. lögum um framhaldsskóla og í MÍ hafa slíkir fundir verið haldnir á hverri önn um nokkurt skeið.

 

16 nóv 2023

Dagur íslenskrar tungu

Í dag er afmælisdagur Jónasar Hallgrímssonar og jafnframt dagur íslenskrar tungu. Á bókasafninu var haldið upp á daginn og ýmsum nýjum og nýlegum bókum eftir íslenska höfunda teflt fram til kynningar. Við veltum líka fyrir okkur tungumálum almennt því í Menntaskólanum á Ísafirði eru töluð mörg mismunandi tungumál og um fjórðungur nemenda okkar hefur annað móðurmál en íslensku. Í óformlegri könnun meðal nemenda og starfsfólks kom í ljós að tungumálin eru a.m.k. 17 talsins. Við fögnum fjölbreytileikanum og degi íslenskrar tungu í dag. 

15 nóv 2023

Sjónlistir í Neista

Nemendur í sjónlistum á lista- og nýsköpunarbraut sýna verk sín í verslunarhúsnæðinu Neista á Ísafirði 14. - 21. nóvember. Nemendurnir unnu verkin út frá þemanu minning. Samræður um minningar og skissur leiddu að myndverki og skúlptúr. Á sýningunni má sjá tvívíð myndverk og ljósmyndir af skúlptúrum sem nemendur unnu út frá minningum. 

 

Nemendurnir sem eiga verk á sýningunni eru: 

Anna María Ragnarsdóttir

Brynhildru Laila R Súnadóttir

Emma Katrín Tumadóttir

Finnur Högni Jóhannsson

Johanne Haugaard

Kristjana Rögn Andersen

Saga Eyþórsdóttir

Thichaporn Buaphan

Viktoriia Kryzhanovska