25 okt 2023

Vetrarljós

Nemendur í lista- og nýsköpunargreinum tóku þátt í hönnunarkeppni um vetarljós ásamt Lýðskólanum á Flateyri. Efnt var til keppninnar í tengslum við Veturnætur í Ísafjarðarbæ og á opnun hátíðarinnar fengu þrír nemendur verðlaun fyrir sína hönnun. Fyrstu verðlaun hlaut Úrsúla Örk fyrir lampa sem hún kallar Kuldabola, önnur verðlaun hlaut Anna Brauna fyrir standlampa með greniþema og þriðju verðlaun hlaut Anna María Ragnarsdóttir fyrir verk sitt sem nefnist ljóskrús. Vetrarljósin eru til sýnis í verslunargluggum við Silfurtorg. 

25 okt 2023

5 nemendur á íþróttasviði í U19 landsliði í blaki

Fimm nemendur sem stunda nám á íþróttasviði MÍ hafa verið valdir í U19 landsliðið í blaki. Alls eru 12 leikmenn í hópnum sem sem tekur þátt í Norður-Evrópumóti í Finnlandi 26. - 30. október. Þeir Benedikt Stefánsson, Hákon Ari Heimisson, Pétur Örn Sigurðsson, Stanislaw Anikej og Sverrir Bjarki Svavarsson lögðu af stað frá Ísafirði nú í morgun og óskum við þeim til hamingju með að hafa varið valdir í hópinn og góðs gengis á mótinu. 

23 okt 2023

Verkfall kvenna og kvára á kvennafrídaginn

Kvennafrídagurinn er á morgun þar sem á að mótmæla vanmati á störfum kvenna og kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi gagnvart konum og kynsegin fólki. Menntaskólinn á Ísafirði styður þessi málefni og hvetur konur, kvár, stelpur og stálp til að taka þátt. Af þeim sökum má búast við skertri kennslu og annarri þjónustu skólans þennan dag.

18 okt 2023

Kvennafrídagurinn

Kvennafrídagurinn verður haldinn þann 24. október n.k. Í ár á að mótmæla vanmati á störfum kvenna og kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi gagnvart konum og kynsegin fólki. Menntaskólinn á Ísafirði styður þessi málefni og hvetur konur, kvár, stelpur og stálp til að taka þátt. Af þeim sökum má búast við skertri kennslu og annarri þjónustu skólans þennan dag.

18 okt 2023

Löng helgi

Nú er hin kærkomna langa helgi framundan hjá okkur og verður engin kennsla dagana 19. - 23. okt. Skrifstofa skólans verður einnig lokuð þessa daga. Við vonum að nemendur og starfsfólk njóti frísins og komi endurnærð til starfa þriðjudaginn 24. október. Þann dag er að vísu fyrirhugað Kvennaverkfall til að mótmæla vanmati á störfum kvenna og kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi gagnvart konum og kynsegin fólki. Búast má við að starfssemi skólans raskist af þeim sökum. Konur, kvár, stelpur og stálp hafa fengið hvatningu frá skólanum um að taka þátt í skipulagðri dagskrá. 

10 okt 2023

Orkubúið heimsótt

Nemendur í grunndeild rafiðngreina fóru á dögunum í skemmtilega og áhugaverða vísindaferð. Orkubú Vestfjarða var heimsótt og skoðuðu nemendur m.a. starfstöð Landsnets. Vakti ferðin mikla lukku og þakkir færðar fyrir góðar mótttökur. 

6 okt 2023

Nemendur í hönnun flakka í fyrirtæki

Nemendur í hönnun hafa verið dugleg að heimsækja fyrirtæki á svæðinu í haust til að kynna sér starfsemi þar sem einhvers konar hönnun fer fram. Þar var margt áhugavert að sjá og heyra um eins og myndirnar bera með sér. Ólöf Dómhildur kennari í lista- og nýsköpunargreinum fylgdi nemendum í fyrirtækin og tók þessar skemmtilegu myndir m.a. af efnivið sem nemendur geta notað í verkefni í hönnunaráföngum. Fyrirtækin eru Ívaf, Háskólasetrið, Pixel, Hampiðjan og Netagerðin þar sem vinnustofur eru fyrir fólk í skapandi greinum. 

5 okt 2023

Val fyrir vorönn 2024

Kæru nemendur

Nú er komið að vali fyrir vorönn 2024.

Valið sjálft fer fram í gegnum INNU.

Allir nemendur í dagskóla sem ætla að halda áfram námi þurfa að velja áfanga fyrir næstu önn. Ekkert val þýðir engin stundatafla! Nemendur þurfa að velja 1 áfanga í varaval.

Fjarnemendur með MÍ sem heimaskóla, sem ætla að halda áfram fjarnámi við skólann og borga fyrir fjarnámið, geta líka valið áfanga.

Nýnemar fá aðstoð við valið í NÁSS1NN03. Allir nemendur geta auk þess fengið aðstoð við valið hjá áfangastjóra eða náms- og starfsráðgjafa. Hægt er að panta tíma hjá ritara eða með því að smella hér.

Væntanleg útskriftarefni: Nemendur sem ætla að útskrifast í maí 2024 þurfa að panta tíma hjá áfangastjóra eða námsráðgjafa til að fara yfir valið. Hægt er að panta tíma hjá ritara eða með því að smella hér.

Dagskólanemendur sem ætla ekki að vera við nám á haustönn þurfa að láta áfangastjóra vita martha@misa.is

 

Allar frekari upplýsingar um fyrirkomulag vals og áfanga í boði er að finna

hér

2 okt 2023

Gjöf til nemenda frá Rafmennt

Bára Laxdal Halldórsdóttir frá Rafmennt heimsótti nemendur í grunndeild rafiðngreina í dag og færði þeim öllum gæðalegar vinnubuxur sem munu koma að góðum notum. Við þökkum Báru og Rafmennt kærlega fyrir. Á myndinni má sjá nemendur með Báru, Sigurði Óskari kennara og Heiðrúnu skólameistara. 

29 sep 2023

Föstudagskaffi starfsbrautar

 

Í einni af skemmtilegri stofum skólans var boðið upp á kaffi í morgunsárið fyrir stofugesti.
Einn nemandi tók sig til, vaknaði snemma og bakaði dýrindis tertu fyrir bekkjarfélaga sína og kennara.
Áfangastjóri tróð sér með í kaffi og kom skælbrosandi og mett út á eftir.

Takk fyrir mig :)