21 apr 2010

Söngkeppni starfsbrautanna

Þann 26. mars sl. var söngkeppni starfsbrautanna haldin í Framhaldsskóla Vesturlands á Akranesi. Krakkarnir á starfsbraut MÍ skelltu sér á keppnina og fóru líka til Reykjavíkur áður en haldið var heim aftur. Þau voru sammála um að þetta hefði verið mjög skemmtileg ferð og hér er ferðasagan þeirra. Myndir úr ferðinni eru komnar inn á heimasíðunua. Á næsta ári verður haldin stuttmyndakeppni og hver veit nema krakkarnir okkar taki þátt í henni.
19 apr 2010

Ferð nemenda á Íslandsmót iðnnema

Dagana 17. - 19. mars sl. tóku nemendur í málm- og húsasmíði þátt í Íslandsmóti iðnnema í Reykjavík. Einnig var farið í heimsókn í skóla og fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu. Alls fóru 15 nemendur í ferðina ásamt kennurum sínum þeim Tryggva Sigtryggssyni og Þresti Jóhannessyni. Þeir Andri Guðnýjarson og Bjarni Kristinn Guðjónsson  kepptu í húsasmíði og Daníel Snær Bergsson, Óskar Þórisson og Ólafur Njáll Jakobsson kepptu í suðu. Myndir og ítarlegri frásögn af ferðinni er að finna hér.
14 apr 2010

Útivist og heilsuefling - kynning á sal

Í fundartíma fimmtudaginn 15. apríl verður kynning á sal á hvatningarátaki til heilsueflingar sem íþróttasvið skólans stendur fyrir í samvinnu við ýmsa aðila utan skólans. Tilgangurinn er að fræða og hvetja nemendur og almenning til að kynna sér þær leiðir sem helst eru í boði á vegum þeirra félaga og samtaka sem þátt taka í kynningunni. Eftirtaldir aðilar taka þátt í kynningunni: Ferðafélag Íslands/Ferðafélag Ísfirðinga, Heilsuefling í Ísafjarðarbæ, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands - Almenningsíþróttasvið, Lýðheilsustöð, hreyfing, holt fæði, geðhjálp o.fl Ungmennafélag Íslands - Ganga.is - Fjölskyldan á fjallið.    
6 apr 2010

VAL - LOKAFRESTUR

Lokafrestur til að velja áfanga fyrir haustönn 2010 er til kl. 16:00 þriðjudaginn 13. apríl. Þeir nemendur sem ekki velja sér áfanga fyrir þann tíma eiga ekki vísa skólavist næsta haust. Umsjónarkennarar leiðbeina við valið en ef frekari aðstoðar er þörf skal leita til námsráðgjafa eða áfangastjóra.
5 mar 2010

Skólablað NMÍ 2010

Skólablað MÍ 2010 er komið út. Það gengur að þessu sinni undir nafninu SMÁÍS og er hið glæsilegasta. Hægt er að nálgast blaðið með því að smella hér
1 mar 2010

Sólrisuhátíðin í fullum gangi

Sólrisuhátíðin sem sett var sl. föstudag er nú í fullum gangi. Nú þegar hefur Túskildingsóperan verið sýnd þrisvar en 4. sýning er þriðjudaginn 2. mars kl. 20:00. Margir viðburðir eru á dagskrá næstu daga og eru þeim gerð góð skil á síðunni solrisa.is. Í dag verður t.d. trommusólókeppni í löngu frímínútunum og svo kemur Þorsteinn Guðmundsson og sprellar á sal í kl. 12.30 á hádegi. Í kvöld verður svo uppistand í MÍ en þá kemur fram uppistandshópurinn Mið Ísland. Miðaverð á þann atburð er 700 krónur fyrir félaga í NMÍ en 1000 krónur fyrir aðra. Á morgun þriðjudag verður mjólkurdrykkjukeppni í löngu frímínútunum og í hádeginu kemur Bubbi Morthens fram á sal skólans. Áfram verður fjallað um viðburði vikunnar hér á síðunni bæði í fréttum og á atburðardagatali en einnig er áhugasömum bent á að skoða vefinn solrisa.is
26 feb 2010

Túskildingsóperan frumsýnd

Sólrisuleikritið Túskildingsóperan eftir Bertolt Brecht, í leikstjórn Hrafnhildar Hafberg, var frumsýnt í Edinborgarhúsinu í kvöld. Frumsýningargestir gerðu góðan róm að frammistöðu leikenda og annarra aðstandenda sýningarinnar í sýningarlok. Næstu sýningar á verkinu eru sem hér segir: Laugardaginn 27. febrúar, sunnudaginn 28. febrúar, þriðjudaginn 2. mars og fimmtudaginn 4. mars. Allar hefjast sýningarnar kl. 20:00 og er hægt að panta miða í síma 450-5565.
25 feb 2010

Sólrisuhátíð 2010

Hin árlega Sólrisuhátíð skólans verður sett föstudaginn 26. febrúar og stendur í rúma viku. Að vanda hefst setningarathöfnin á skrúðgöngu frá skólanum kl. 12 á hádegi. Gengið verður að Edinborgarhúsi þar sem boðið verður upp á létta hressingu. Sama dag verður innanhúsmót MÍ í fótbolta í íþróttahúsinu á Torfnesi og um kvöldið frumsýnir Leikfélag NMÍ Túskildingsóperuna í Edinborgarhúsinu. Fjölmargir viðburðir verða í boði alla vikuna og áhugasömum er bent á að kynna sér ítarlega dagskrá á solrisa.is en auk þess verða viðburðir kynntir hér á heimasíðu skólans.
26 jan 2010

Jöfnunarstyrkur

Opnað hefur verið fyrir umsóknir um jöfnunarstyrk vegna vorannar 2010! Umsóknarfrestur er til 15. febrúar næstkomandi. Hægt er að sækja um styrkinn í gegnum netbanka eða Innu, vefkerfi framhaldsskólanna.

Nemendur á framhaldsskólastigi sem ekki njóta lána hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna eiga rétt á að sækja um styrk til jöfnunar námskostnaðar, sbr. reglugerð nr. 692/2003.

 

Eitt frumskilyrði fyrir styrk er að umsækjandi stundi nám fjarri lögheimili og fjölskyldu sinni.

Skilyrði fyrir styrknum er að nemandi hafi gengið til lokaprófs úr a.m.k. 12 einingum á önninni í reglubundnu dagskólanámi.