Samstarfshópur um eflingu starfs- og verknáms

Á myndinni má sjá hluta af samstarfshóp MÍ og atvinnulífs. Frá hægri: Marinó Hákonarson, Dóróthea Ma…
Á myndinni má sjá hluta af samstarfshóp MÍ og atvinnulífs. Frá hægri: Marinó Hákonarson, Dóróthea Margrét Einarsdóttir, Heiðrún Tryggvadóttir, Jakob Tryggvason, Þröstur Jóhannesson, Ólöf Dómhildur Jóhannsdóttir, Sigurður Óli Rúnarsson, Ragnar Ingi Kristjánsson, Sævar Óskarsson og Valur Richter.

Á morgunverðarfundi með atvinnulífinu  í haust var stofnaður samstarfshópur MÍ og fulltrúa úr atvinnulífinu sem ætlað er að standa vörð um starfs- og verknámsmenntun og hvernig megi efla hana á Vestfjörðum.

Hópurinn er stofnaður að danskri fyrirmynd en í samstarfsskóla okkar EUC Lillebælt fengum við að kynnast þessu fyrirkomulagi sem hefur gefið góða raun . Síðan í haust hefur hópurinn komið þrisvar sinnum saman og rætt ýmis málefni tengd starfs- og verknámi og hefur starf hópsins styrkt til muna samstarf skólans og atvinnulífsins á svæðinu.

Á dögunum hittist hópurinn og ræddi við nokkra alþingismenn um fyrirhugaða byggingu verknámshúss og í ágúst mun hópurinn svo hitta mennta- og barnamálaráðherra á fundi. Við látum hér fylgja með ályktun frá hópnum um byggingu verknámshúss sem afhent var Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra eftir fund hennar á Ísafirði í síðustu viku.

Hópinn skipa Ragnar Ingi Kristjánsson, fulltrúi Félags járniðnaðarmanna á Ísafirði, Hermann Smelt, Hampfirma, Jakob Ólafur Tryggvason, Vélsmiðjan Þrymur, Jóhanna Fylkisdóttir, Krullan – hársnyrtistofa, Marinó Hákonarson, Ísblikk, Paul Lukas Smelt, Hampfirma, Sævar Óskarsson, Póllinn, Valur Richter, Vestfirskir verktakar, Sigurður Óli Rúnarsson, Dokkupúkinn auk starfsmanna úr MÍ.

 

Ályktun frá Menntaskólanum á Ísafirði og hópi iðnaðarmanna á Vestfjörðum
vegna stöðu mála um byggingu verknámshúss

Við undirrituð, fulltrúar Menntaskólans á Ísafirði og hópur iðnaðarmanna á svæðinu, lýsum yfir miklum áhyggjum af stöðu uppbyggingar verknámshúss við skólann og þeirri hægu framvindu sem hefur einkennt verkefnið til þessa.

Við áttum góðan fund með alþingismönnum um daginn þar sem við lýstum mikilvægi starfs- og verknáms fyrir svæðið, nauðsyn þess að efla slíkt nám á Vestfjörðum og skapa þannig nemendum í fjórðungnum gott aðgengi að starfs- og verknámi. Til þess þarf meðal annars nýtt verknámshús. Undirritun viljayfirlýsingar ríkis og fimm sveitarfélaga á Vestfjörðum þann 4. apríl á síðasta ári var mikilvægt skref. Það var þó einungis skref til að bæta úr algjörlega óviðunandi aðstöðu í starfs- og verknámskennslu en lítið samtal átti sér stað í aðdragandanum um sameiginlega sýn á starfs- og verkmenntun til framtíðar. Tíminn sem liðinn er frá undirritun viljayfirlýsingar hefur lítið verið nýttur til undirbúnings byggingarinnar og framkvæmdin öll dregist úr hömlu.

Menntaskólinn á Ísafirði gegnir lykilhlutverki í menntun á svæðinu. Hann þarf að geta boðið upp á fjölbreytt starfs- og verknámi til að bregðast við þörfum samfélagsins og atvinnulífsins. Núverandi fjármagn og aðstaða eru langt frá því að gera það mögulegt og ljóst er að viðvarandi skortur á fjárfestingu í starfs- og verknámi dregur úr möguleikum skólans til að veita nemendum á Vestfjörðum framúrskarandi menntun í fjölbreyttum starfs- og verkgreinum.

Nemendur sem fá tækifæri til að stunda nám í heimabyggð eru líklegri til að setjast hér að og leggja sitt af mörkum til samfélagsins til framtíðar. Við hvetjum stjórnvöld eindregið til að bregðast hratt við og tryggja nauðsynlegt fjármagn, hraða framkvæmdum við nýtt verknámshús og styrkja þannig stoðir starfs- og verknáms á Vestfjörðum. Þetta er nauðsynlegt skref til að tryggja jafnræði til náms og eflingu byggðar á Vestfjörðum.

Heiðrún Tryggvadóttir, skólameistari

Sigríður Ólöf Kristjánsdóttir, formaður skólanefndar MÍ

Dóróthea Margrét Einarsdóttir, aðstoðarskólameistari MÍ

Martha Kristín Pálmadóttir, áfanga- og fjarnámsstjóri MÍ

Ólöf Dómhildur Jóhannsdóttir, sviðsstjóri list- og verknámskennara í MÍ

Þröstur Jóhannesson, verkefnastjóri í MÍ

 

Hermann Smelt, Hampfirma

Jakob Ólafur Tryggvason, Vélsmiðjan Þrymur

Jóhanna Fylkisdóttir, Krullan - hársnyrtistofa

Marinó Hákonarson, Ísblikk

Paul Lukas Smelt, Hampfirma

Sævar Óskarsson, Póllinn

Valur Richter, Vestfirskir verktakar