Viðbrögð vegna COVID-19

29 okt 2020

Vikan 26. - 30. okt.

Kæru nemendur,

takk fyrir góða mætingu á skólafundinn á fimmtudaginn þar sem umræðuefnin voru valið framundan og nám á tímum Covid.

Vikan framundan verður óbreytt frá síðustu viku. Núverandi sóttvarnaraðgerðir um skólahald gilda til 10. nóvember og fram er grímuskylda fyrir alla sem koma í skólahúsnæðið.

Við vekjum athygli á að valtímabil stendur nú yfir en því lýkur miðvikudaginn 28. okt. Þið getið nálgast allar upplýsingar um valið hér. Hægt er að fá aðstoð við valið hjá áfangastjóra og náms- og starfsráðgjafa. Aðstoðin getur verið í gegnum tölvupóst, síma, á skrifstofu eða á Teams, allt eftir hvað hentar ykkur. Hægt er að panta tíma hjá ritara eða með því að smella hér 

Ekki vinna of mikið

Margir nemendur vinna með námi. Mikilvægt er að nemendur fari ekki að vinna meira á meðan þetta Covid-skólaástand stendur. Námið þarf að ganga fyrir og það er jafnmikil mætingaskylda í kennslustundir á Teams eins og kennslu í skólastofu.

Vikulega upplýsingapóstinn til nemenda er að finna hér.

19 okt 2020

Vikan 20. - 23. okt.

Búið er að framlengja sóttvarnaraðgerðir varðandi skólahald til 10. nóvember.

Það þýðir að fyrirkomulag varðandi kennslu í MÍ verður áfram eins og það var vikuna fyrir haustfrí.

Eina breytingin er sú að í stað 1m reglu gildir nú 2m regla um land allt. Áfram verður grímuskylda fyrir alla sem koma í skólahúsnæðið.

Allar upplýsingar um fyrirkomulag kennslu hafa verið sendar út til nemenda með tölvupósti og er að finna HÉR.

 

HÉR er nýja reglugerðin sem gildir frá og með 20. október til 10. nóvember. 

11 okt 2020

Vikan 12. - 16. okt.

Kæru nemendur,

við í MÍ erum ótrúlega stolt af því hvað þið hafið tekið breytingum á skólastarfinu af mikilli yfirvegun. Við vitum að fyrir sum ykkar voru þessar breytingar erfiðar og fyrir önnur ekki eins erfiðar.

Nú þurfum við bara að halda áfram á sömu braut og eina örugga er að við erum öll í þessu saman - og við getum þetta saman!

Næsta vika er stutt, aðeins fjórir kennsludagar, og þá tekur við löng helgi.


Skólahaldið í vikunni verður með svipuðu sniði og í síðustu viku - en þó ekki alveg.

Við biðjum ykkur um að kynna ykkur upplýsingarnar hér vel og ef þið erum með ábendingar um eitthvað sem betur má fara í skólastarfinu þá endilega sendið okkur tölvupóst. 

Upplýsingar um skólastarfið vikuna 12.-16 okt. er að finna HÉR

 

5 okt 2020

Vikan 5. - 9. október

Upplýsingar til nemenda sem sendar voru út mánudaginn 5. október vegna skólastarfs vikuna 5.-9. október

er að finna hér.

5 okt 2020

Ný reglugerð um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar

Með vísan til 2. mgr. 12. gr. sóttvarnalaga nr. 19/1997 hefur heilbrigðisráðherra ákveðið, að fenginni tillögu sóttvarnalæknis og í samráði við mennta- og menningarmálaráðherra, að takmarka skólastarf tímabundið eftir því sem hér greinir.

Markmið með reglugerð þessari er að tryggja að sem minnst röskun verði á skólastarfi vegna COVID-19 sjúkdómsins með ýtrustu sóttvarnarsjónarmið að leiðarljósi.

Takmörkun á skólastarfi tekur gildi 5. október 2020 og gildir til og með 19. október 2020.

Reglugerðina er að finna hér.

 

5. gr.

Framhaldsskólar.

Í öllum byggingum framhaldsskóla er skólastarf heimilt að því tilskildu að nemendur og starfs­fólk geti haft minnst 1 metra fjarlægð sín á milli og hámarksfjöldi nemenda í hverri kennslustofu fari ekki yfir 30. Í sameiginlegum rýmum skóla, s.s. við innganga, í anddyri, á salerni og á göngum, er heimilt að víkja frá fjöldatakmörkun og reglu um blöndun hópa að því gefnu að notast sé við andlitsgrímu. Við aðstæður þar sem ekki er hægt að framfylgja nándarreglunni, svo sem í verklegri kennslu, listkennslu, klínísku námi og kennslu nemenda á starfsbrautum skulu nemendur og kennarar nota andlitsgrímu sem hylur munn og nef.

Blöndun nemenda milli hópa er ekki heimil í kennslu en starfsfólki er heimilt að fara á milli hópa.

Aðrir viðburðir sem ekki teljast til kennslu eða náms skulu ekki fara fram í skólabyggingum. Takmarka skal gestakomur í skólabyggingar.

Við íþróttakennslu eru snertingar heimilar milli nemenda á æfingum og í keppnum. Aftur á móti skal virða 1 metra nálægðartakmörkun í búningsklefum og á öðrum svæðum utan æfingasvæðis og keppnissvæðis.

Sameiginlegir snertifletir í kennslustofum framhaldsskóla skulu sótthreinsaðir eftir hverja við­veru nemenda­hópa. Jafnframt skal sótthreinsa sameiginlegan búnað og snertifleti a.m.k. einu sinni á dag og leggja áherslu á einstaklingsbundnar sóttvarnir.

Ákvæði þetta skal ekki koma í veg fyrir að nemendur geti áfram dvalið á heimavist.

 

4 okt 2020

Starfsdagur kennara og stjórnenda mánudaginn 5. október

Vegna nýrrar reglugerðar um samkomutakmarkanir sem birt er sunnudaginn 4. október verður engin kennsla í Menntaskólanum á Ísafirði mánudaginn 5. október. Dagurinn verður starfsdagur kennara og stjórnenda til að undirbúa nýtt fyrirkomulag og stundatöflur fyrir næstu daga og vikur samkvæmt breyttum reglum og hafa áhrif á skólahald. 

Nemendur hafa fengið tölvupóst með þessum upplýsingum. Upplýsingar um fyrirkomulag stundatöflu frá og með þriðjudeginum 6. október verða sendar út mánudaginn 5. október. 

 

Tilkynning frá Mennta- og menningarmálaráðneyti 4. október 2020:

Sóttvarnir í framhalds- og háskólum:

Tímabundnar hertar aðgerðir

3 okt 2020

Hertar aðgerðir 4.okt. 2020

Í dag lagði sótt­varn­ar­læknir fram til­lögur um hertar aðgerðir vegna þróunar COVID 19.

Þær munu hafa áhrif á skóla­starfið.

Nánari upp­lýs­ingar munu birtast seinni part sunnu­dagsins 4. október eftir að reglugerðin kemur út, fundi með menntamálaráðherra og neyðarstjórn MÍ. 

21 sep 2020

Hertar aðgerðir á höfuðborgarsvæðinu

 
Í ljósi hertra aðgerða í framhaldsskólum á höfuðborgarsvæðinu er vert að taka fram að við í MÍ byrjum þessa viku á sömu nótum og við höfum verið síðustu vikur.
 
Við vitum að vegna Covid geta hlutirnir breyst hratt og við erum viðbúin að gera breytingar ef á þarf að halda.
 
Munum að huga vel að okkar persónubundnu sóttvörnum, nauðsynlegt er að spritta sig þegar komið er inn í nýtt rými, maska þarf að nota ef ekki er hægt að virða 1 m fjarlægðarmörk og engar hópamyndanir eru leyfðar.
 
Verum heima ef við erum með einhver flensulík einkenni, öll veikindi þarf að tilkynna á netfangið misa@misa.is eða í gegnum www.inna.is
 
Nú þurfum við öll að standa saman og virða þær reglur sem eru í gildi í skólanum.
Markmiðið okkar er sameiginlegt, að halda skólanum opnum.
20 sep 2020

Upplýsingar í vikulok

Enn er í gildi reglugerð um takmörkun á samkomum sem kveður á um 200 manna fjöldatakmörk, 1 metra fjarlægðarreglu og maskanotkun ef ekki er hægt að virða 1 m bil. Regluegerðin gildir til 27. september n.k.

Við erum jafn ánægð og fyrr með hversu vel skólahald hefur gengið fyrstu vikurnar, þökk sé nemendum og starfsfólki skólans.

Mikilvægt er að við höldum áfram að sinna sótt- og smitvörnum og áfram er okkar sameiginlega markmið að halda skólanum opnum.

Í næstu viku höldum við áfram á sömu braut. Virðum 1 metra regluna, sprittum okkur þegar við komum inn á ný svæði og munum að í stigum í bóknámshúsi er einstefna. Við förum upp hjá sjoppunni eða milli stofu 16 og 17. Við förum niður hjá kennarastofunni og stofu 8 eða milli stofu 3 og 4

Upplýsingar eru sendar með tölvupósti á hverjum föstudegi til nemenda og starfsfólks með helstu upplýsingum í lok vikunnar og fyrirkomulagi næstu viku. 

 

8 sep 2020

Opnun stigaganga í bóknámshúsi

Þriðjudaginn 8. september verður breyting á sóttvarnarreglum í skólanum í kjölfar breytinga á reglugerð um takmörkun á samkomum vegna farsóttar.
 
Nú þarf ekki lengur að skipta bóknámshúsi í tvö sóttvarnarhólf og þess vegna verða stigagangarnir fjórir opnaðir. Til að hægt sé að halda 1 m fjarlægðarmörk verður einstefna í öllum stigum.
 
Til að komast UPP á efri hæðina er hægt að fara upp stiga hjá sjoppunni og milli stofu 16 og 17. Til að komast NIÐUR á neðri hæð er hægt að nota stigann milli stofu 3 og 4 sem og stigann við kennarastofuna.
 
Vinsamlegast reynið að snerta sem minnst í stigagöngunum og áfram gildir að við sprittum okkur þegar við komum inn á ný svæði.
 
Þann 7. september 2020 voru gefnar út nýjar leiðbeiningar um skólastarf í framhaldsskólum m.t.t. auglýsingar um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar, nr. 811/2020, og reglugerðar nr. 864/2020
 
Leiðbeiningarnar má skoða