6 mar 2008

Háskólakynning

Í gær fór fram háskólakynning hér í skólanum þar sem fulltrúar frá 8 háskólum kynntu námsframboð skóla sinna fyrir menntskælingum. Yfir 500 námsleiðir sem háskólarnir bjóða upp á voru kynntar. Þess má geta að tveir af fyrrum nemendum MÍ mættu á kynninguna fyrir hönd sinna skóla, þau Aðalbjörg Sigurjónsdóttir frá HR og Leifur Skarphéðinsson frá HÍ.
4 mar 2008

Trommusólókeppni

Einn af viðburðum Sólrisuvikunnar var trommusólókeppni sem haldin var á Sal skólans í morgun. Margir trommusnillingar komu þar fram og lömdu húðirnar. Til þess að dæma í keppninni voru fengnir Önfirðingarnir og frændurnir Önundur Hafsteinn Pálsson og Barði Önundarson. Mikil tilþrif heyrðust og sáust á sviðinu og tóku dómarar m.a. tillit til svipbrigða og "tungutaks" auk leikni með kjuðana. Það var Björn Hjálmarsson sem sigraði keppnina en í öðru og þriðja sæti höfnuðu Önfirðingarnir og frændurnir Brynjólfur Óli Árnason og Jóhann Ingi Þorsteinsson. Myndir frá keppninni eru inni á myndasíðunni.
4 mar 2008

Heimsókn frá Verkfræðideild HÍ

Nemendur MÍ fengu góða gesti í heimsókn fyrir skemmstu. Þar voru á ferðinni Tómas Árni Jónasson fyrrum nemandi skólans og Jón Þór Gunnarsson félagi hans úr Verkfræðideild HÍ. Þeir voru að kynna námi við deildina fyrir nemendum MÍ og mætti fjöldi áhugasamra nemenda á kynninguna.
28 feb 2008

Sólrisa

Hin árlega Sólrisuhátíð Menntaskólans á Ísafirði hefst 29. febrúar kl 12:15 með skrúðgöngu frá skólanum að Kaffi Edinborg. Um svipað leiti fer útvarp Mí-flugan í loftið á tíðninni FM 101.0. Dagskrá hátiðarinnar er að vanda mjög vegleg. Meðal þess sem í boði verður er myndlistarsýning Davíðs Arnar Halldórssonar í Slunkaríki, Rokksúpa í Edinborgarhúsi, bíósýningar, trommusólókeppni, uppistand, fyrirlestrar, háskólakynningar, styrktartónleikar, alheimsmeistaramót í víkingaskák og sundlaugapartí. Að ógleymdu sólrisuleikritinu Rocky Horror Picture Show. Ítarlega dagskrá hátíðarinnar er að finna á vefsíðunni solrisa.is
27 feb 2008

Frumsýning á Rocky Horror

Söngleikurinn Rocky Horror Picture Show verður frumsýndur á föstudagskvöld við upphaf Sólrisuvikunnar. Að sögn leiksjtórans Hrafnhildar Hafberg hafa æfingar og undirbúningur gengið vel. Nemendur í trésmíði og stálsmíði hafa unnið hörðum höndum að því að koma upp veglegri leikmynd í Edinborgarhúsinu á Ísafirði þar sem verkið verður sýnt. Þess má geta að söngleikurinn er færður á svið í samstarfi við Loftkastalann sem á sýningaréttinn að verkinu.

 

Frumsýningin verður sem fyrr segir á föstudaginn og hefst sýningin kl. 20:00. Sex sýningar eru áætlaðar meðan á Sólrisuhátíðinni stendur og þrjár til viðbótar í skíðavikunni. Frekari upplýsingar um sýningartíma má finna á heimasíðu Edinborgarhússins.

 

Miðaverð er 2.200 krónur fyrir félaga í Nemendafélagi skólans, eldri borgara og börn, en 2.500 fyrir óbreytta. Miðapantanir fara fram í síma 450-5555.

 

 

HH

19 feb 2008

Árshátíð NMÍ

Árshátíð skólans var haldin í Edinborgarhúsinu 15. febrúar s.l. Nemendur og kennarar skólans komu saman í sínu fínasta pússi og snæddu veislumat sem framreiddur var af veitingamönnum veitingastaðarins Við Pollinn. Að sögn Helgu Guðrúnar formanns NMÍ voru um 120 manns á borðhaldinu. Að vanda voru ýmis skemmtiatriði á boðstólum m.a. frá kennurum auk þess sem nemendur frumsýndu nýja árshátíðarmynd þar sem litið var 20 ár fram í tímann. Allt fór þetta fram undir styrkri stjórn veislustjórans Kristjáns Freys Halldórssonar bóksala með meiru. Að loknu borðhaldi var haldinn dansleikur þar sem DJ Páll Óskar sá um að halda uppi fjörinu. Myndir af árshátíðinni er að finna á heimasíðu NMÍ
8 jan 2008

MÍ lagði FG í Gettu betur

Fyrstu viðureignirnar í fyrstu umferð Gettu betur fór fram í gærkvöldi. Lið MÍ sigraði FG með 16 stigum gegn 12. Glæsilegur árangur hjá þeim Halldóri, Hjalta og Jóhanni og er þeim óskað góðs gengis í áframhaldandi keppni. Önnur lið sem komust áfram úr fyrstu umferð eru MR, ML og Versló.
7 jan 2008

Samfélagstúlkun - nám hefst að nýju

Nám í samfélagstúlkun hefst aftur miðvikudaginn 16. janúar. Kennt verður á miðvikudögum frá klukkan 18:00 til 21:00 þessa önn. Sem fyrr hefst íslenskukennslan klukkan 18:00. Við tekur enska klukkan 19:00 og endað verður á túlkunarfræði klukkan 20:00.

RHH

20 des 2007

Jólaútskrift

Í dag verður jólaútskrift Menntaskólans í Ísafjarðarkirkju. Útskrifaðir verða 7 stúdentar, 1 húsasmiður og 17 vélaverðir. Útskriftarathöfnin hefst klukkan 14 og eru nemendur, kennarar og velunnarar skólans hjartanlega velkomnir.
28 sep 2007

Höfðingleg gjöf frá LÍÚ

Landssamband íslenskra útvegsmanna hefur fært Menntaskólanum á Ísafirði eina milljón króna til styrktar vélstjórnarbraut skólans. Einar Valur Kristjánsson, framkvæmdastjóri HG í Hnífsdal og stjórnarmaður í LÍÚ afhenti Jóni Reyni Sigurvinssyni, skólameistara MÍ gjöfina í verkmenntahúsi skólans síðastliðinn fimmtudag. Í þakkarávarpi skólameistara kom meðal annars fram að þessi gjöf styðji vel við þau áform skólans að bæta við þriðja árinu í vélstjórnarnámi en hingað til hafa aðeins 1. og 2. stig vélstjórnar staðið nemendum til boða. Nánar má lesa um þetta á vef bb.is

 

HH