Brautskráning

27 maí 2015

Brautskráning

Vélstjórar með A réttindi
Vélstjórar með A réttindi
1 af 6
Þann 23. maí s.l. voru 54 nemendur brautskráðir frá skólanum. Fjórir nemendur fengu afhent diploma í förðun, fjórir luku A-námi vélstjórnar, fjórir stálsmiðir voru brautskráðir og fimm sjúkraliðar. Þar af voru tveir sjúkraliðar sem einnig luku viðbótarnámi til stúdentsprófs. Af bóknámsbrautum skólans luku 39 nemendur námi, 16 af félagsfræðabraut, 16 af náttúrufræðibraut, fimm luku viðbótarnámi til stúdentsprófs og tveir luku námi af fjögurra ára starfsbraut. Hæstu meðaleinkunn á stúdentsprófi hlaut Lára Margrét Gísladóttir stúdent af náttúrufræðibraut. Hún hlaut meðaleinkunnina 9,33. Semidux var Maksymilian Haraldur Frach stúdent af náttúrufræðibraut, með einkunnina 8,96. Hann lauk námi á þremur árum. Að vanda fluttu útskriftarnemendur tónlistaratriði við athöfnina. Maksymilian Frach lék á fiðlu við undirleik Iwonu Frach, Oberek í G-dúr eftir Michal Zarecki. Hálfdán Jónsson lék á gítar og flutti Estudio en La eftir Francisco Tarrega. Einar Viðar Guðmundsson lék á píanó, Prelúdíu í c-moll op. 28 nr. 20 eftir Friedrich Chopin og Salóme Katrín Magnúsdóttir söng við undirleik Iwonu Frach, I´ve got you under my skin eftir Cole Porter. Fjölmargar viðurkenningar voru veittar fyrir góðan námsárangur í ýmsum greinum og Dux scholae flutti ræðu. Einnig fluttu afmælisárgangar ávörp og færðu skólanum gjafir. Fulltrúar 40 ára stúdenta þau Agnes Sigurðardóttir og Einar K. Guðfinnsson færðu skólanum gjöf til minningar um Margréti Oddsdóttur samstúdent sinn. Með gjöfinni vilja samstúdentar Margrétar halda minningu hennar á lofti og upplýsa nemendur skólans um þá merku konu sem lagði grunn að framtíð sinni í Menntaskólanum á Ísafirði, en Magrét lést langt um aldur fram þann 9. janúar 2009. Að loknum formlegum skólaslitum risu viðstaddir úr sætum og sungu saman Gaudeamus Igitur, við undileik Huldu Bragadóttur. Að kvöldi laugardagsins var útskriftarfagnaður í Íþróttahúsinu á Torfnesi, þar sem útskriftarnemar fögnuðu áfanganum ásamt fjölskyldum, vinum og afmælisárgöngum.

Til baka