Hollvættir

Hollvættir MÍ

Hollvættir Menntaskólans á Ísafirði eru hollvinasamtök sem stofnuð voru 15. maí 1999. Allir fyrrverandi nemendur skólans eru sjálfkrafa meðlimir í samtökunum, en að sjálfsögðu er öllum frjálst að vera með. Markmið Hollvætta er fyrst og fremst að standa vörð um skólann, styðja hann og styrkja í hvívetna.

Hollvættir hafa haft það að leiðarljósi að styrkja tengsl fyrrverandi nemenda við skólann. Hefur það verið gert m.a. með því að fá eldri nemendur í heimsókn til þess að skýra núverandi nemendum frá því sem þeir hefðu helst fengist við að loknu menntaskólanámi. Margrét Oddsdóttir yfirlæknir skurðdeildar Landspítalans reið á vaðið í nóvember 2002 og var fyrsti fulltrúi eldri nemenda í slíkri heimsókn og síðan hafa aðrir fylgt í kjölfarið. Markmið með þessum heimsóknum er ekki síst að styrkja unga fólkið í þeirri sannfæringu að það sé á góðri braut; nám við MÍ geti orðið lykill að nánast hverju sem er í framhaldsnámi og starfi.


Við stúdentaútskrift síðustu árin hafa Hollvættir boðið afmælisárgöngum til sameiginlegs hádegisverðar og stefnt er að því að halda þeirri hefð. Formaður Hollvina MÍ er Albertína Friðbjörg Elíasdóttir.