Íþróttasvið

Íþróttasvið MÍ er í samvinnu við Bolungarvíkurkaupstað, Ísafjarðarbæ, Súðavíkurhrepp og íþróttafélögin Hörð, Vestra, SFÍ, Skotveiðifélag Ísafjarðar, UMFB og einnig HSV.

Á íþróttasviði er boðið upp á sérsniðið nám sem hentar vel fyrir nemendur sem æfa mikið og vilja stunda sína íþrótt með álagi afreksmanna samhliða námi.

Nemendur á íþróttasviði geta stundað nám á hvaða bóknámsbraut skólans sem er (félagsvísinda-, náttúruvísinda- og opinni stúdentsbraut). Einnig er hægt að stunda nám á sviðinu samhliða öðru námi við skólann í samráði við áfangastjóra. Nemandi sem útskrifast af sviðinu útskrifast með stúdentspróf/iðn- og starfsnámspróf auk útskriftar af íþróttasviði.

 

Uppsetning íþróttasviðs:

Íþróttasviðið er þannig upp sett að nemendur taka alls 30 einingar á sviðinu og er miðað við einn áfanga, 5 einingar, á önn. Hver áfangi skiptist þrennt:

1. Bókleg fræðsla 1 klst á viku

       S.s. næring, íþróttasálfræði, markmiðssetning, afrekshugsun og þjálffræði

2. Æfingar í íþróttagrein 2 klst á viku

       Æft er undir leiðsögn þjálfara í hverri íþróttagrein á skólatíma, þar sem því er við komið

3. Teygjur

       Æft er í íþróttahúsinu á Torfnesi undir leiðsögn íþróttakennara

 

Ákveðnar kröfur eru gerðar til nemenda á íþróttasviði:

  • Nemendur á íþróttasviði þurfa að hafa stundað sína íþrótt í a.mk. 2 ár og vera virkir iðkendur í íþróttafélagi.
  • Nemendur þurfa að uppfylla viðmið um eðlilega námsframvindu (a.m.k. 25 einingar á önn).
  • Nemendur á íþróttasviði neyta ekki tóbaks (sígarettur, rafsígarettur, munn- og neftóbak), áfengis- eða annarra vímuefna.
  • Skólasókn þarf að vera a.m.k. 95% en íþróttaleyfi eru gefin vegna æfinga- og keppnisferða.
  • Ef nemandi uppfyllir ekki markmið um námsframvindu, námsárangur í afreksáfanganum eða skólasókn fær nemandi skriflega viðvörun og fund með íþróttakennara. Bæti nemandi ekki ráð sitt fyrirgerir hann rétti sínum til áframhaldandi náms á afreksíþróttasviði.

 

Efnisgjald á brautinni er 20.000 kr. á önn. Inni í því er æfingafatnaður, íþróttabúnaður o.fl. Gjaldið er innheimt með greiðsluseðli í heimabanka við upphaf hverrar annar.