Brautskráning á vorönn 2021

24 maí 2021

Brautskráning á vorönn 2021

Laugardaginn 22. maí s.l. voru 76 nemendur brautskráðir frá skólanum við hátíðlega athöfn í Ísafjarðarkirkju. Vegna sóttvarnartakmarkana mátti takmarkaður fjöldi vera við athöfnina. Því voru einuningis útskriftarnemar, gestir þeirra og starfsfólk skólans viðstödd, en Viðburðarstofa Vestfjarða sá um beint streymi frá athöfninni. Útskriftarfagnaður sem hefð er fyrir að halda að kvöldi brautskráningardags með útskriftarnemum, fjölskyldum þeirra og afmælisárgöngum féll því miður niður annað árið í röð.

Nemendur voru brautskráðir af 15 námsbrautum. Tíu nemendur úr húsasmíði, 2 nemendur af lista-og nýsköpunarbraut, 7 nemendur af sjúkraliðabraut, 8 úr skipstjórnarnámi A, 4 úr skipstjórnarnámi B, 1 úr stálsmíði og 2 úr vélstjórnarnámi A. 4 nemendur útskrifuðust með diplómu í förðun. Alls útskrifuðust 47 nemendur með stúdentspróf og skiptust þannig eftir brautum: 4 af félagsvísindabraut, 5 nemendur af náttúruvísindabraut, 2 nemendur af náttúruvísindabraut - afreksíþróttasviði, 18 nemendur af opinni stúdentsbraut, 8 nemendur af opinni stúdentsbraut – afreksíþróttasviði, 3 nemendur af opinni stúdentsbraut með áherslu á háriðngreinar og 7 nemendur útskrifuðust með stúdentspróf af fagbraut.

Fjölmörg verðlaun voru afhent fyrir góðan námsárangur og að vanda setti tónlist flutt af útskriftarnemum stóran svip á athöfnina. Dux scholae 2021 er Karólína Mist Stefándóttir stúdent af náttúruvísindabraut með meðaleinkunnina 9,53. Semidux er Egill Fjölnisson stúdent af félagsvísindabraut með meðaleinkunnina 9,05.  Við óskum öllum útskriftarnemum innilega til hamingju með áfangann og óskum þeim gæfu og gengis í framtíðinni.

 

Til baka