Brautskráning á vorönn 2024

25 maí 2024

Brautskráning á vorönn 2024

Útskriftarnemar vorið 2024 og stjórnendur skólans
Útskriftarnemar vorið 2024 og stjórnendur skólans
1 af 2

Laugardaginn 25. maí var 61 nemandi brautskráður frá skólanum við hátíðlega athöfn í Ísafjarðarkirkju. Útskriftarnemar, starfsfólk skólans, afmælisárgangar og aðrir gestir voru viðstödd athöfnina og sá Viðburðarstofa Vestfjarða um að streyma henni beint. Í tilefni þess að 50 ár eru liðin frá fyrstu útskrift skólans var fyrrum starfsfólki og nemendum skólans einnig boðið að fagna tímamótunum í dag og var því óvenjulega fjölmennt við athöfnina. Hefð er fyrir útskriftarfagnaði að kvöldi brautskráningardags með útskriftarnemum, fjölskyldum þeirra og afmælisárgöngum. 

Af útskriftarnemum voru 38 dagskólanemendur, 15 dreifnámsnemendur og 8 nemendur í fjarnámi sem með Menntaskólann á Ísafirði sem heimaskóla.

Sjö nemendur útskrifuðust af matartæknibraut, þrír nemendur útskrifuðust af sjúkraliðabraut og tveir nemendur af lista- og nýsköpunarbraut. Níu nemendur útskrifuðust af vélstjórnarbraut A, þrír nemendur útskrifuðust  úr stálsmíði, einn nemandi af skipsstjórnarbraut A og tveir nemendur af skipsstjórnarbraut B. Einn nemandi útskrifaðist af húsasmíðabraut og einn nemandi úr iðnmeistaranámi.

36 nemendur útskrifuðust með stúdentspróf. Þrír af félagsvísindabraut, 11 af náttúruvísindabraut og þar af fjórir með íþróttasvið. 17 nemendur útskrifuðust af opinni stúdentsbraut, þar af einn með íþróttasvið. Tveir nemendur luku námi af starfsbraut og þrír nemendur luku stúdentsprófi af fagbraut. Auk þess útskrifuðust 16 nemendur úr grunnnámi málm- og véltæknigreina.

Dux scholae 2024 er Guðrún Dagbjört Sigurðardóttir stúdent af opinni stúdentsbraut með meðaleinkunnina 9,44. Semidux er Katrín Bára Albertsdóttir stúdent af náttúruvísindabraut með meðaleinkunnina 9,41. 

Fjölmörg verðlaun voru afhent fyrir góðan námsárangur og að vanda setti tónlistarflutningur hátíðlegan svip á athöfnina. Í tilefni 50 ára útskriftarafmælis var lagið Gott að sjá þig eftir Halldór Smárason flutt af sönghóp fyrrum nemenda, starfsfólks og fulltrúum útskriftarnema ásamt Halldóri sjálfum sem lék undir. Lagið var gefið skólanum við útskrift árið 2019 af þáverandi 10 ár afmælisárgangi og á einkar vel við á tímamótum sem þessum.

Við óskum öllum útskriftarnemum innilega til hamingju með áfangann og óskum þeim gæfu og gengis í framtíðinni.

Til baka