Busavígsla, nýnemaferð og busaball

4 sep 2012

Busavígsla, nýnemaferð og busaball

Í síðastliðinni viku var tekið á móti nýnemum. Eftir að fjöldi nýnema og þar með húsnæði skólans hafði fengið óæskilegt lýsisbað á þriðjudegi voru nemendur sendir heim og eldri nemendur settir í að þrífa skólann. Á miðvikudegi vígðu svo eldri nemendur busana í sinn hóp og daginn eftir fóru nýnemar ásamt umsjónarkennurum og íþróttakennara saman í ferðalag. Farið var í Ósvör og að Núpi í Dýrafirði þar sem gist var eina nótt. Í Dýrafirði var gengið út á Arnarnes og til baka að Núpi. Seinna um daginn var gengið í garðinn Skrúð og hann skoðaður. Um kvöldið var kvöldvaka og stjórn NMÍ kom í heimsókn og sagði frá félagslífinu í skólanum. Daginn eftir fóru nemendur í ratleik að loknum morgunverði og síðan var heim á leið. Á laugardagskvöld var svo busaball haldið í skólanum en þar spilaði hljómsveitin xxxRottweiler, í klukkutíma og sex mínútur! Á ballinu var mikið fjör og mæting mjög góð. Myndir frá busavígslu og nýnemaferð eru komnar inn hér á síðuna og líka á facebook.

Til baka