Hádegistónleikar á sal

24 nóv 2008

Hádegistónleikar á sal

Tónlistarnemar í Menntaskólanum á Ísafirði efna til stuttra hádegistónleika í skólanum miðvikudaginn 26. nóvember kl. 12:10. Dagskráin er fjölbreytt og aðgengileg, m.a. verk eftir klassísku tónskáldin Bach, Franz Liszt, Poulenc en einnig lög af léttara taginu. Nemendurnir sem fram koma eru Arnar Hafsteinn Viðarsson (gítar), Ásgeir Helgi Þrastarson (gítar), Bjarni Kristinn Guðjónsson (rafgítar),Fabio Tafuni (píanó), Fjóla Aðalsteinsdóttir (þverflauta), Halldór Smárason (píanó), Jónbjörn Finnbogason (bassi) og loks hljómsveit skipuð Baldri Þ. Sigurlaugssyni (trompet). Smára Alfreðssyni (saxófónn), Baldri Hannessyni (gítar) Brynjólfi Óla Árnasyni (bassi) og Daða Má Guðmundssyni (trommur).

Tónleikarnir eru einnig opnir almenningi og eru allir hjartanlega velkomnir að koma í sal Menntaskólans á miðvikudaginn kemur kl. 12.10 til að hlusta á þessi efnilegu ungmenni.

Á fjórða tug nemenda Menntaskólans á Ísafirði stunda nú tónlistarnám í Tónlistarskóla Ísafjarðar, Tónlistarskólanum í Bolungarvík eða í Listaskóla Rögnvaldar Ólafssonar og fá það nám metið til eininga í sínu menntaskólanámi. Þessir tónleikar nú eru ekki síst ætlaðir til að kynna þetta nám fyrir kennurum og samnemendum þeirra í MÍ. Ef vel tekst til nú verður efalítið framhald á slíku tónleikahaldi í skólanum.

Til baka