Hástökkvari ársins í Stofnun ársins

16 feb 2023

Hástökkvari ársins í Stofnun ársins

1 af 4

Menntaskólinn á Ísafirði hlaut í fyrsta sinn viðurkenningu í Stofnun ársins fyrir að vera sú ríkisstofnun sem bætti starfskjör starfsmanna best árið 2022. Fékk skólinn af því tilefni titilinn hástökkvari ársins. Hoppaði skólinn upp um 64 sæti frá 2021. Heiðrún Tryggvadóttir skólameistari veitti viðurkenningunni viðtöku við hátíðlega athöfn fyrr í dag.

Tilgangur með vali á stofnun ársins er að taka eftir og verðlauna vinnustaði sem ná framúrskarandi árangri í mannauðsstjórnun. Þá nýtist könnunin stjórnendum til að vinna að umbótum í stjórnun og starfsumhverfi og á að efla starfsumhverfi félagsfólks og starfsfólks í almannaþjónustu. Niðurstöður könnunarinnar veita afar mikilvægar upplýsingar um starfsumhverfi vinnustaða og samanburð við aðrar stofnanir.

Stofnun ársins er samstarfsverkefni Sameykis, fjármála- og efnahagsráðuneytisins og Reykjavíkurborgar. Könnunin veitir mikilvægar upplýsingar um styrkleika og áskoranir í starfsumhverfi stofnana eins og MÍ, starfsfólki til hagsbóta. Á hverju ári tekur allt starfsfólk skólans, óháð félagsaðild, þátt í könnuninni sem fer þannig fram að spurningalisti er lagður fyrir starfsfólk á netinu. Mælingin nær yfir níu ólíka þætti og þannig fæst heilsteypt mynd af innra starfsumhverfi stofnana. Þeir níu þættir sem eru mældir eru: stjórnun, starfsandi, launakjör, vinnuskilyrði, sveigjanleiki vinnu, sjálfstæði í starfi, ímynd stofnunar, ánægja og stolt og jafnrétti.

„Þetta eru mjög gleðilegar fréttir og staðfestir það sem komið hefur fram í mánaðarlegum starfsmannakönnunum skólans og HR Monitor, að starfsandi innan skólans  góður og starfsánægja mikil. Það er gott að fá samanburðinn við aðrar ríkisstofnanir og sjá að við erum á réttri leið. Að fá þessa viðurkenningu er rós í hnappagat skólans og eflir starfsmannahópinn og okkur stjórnendur enn frekar í að bæta starfsumhverfið. Góður starfsandi skilar sér svo sannarlega út í skólastarfið og hefur mikið að segja. Það er grundvallaratriði að starfsfólkinu okkar líði vel og við erum ótrúlega stolt í dag, en hógvær, því á sama tíma megum við ekki gleyma því að þetta er áfangasigur og því mikilvægt að við höldum áfram á sömu braut“ segir Heiðrún Tryggvadóttir skólameistari.

Til baka