Hörður Christian hlýtur 2. sæti í MEMA nýsköpunarhraðlinum

27 nóv 2023

Hörður Christian hlýtur 2. sæti í MEMA nýsköpunarhraðlinum

1 af 3

 

Þann 23. nóvember sl. fór fram verðlaunahátíð nýsköpunarhraðalsins MEMA en hraðallinn er árlegur viðburður sem hefur það að markmiði að hvetja ungt fólk til að takast á við samfélagslegar áskoranir með hugviti og tækni. Áhersla er lögð á heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, og í ár var sérstök áhersla lögð á líf í vatni. Sérfræðingar frá Háskóla Íslands og úr atvinnulífinu veittu nemendum stuðning og innsýn í þessi málefni og var verðlaunaafhendingin haldin þar. 

Samkeppnin var hörð að þessu sinni en 14 hugmyndum var skilað inn frá fimm framhaldsskólum. Allar lögðu áherslu á að bæta líf í vatni, sem er 14 heimsmarkmið sameinuðu þjóðanna. Fjölbrautaskólinn við Ármúla, Framhaldsskóli Snæfellinga,  Menntaskólinn við Hamrahlíð, Fjölbrautaskólinn í Breiðholti og Menntaskólinn á Ísafirði voru þeir skólar sem skiluðu inn lausnum að þessu sinni. Nemendur þessara skóla, sem hófu vinnu sína í haust, tókust á við þá flóknu áskorun að þróa lausnir sem geta haft jákvæð áhrif á vistkerfi vatns.

 Hörður Christian Newman nemandi við Menntaskólinn á Ísafirði heillaði alla dómnefndina upp úr skónum og hreppti annað sætið fyrir hugmyndina Sædís. Sædís er útsýnissjókví sem ræktar þara og kræklinga til að hreinsa mengun og draga úr súrnun sjávar. Sædís minnir notendur einnig á mikilvægi hafsins fyrir líf á jörðinni og fræðir um heilsu hafsins. 

 Dómnefndin stóð frammi fyrir erfiðu vali að sögn Þóru Óskarsdóttur forstöðukonu Fab Lab Reykjavík og eins stofnenda hraðalsins. Það var að lokum hugmynd FÁ sem skar sig úr.  Hugmynd þeirra felur í sér að nýta ugga og sporða á fiskum sem er alla jafna fargað á veiðum og við framleiðslu á fiskafurðum. Eftir mikið tilraunastarf náðu þau að þróa snakk úr uggunum sem er mjög næringarríkt en samt bragðgott. Snakkið er sérstaklega hugsað fyrir ungt fólk með ADHD eða á einhverfurófi sem forðast oft fisk vegna áferðarinnar.

 ,,Við gerum miklar kröfur til þátttakenda, þau þurfa ekki einungis að fá góða hugmynd, heldur þurfa þau einnig að sannfæra sérfræðinga á sviðinu um að þær væru raunhæfar“ segir Þóra og bætir við að í hraðlinum hafi nemendum tekist nokkuð sem fáum tekst að gera, að taka fyrstu skrefin í „frumgerðarsmíð“. Frumgerðir eru flestar eins og frumgerðir eiga að vera - ófullkomnar, en þær prófa eitthvað nýtt, hjálpa öðrum að skilja hugmyndina og færa hana nær veruleikanum. Þær skapa grundvöll til að þróa hugmyndina áfram og það er þessi vegferð sem þarf að fara til að þróa þær róttæku nýsköpunarlausnir sem á þarf að halda til að skapa sjálfbærri framtíð. 

 ,,Hugmyndirnar sem lagðar voru fram voru fjölbreyttar og áhrifaríkar sem gefur okkur sannarlega tilefni til að hafa trú á framtíðinni”. Segir Bryndís Steina Friðgeirsdóttir verkefnastjóri MEMA hraðalsins en frekari upplýsingar um hann fá finna á heimasíðunni mema.is.

 Við óskum Herði innilega til hamingju með árangurinn og sömuleiðis Ólöfu Dómhildi kennara hans á Lista- og nýsköpunarbraut sem haldið hefur utan um verkefnið. Í haust afa ýmsir aðilar í nærsamfélaginu  frætt og miðlað til nemenda MÍ um hönnun í atvinnulífinu. Hefur það vafalaust komi sér vel í undirbúningi fyrir verkefni af þessu tagi og má af þessu tilefni þakka góðar móttökur í Ívaf, Baader, Eflu, Pixel, Hampiðjunni og Netagerðinni. Einnig færum við Örnu Láru og Axel R. Överby þakkir fyrir að hlýða á kynningar nemenda á verkum sínum um hönnun við hafið og þá fær Catherine Chambers rannsóknarstjóri Háskólaseturs Vestfjarða sérstakar þakkir fyrir kynningu á sjávartengdum málefnum.

Til baka