MÍ-ingar halda til Hondúras

10 jún 2019

MÍ-ingar halda til Hondúras

Í dag heldur vaskur hópur MÍ-inga ásamt kennara sínum Ragnheiði Fossdal áleiðis til Mið-Ameríku ríkisins Hondúras. Þar mun hópurinn dvelja næstu tvær vikur við rannsóknir á lífríki lands og sjávar. Verkefnið er á vegum rannsóknarstofnunarinnar Opwall og hafa nemendurnir ásamt Ragnheiði undirbúið sig undir ferðina í allan vetur. Í áfanganum LÍFF3ÚT05 sóttu nemendurnir sér ítarlega þekkingu um Hondúras fyrr og nú. Bæði var fjallað um menningu og sögu ríkisins en áherslan þó fyrst og fremst á lífríkið og einnig á það starf sem bíður nemendanna við rannsóknir á því næstu tvær vikur. Það verður spennandi að sjá og heyra hvernig dvölin og vinnan í Hondúras mun ganga og en með því að smella á hlekkinn hér fyrir neðan komast lesendur á bloggsíðu verkefnisins þar sem fréttir verða settar inn eftir því sem tími og netsamband gefst. Héðan frá MÍ eru sendar óskir um góða ferð og góða og árangursríka dvöl í Hondúras.

Bloggsíða Hondúrasfara frá MÍ 2019

Til baka