MÍ í 2. sæti meðalstórra stofnana í Stofnun ársins 2023

15 feb 2024

MÍ í 2. sæti meðalstórra stofnana í Stofnun ársins 2023

Menntaskólinn á Ísafirði hlaut í dag viðurkenningu í Stofnun ársins 2023 en skólinn varð í öðru sæti í flokki meðalstórra stofnana (40-89 starfsmenn). Skólinn hlýtur þar með sæmdarheitið fyrirmyndarstofnun. Er þetta í annað skiptið sem skólinn hlýtur viðurkenningu í Stofnun ársins en skólinn var í fyrra hástökkvari ársins og var þá sú ríkisstofnun sem bætti starfskjör starfsmanna best árið 2022.

Stofnun ársins er samstarfsverkefni Sameykis, fjármála- og efnahagsráðuneytisins og Reykjavíkurborgar. Á hverju ári tekur allt starfsfólk skólans, óháð félagsaðild, þátt í könnuninni. Mælingin nær yfir níu ólíka þætti og þannig fæst heilsteypt mynd af innra starfsumhverfi stofnana. Tilgangur með vali á stofnun ársins er að taka eftir og verðlauna vinnustaði sem ná framúrskarandi árangri í mannauðsstjórnun. Þá nýtist könnunin stjórnendum til að vinna að umbótum í stjórnun og starfsumhverfi og á að efla starfsumhverfi félagsfólks og starfsfólks í almannaþjónustu. Niðurstöður könnunarinnar veita afar mikilvægar upplýsingar um starfsumhverfi vinnustaða og samanburð við aðrar stofnanir.

„Við erum mjög stolt af þessum árangri. Hér er ákaflega góður starfsmannahópur og starfsandinn góður. Það er gott að fá samanburðinn við aðrar ríkisstofnanir og sjá að við stöndum okkur vel í þeim samanburði. Við tókum stórt stökk í fyrra og ánægjulegt að við höldum áfram að bæta okkur. Á sama tíma er þessi góði árangur hvatning til að gera enn betur því mannauðurinn er okkar stærsta auðlind“ segir Heiðrún Tryggvadóttir skólameistari.

Hér má sjá niðurstöður allra stofnana sem tóku þátt í könnuninni.

 

Til baka