Málþing nemenda í ÍÞF102

12 mar 2012

Málþing nemenda í ÍÞF102

1 af 2

Nemendur Menntaskólans á Ísafirði í leiðbeinenda/þjálfaranámi ÍSÍ við skólann hafa verið við æfingakennslu í íþróttaskóla HSV að undanförnu. Í tengslum við áfangann var haldið málþing miðvikudaginn 15. febrúar um mikilvægi íþróttastarfs fyrir börn og ungmenni og þátttöku foreldra í því starfi.  Einnig var fjallað um markmið og stefnu íþróttafélaga í íþróttum barna, um fyrirmynd og hlutverk þjálfarans og skipulag íþróttamóta fyrir börn og ungmenni. Þátttakendur voru um 50 talsins. Í hópstarfi sem fram fór eftir fyrirlestrana var sérstök áhersla lögð á að megintilgangur íþróttaæfinga fyrir börn væri að efla alhliða þroska þeirra með áherslu á félagsþroska og hreyfiþroska. Að börnin fái að kynnast sem flestum íþróttagreinum, fjölbreytni sé í fyrirrúmi, hvatning, gleði og gaman ætíð við völd. Hóparnir ræddu einnig um hlutverk foreldra í samstarfi við íþróttafélögin og um stefnu hreyfingarinnar gagnvart íþróttum barna til 10 ára aldurs.

Mikilvægt er að foreldrar taki þátt í íþrótta- og félagsstarfinu með börnum sínum, styðji þau og hvetji  og eigi með þeim sameiginlegt áhugamál.  Foreldrar séu í góðu sambandi við þjálfara barnanna og aðstoði bæði á æfingum og í keppni. Einnig þarf til að koma aðstoð við fjáraflanir, taka að sér fararstjórn í keppnisferðum og sjá um ýmiskonar verkefni og utanumhald.  Hóparnir töldu jákvætt að foreldrar kynntust og störfuðu saman að verkefnum fyrir félagið og stuðluðu þannig að því að virkja sem flesta foreldra til starfa. Íþróttahreyfingin var hvött til að móta skýrari stefnu í íþróttum barna og samstarfi við foreldra almennt.  Skilgreina þarf betur markmið og áhersluatriði í íþróttaþjálfun barnanna bæði með tilliti til æfinga og keppni og tilgangi verðlaunaafhendinga. Lagt er til að efla enn frekar menntun og fagmennsku þjálfara sem vinna með börnum og ungmennum. Halda þurfi námskeið fyrir foreldra barna og ungmenna í íþróttum og móta skýrari reglur og umgjörð um hlutverk þeirra og starf.

Fyrirlestrar heimafólks voru teknir upp á myndband sem hægt er að skoða hér.
Hermann Níelsson

Sviðsstjóri íþrótta við MÍ.

Til baka