Menntaskólinn á Ísafirði hlýtur jafnlaunavottun

12 jan 2020

Menntaskólinn á Ísafirði hlýtur jafnlaunavottun

Menntaskólinn á Ísafirði hefur hlotið jafnlaunavottun og er þar með þriðji framhaldsskólinn á landinu að hljóta vottunina og fyrsta stofnunin á Vestfjörðum. 

Jafnlaunastaðallinn er stjórnunarstaðall fyrir jafnlaunakerfi og á grundvelli jafnlaunastaðalsins geta fyrirtæki og stofnanir fengið jafnlaunavottun. Með innleiðingu jafnlaunastaðalsins kemur MÍ sér upp stjórnunarkefi sem tryggja á að málsmeðferð og ákvarðanir í launamálum byggist á málefnalegum sjónarmiðum og feli ekki í sér kynbundna mismunun.  

Meginmarkmið jafnlaunavottunar er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði.  Jafnlaunavottun var lögfest í júní 2017 með breytingu á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.  Opinberar stofnanir, sjóðir og fyrirtæki sem eru að hálfu eða meirihluta í eigu ríkisins og þar sem 25 eða fleiri starfsmenn starfa að jafnaði á ársgrundvelli skulu hafa öðlast vottun eigi síðar 31. desember 2019.  Frekari upplýsingar um jafnlaunavottun má finna á heimasíðu Jafnréttisstofu.  

Undanfarin misseri hafa farið í undirbúning og innleiðingu á jafnlaunastaðlinum í MÍ. Vinnan við undirbúning og innleiðingu, sem og vottunarferlið, var leidd af Önnu Jónu Kristjánsdóttur, gæðastjóra skólans, og Hildi Halldórsdóttur, aðstoðarskólameistara. Faggilti vottunaraðilinn iCert var ráðinn til að meta hvort skilyrði staðalsins væru uppfyllt og voru úttektir gerðar í nóvember og desember s.l. með þeim ánægjulega árangri að vottun var veitt í lok árs 2019.

Til baka