Sjúkraliðanám og sjúkraliðabrú í boði í haust

17 maí 2017

Sjúkraliðanám og sjúkraliðabrú í boði í haust

Menntaskólinn á Ísafirði, sem aðildarskóli að Fjarmenntaskólanum, býður upp á nám á sjúkraliðabraut. Námið er í umsjón Fjölbrautaskóla Norðurlands Vestra, Verkmenntaskóla Austurlands, Menntaskólans á Ísafirði og Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum.

Starfsvettvangur sjúkraliða er á sjúkrahúsum, hjúkrunarheimilum, heilsugæslustöðvum og öðrum heilbrigðisstofnunum. Sjúkraliði starfar á hjúkrunarsviði og vinnur undir stjórn þess hjúkrunarfræðings sem fer með stjórn viðkomandi stofnunar, deildar eða hjúkrunareiningar og ber ábyrgð á störfum sínum gagnvart honum. Sjúkraliði starfar einkum við almenna og sérhæfða umönnun sjúkra og við þau hjúkrunarstörf sem hann hefur menntun og faglega færni til að sinna. Sjúkraliðar aðstoða skjólstæðinga sína við athafnir daglegs lífs, taka þátt í að meta ástand þeirra og koma upplýsingum til yfirmanns. Þeir meta líðan og árangur hjúkrunar, skrá algengar athuganir í hjúkrunarskrá, leitast við að fyrirbyggja fylgikvilla rúmlegu og hreyfingarleysis og aðstoða við hæfingu og endurhæfingu sjúklinga. Starfsheiti sjúkraliða er lögverndað skv. lögum um sjúkraliða nr. 58/1984.

Kennsla samkvæmt nýrri aðalnámskrá framhaldsskóla hefst haustið 2017. Unnið er að nánari útfærslu áfangaframboðs næstu anna en nýr hópur mun fara af stað haustið 2017 og verða eftirfarandi áfangar í boði fyrir þann hóp. 

Áfangar í boði haustið 2017:

HJVG1VG05 Hjúkrun verkleg, kennt í staðlotu
LIBE1HB01  Líkamsbeiting, kennt í staðlotu
HJUK1AG05  Hjúkrun, kennt í fjarnámi
NATV1IF05  Inngangur að náttúruvísindum, kennt í fjarnámi (möguleiki á dagskólanámi í MÍ)
UPPÆ1SR05 Upplýsingamennt, kennt í fjarnámi
LIOL2SS05 Líffæra og lífeðlisfræði, kennt í fjarnámi (möguleiki á dagskólanámi í MÍ)

 

Sjúkraliðabrú: Umsækjendur með langa starfsreynslu geta sótt um að komast á sjúkraliðabrú. Þeir þurfa þá að hafa náð 23 ára aldri og hafa að lágmarki 5 ára starfsreynslu við umönnun aldraðra, sjúkra eða fatlaðra, séu starfandi við slíka umönnun og hafi meðmæli frá vinnuveitenda sínum. Auk þess þurfa umsækjendur að hafa lokið starfstengdum námskeiðum á vegum stéttarfélaga, sveitarfélaga eða annarra aðila að lágmarki 230-260 stundir. Umsækjendur, sem lokið hafa vissum áföngum í framhaldsskóla, geta fengið þá metna sem ígildi námskeiða.

Nánari upplýsingar um námið gefa Heiðrún Tryggvadóttir áfanga- og gæðastjóri (heidrun@misa.is, s. 450 4400)og Stella Hjaltadóttir náms- og starfsráðgjafi (stella@misa.is, s. 450 4400). Hægt er að sækja um námið í gegnum heimasíðu Menntagáttar og heimasíðu Fjarmenntaskólans. Umsóknarfrestur er til 31. maí.

Til baka