Skólaslit 2011

30 maí 2011

Skólaslit 2011

Brautskráðir nemendur ásamt skólastjórnendum. Ljósm. Halldór Sveinbjörnsson.
Brautskráðir nemendur ásamt skólastjórnendum. Ljósm. Halldór Sveinbjörnsson.
Menntaskólanum á Ísafirði var slitið í 41. sinn við hátíðlega athöfn í Ísafjarðarkirkju laugardaginn 28. maí sl. Að þessu sinni voru 57 nemendur brautskráðir frá skólanum. Tveir nemendur luku námi í förðunarfræði, og átta luku A-námi vélstjórnar. Þrír nemendur luku B-námi vélstjórnar, tveir stálsmiðir voru brautskráðir og þrír vélvirkjar. Einnig luku tveir sjúkraliðar námi og einn iðnmeistari í rafvirkjun var brautskráður. Einn nemandi brautskráðist af starfsbraut og 33 nemendur luku stúdentsprófi. Hefur skólinn þar með brautskráð 65 nemendur á því skólaári sem er að ljúka, þar eð 8 nemendur voru brautskráðir um síðustu jól. Hæstu meðaleinkunn á stúdentsprófi 9,39 hlaut Sólveig Guðmunda Guðmundsdóttir stúdent af náttúrfræðibraut. Katrín Sif Kristbjörnsdóttir stúdent af náttúrufræðibraut hlaut meðaleinkunnina 9,37.  Fjölmörg verðlaun voru veitt nemendum við athöfnina fyrir góðan árangur og ástundun í námi. Við athöfnina söng kór MÍ undir stjórn Bjarneyjar Ingibjargar Guðmundsdóttur nokkur lög og Bára Jónsdóttir nýstúdent lék einleik á píanó. Einnig fluttu fulltrúar afmælisárganga ávörp og færðu skólanum gjafir.

            Útskriftarveisla var í íþróttahúsinu um kvöldið og voru þar um 230 gestir. Kór MÍ flutti þar mjög skemmtilegan söngleik og útskriftarnemar voru með skemmtiatriði ásamt afmælisárgöngum. Halldór Smárason lék á píanó undir borðhaldi eins og hann hefur gert frá 15 ára aldri en hann spilaði svo einnig með hljómsveitinni Húsinu á sléttunni í fjörugum og samfelldum dansleik sem stóð til kl.02.00.

 

Til baka