Söngleikurinn Grease

7 mar 2012

Söngleikurinn Grease

Föstudaginn 2. mars frumsýndi leikfélag MÍ söngleikinn Grease í Félagsheimilinu í Hnífsdal undir leikstjórn Halldóru Rósu Björnsdóttur, leikara og leikstjóra. Það stefnir í metaðsókn á söngleikinn á þessari 38. Sólrisuhátíð MÍ.  Leikarar eru 33 og að auki er 6 manna hljómsveit . Það sem einkenndi sýninguna var krafturinn, gleðin og æskufjörið og virkilega góðar söngraddir.  Strákarnir allir sýndu frábæran leik, bæði með söng og dansi sem var á köflum með miklum tilþrifum og kraftmikill. Magnús Traustson var virkilega góður í hlutverki Danny enda með mikla sönghæfileika. Þá voru stúlkurnar ekki síðri og sýndi Sunna Karen enn einu sinni mikla leik- og sönghæfileika í hlutverki englastelpunnar Sandy. Þá vakti frábær leikur Helgu Þuríðar Hlynsdóttur í hlutverki Rizzo athygli. Það sem einkenndi sýninguna var hve allir sem fram komu skiluðu sínum hlutverkum vel.


Að baki  liggur mikil vinna allra aðstandenda sýningarinnar. Tréiðndeildin sá um að smíða palla og tröppur. Háriðndeildin sá um förðun. Á sviðinu er raunveruleg bifreið sem nemendur í málmið og vélstjórn sáu um að útbúa þannig að auðvelt væri að færa hann til og sjá til þess að hann bryti ekki leikfjalirnar. Hljóðkerfi skólans kom sér vel og eins og áður sá Hermann Siegle um tæknihliðina ásamt fjölmörgum aðstoðarmönnum. Leikfélag Menntaskólans á Ísafirði hefur einnig jafnan notið velvildar og aðstoðar fjölmargra aðila utan skólans sem innan.


Ég vil nota þetta tækifæri og þakka þessum aðilum sem og öllum þeim sem styrkt hafa sýninguna með einum eða öðrum hætti. Nemendahópnum sjálfum og leikstjóra óska ég til hamingju með stórglæsilega sýningu.

 

Jón Reynir Sigurvinsson

skólameistari

Til baka