Menntaskólinn á Ísafirði tekur þátt í spennandi verkefni sem kallast Stækkaðu framtíðina. Verkefnið felst í að varpa ljósi á tækifæri framtíðarinnar og veita börnum og ungmennum innblástur til að verða það sem þau langar til, í samræmi við áhuga þeirra og styrkleika. Verkefnið tengir fjölbreytta sjálfboðaliða af vinnumarkaði við skólastofuna. Þar segja þau nemendum frá starfi sínu og hvernig nám þeirra hefur nýst þeim.
Vilmundur Torfi Kristinsson húsasmiður, vélaverkfræðingur og starfsmaður Kerecis reið á vaðið og heimsótti skólann í dag. Kynnti hann nám sitt og störf fyrir nemendum í verknámi.
Stækkaðu framtíðina er verkefni fyrir alla grunn- og framhaldsskóla landsins. Sjálfboðaliðar af vinnumarkaði heimsækja kennslustundir til að lýsa starfi sínu, segja nemendum frá því hvernig nám þeirra hefur nýst og hver bakgrunnur þeirra er. Markmiðið er að öll börn og ungmenni:
- Hafi jöfn tækifæri og aðgang að fjölbreyttu námi og störfum sem er í samræmi við áhuga þeirra og hæfileika.
- Sjái þá möguleika sem standa þeim til boða, óháð bakgrunni og staðsetningu.
- Fái tækifæri til að kynnast ólíkum störfum og heyra sögur frá fólki af vinnumarkaðinum.
- Upplifi aukinn áhuga og sjái tilgang með námi sínu
Nánar má fræðast um verkefnið á heimasíðu þess www.staekkaduframtidina.is. Þar er einnig hægt að skrá sig sem sjálfboðaliða.