Úthlutun styrkja úr minningarsjóði Gyðu Maríasdóttur

10 jún 2021

Úthlutun styrkja úr minningarsjóði Gyðu Maríasdóttur

Minningarsjóður Gyðu Maríasdóttur var stofnaður árið 1962 af nemendum Húsmæðraskólans Óskar á 50 ára afmæli skólans. Stærstur hluti sjóðsins er tilkominn frá Gyðu Maríasdóttur skólastjóra húsmæðraskólans en einnig frá systkinum hennar þeim Jóni, fyrrverandi útibússtjóra Landsbankans á Ísafirði og Hrefnu og Maríu en þau arfleiddu sjóðinn að miklum hluta eigna sinna. Nú er sjóður þessi orðinn digur og ætlunin er að veita úr honum umtalsverða upphæð í ár ef styrkhæfar umsóknir berast. Upphaflega var markmið sjóðsins að styrkja konur ættaðar frá Ísafirði og nágrenni til framhaldsnáms í húsmæðrafræðum. Síðar voru skilyrði sjóðsins rýmkuð vegna breytinga í íslensku samfélagi. Stjórn sjóðsins skipa: Útibússtjóri Landsbankans á Ísafirði, skólameistari Menntaskólans á Ísafirði og fulltrúi frá Þóreyjarsystrum í Oddfellowstúkunni á Ísafirði.

Auglýst er eftir umsóknum um styrk úr Styrktarsjóði Gyðu Maríasdóttur. Styrkurinn er ætlaður til stuðnings vestfirskum konum sem stunda sérhæft framhaldsnám á sviði lista eða menningar. Umsækjandi þarf að hafa náð átján ára aldri og hafa átt lögheimili á Vestfjörðum í a.m.k. tvö ár. 

Umsóknir skulu berast til Jóns Reynis Sigurvinssonar skólameistara Menntaskólans á Ísafirði netfang: jon@misa.is.  Umsóknarfrestur er til 30. júní 2021.

 Stjórn Styrktarsjóðs  Gyðu Maríasdóttur

Til baka