Skólasóknarreglur

Ástundun og skólasókn

 • Nemendur skulu stunda námið af kostgæfni, virða verkstjórn kennarans og skila verkefnum á réttum tíma.
 • Nemendum í reglulegu námi ber að mæta stundvíslega í allar kennslustundir samkvæmt stundatöflu nema lögmæt forföll hamli. Fjarvistir í kennslustundum og seinkomur eru skráðar daglega og færðar í INNU. Gefið er 1 fjarvistarstig fyrir fjarveru í tíma og 0,33 fjarvistarstig fyrir seinkomu. Kennarar skrá viðveru í upphafi kennslustundar. Seinkoma telst ef nemandi mætir eftir að viðveruskráning hefur farið fram. Fjarvist er skráð ef nemandi er ekki mættur þegar að 20 mínútur eru liðnar af kennslustundinni.
 • Nemendum ber að fylgjast með mætingarstöðu sinni í INNU. Nemendur skulu, ef þörf krefur, gera athugasemdir fyrir kl. 16 á mánudegi vegna viðveruskráningar liðinnar viku.
 • Í INNU geta nemendur og forráðamenn nemenda yngri en 18 ára fylgst með stöðu mætinga. Nemendur og forráðamenn nemenda yngri en 18 ára fá tilkynningu um mætingarstöðu þrisvar sinnum á önn auk þess sem hún kemur fram í lotumati.
 • Öll forföll skal tilkynna. Nemendur 18 ára og eldri tilkynna sjálfir sín veikindi. Forráðamenn nemenda yngri en 18 ára tilkynna veikindi barna sinna. Veikindi skal tilkynna í gegnum INNU eða með tölvupósti á netfangið misa@misa.is fyrir klukkan 10:00 hvern virkan dag sem veikindi vara. Framvísa skal vottorði þegar veikindi hafa verið tilkynnt 5 sinnum. Samfelld veikindi teljast 1 skipti. Sé um langvarandi veikindi að ræða skal hafa samband við námsráðgjafa.
 • Tvenns konar mæting er skráð við skólann. Í fyrsta lagi er skráð raunmæting sem er mæting nemenda án tillits til vottorða og leyfa. Raunmæting og ástundun er reiknuð inn í náms/vinnueinkunn nemenda í hverjum áfanga og gildir að lágmarki 10% af heildareinkunn. Í öðru lagi er skráð mæting að teknu tilliti til vottorða og leyfa. Sú mæting kemur fram á einkunnablaði nemenda.
 • Nemendur í fullu námi (25-33 einingar) fá eina einingu á önn fyrir mætingu ef raunmæting er 95% eða meiri.
 • Skólameistari getur veitt undanþágu frá skólasóknarreglum vegna forfalla. Sótt er um undanþáguna í tölvupósti til skólameistara og þarf forráðamaður nemenda yngri en 18 ára að sækja um fyrir þeirra hönd. Slíkar undanþágur eru veittar vegna keppnisferða landsliða eða æfingabúða ef staðfesting frá þjálfara liggur fyrir. Einnig eru veittar undanþágur vegna læknisheimsókna og persónulegra erinda sem talin eru brýn.
 • Tilkynni nemandi eða forráðamaður nemanda yngri en 18 ára um fjarvist af einhverjum orsökum er hún skráð sem tilkynnt fjarvist (T) í INNU og fær nemandinn þá 1 fjarvistarstig í INNU fyrir hverja kennslustund.

Viðbrögð við óviðunandi ástundun og skólasókn

 • Umsjónarkennarar nýnema fylgjast með ástundun og mætingu umsjónarnemenda sinna og hafa samband við forráðamenn ef við á. Ef ástundun batnar ekki við tiltal umsjónarkennara skal nemandanum vísað til námsráðgjafa sem vinnur þá með nemanda að lausn mála.
 • Fari heildarmæting nemanda, frá upphafi annar, niður fyrir 90% eða raunmæting undir 80%, fær hann skriflega viðvörun. Breyti viðkomandi ekki hegðun sinni í framhaldi af þessu fær hann skriflega áminningu frá skólameistara og honum veittur vikufrestur til að koma með málsbætur. Verði engin andmæli og breyting eftir viku frá áminningu er litið svo á að nemandi hafi sagt sig úr viðkomandi áfanga/áföngum og honum tilkynnt um það.
 • Skólameistara er heimilt að skilyrða inntöku nemenda í skólann með því að gera við þá námssamning með öðrum skilyrðum um skólasókn þeirra en gilda í almennum skólasóknarreglum.