Skólareglur MÍ

Skólareglur Menntaskólans á Ísafirði eru nemendum og starfsfólki til stuðnings. Virðing, metnaður, viðsýni og árangur eru einkennisorð skólans og ber að hafa þau að leiðarljósi innan skólans.

Ástundun og skólasókn

  • Nemendur skulu stunda námið af kostgæfni, virða verkstjórn kennarans og skila verkefnum á réttum tíma.
  • Nemendum í reglulegu námi ber að mæta stundvíslega í allar kennslustundir samkvæmt stundatöflu nema lögmæt forföll hamli. Fjarvistir í kennslustundum og seinkomur eru skráðar daglega og færðar í INNU. Gefið er 1 fjarvistarstig fyrir fjarveru í tíma og 0,33 fjarvistarstig fyrir seinkomu. Kennarar skrá viðveru í upphafi kennslustundar. Seinkoma telst ef nemandi mætir eftir að viðveruskráning hefur farið fram. Fjarvist er skráð ef nemandi er ekki mættur þegar 20 mínútur eru liðnar af kennslustundinni.
  • Nemendum ber að fylgjast með mætingarstöðu sinni í INNU. Nemendur skulu, ef þörf krefur, gera athugasemdir fyrir kl. 16 á mánudegi vegna viðveruskráningar liðinnar viku.
  • Í INNU geta nemendur og forráðamenn nemenda yngri en 18 ára fylgst með stöðu mætinga. Nemendur og forráðamenn nemenda yngri en 18 ára fá tilkynningu um mætingarstöðu þrisvar sinnum á önn auk þess sem hún kemur fram í lotumati.
  • Öll forföll skal tilkynna. Nemendur 18 ára og eldri tilkynna sjálfir sín veikindi. Forráðamenn nemenda yngri en 18 ára tilkynna veikindi barna sinna. Veikindi skal tilkynna í gegnum INNU eða með tölvupósti á netfangið misa@misa.is fyrir klukkan 10:00 hvern virkan dag sem veikindi vara. Framvísa skal vottorði þegar veikindi hafa verið tilkynnt 5 sinnum. Samfelld veikindi teljast 1 skipti. Sé um langvarandi veikindi að ræða skal hafa samband við námsráðgjafa.
  • Tvenns konar mæting er skráð við skólann. Í fyrsta lagi er skráð raunmæting sem er mæting nemenda án tillits til vottorða og leyfa. Raunmæting og ástundun er reiknuð inn í náms/vinnueinkunn nemenda í hverjum áfanga og gildir að lágmarki 10% af heildareinkunn. Í öðru lagi er skráð mæting að teknu tilliti til vottorða og leyfa. Sú mæting kemur fram á einkunnablaði nemenda.
  • Nemendur í fullu námi (25-33 einingar fá eina einingu á önn fyrir mætingu ef raunmæting er 95% eða meiri.
  • Skólameistari getur veitt undanþágu frá skólasóknarreglum vegna forfalla. Sótt er um undanþáguna í tölvupósti til skólameistara og þarf forráðamaður nemenda yngri en 18 ára að sækja um fyrir þeirra hönd. Slíkar undanþágur eru veittar vegna keppnisferða landsliða eða æfingabúða ef staðfesting frá þjálfara liggur fyrir. Einnig eru veittar undanþágur vegna læknisheimsókna og persónulegra erinda sem talin eru brýn.
  • Tilkynni nemandi eða forráðamaður nemanda yngri en 18 ára um fjarvist af einhverjum orsökum er hún skráð sem tilkynnt fjarvist (T) í INNU og fær nemandinn þá 1 fjarvistarstig í INNU fyrir hverja kennslustund.

 

Viðbrögð við óviðunandi ástundun og skólasókn

  • Umsjónarkennarar nýnema fylgjast með ástundun og mætingu umsjónarnemenda sinna og hafa samband við forráðamenn ef við á. Ef ástundun batnar ekki við tiltal umsjónarkennara skal nemandanum vísað til námsráðgjafa sem vinnur þá með nemanda að lausn mála.
  • Fari heildarmæting nemanda, frá upphafi annar, niður fyrir 90% eða raunmæting undir 85%, fær hann skriflega viðvörun. Breyti viðkomandi ekki hegðun sinni í framhaldi af þessu fær hann skriflega áminningu frá skólameistara og honum veittur vikufrestur til að koma með málsbætur. Verði engin andmæli og breyting eftir viku frá áminningu er litið svo á að nemandi hafi sagt sig úr viðkomandi áfanga/áföngum og honum tilkynnt um það.
  • Skólameistara er heimilt að skilyrða inntöku nemenda í skólann með því að gera við þá námssamning með öðrum skilyrðum um skólasókn þeirra en gilda í almennum skólasóknarreglum.

 

Fjarnám

Hægt er að leyfa nemendum að skrá sig í fjarnám í einstökum áföngum ef sérstakar ástæður krefjast þess. Þetta á einkum við ef um mikla töfluárekstra er að ræða. Nemendur eru þá í sambandi við kennarann í gegnum námsumsjónarkerfið Moodle. Nemendur sem sækja ekki dagskóla greiða innritunargjald annarinnar og kennslugjald fyrir hverja einingu. Nemendur þurfa að sækja skriflega um að fá að taka áfanga í fjarnámi. Umsóknir um fjarnám skulu hafa borist til stjórnenda fyrir lok tilskilins frests sem auglýstur er við upphaf hverrar annar.

 

Reglur um námsframvindu

  • Að jafnaði skal nemandi sem er í fullu námi sækja 25-33 eininga nám á önn. Verknámsnemendur taka að jafnaði fleiri einingar á önn.
  • Nemandi skal ljúka 15 einingum á önn eða 30 einingum á hverjum tveimur önnum hið minnsta. Skólanum er ekki skylt að endurinnrita nemanda hafi hann ekki náð lágmarkseiningafjölda á tveimur önnum í röð.
  • Nemanda er heimilt að sitja sama áfangann þrisvar sinnum.
  • Fyrstu þrjár vikur annar á nemandi þess kost að breyta stundatöflu sinni án þess að úrsagnir séu skráðar. Eftir það eru úrsagnir skráðar í námsferil nemenda og fær nemandi sem hættir í áfanga skráð fall í námsferil.
  • Einkunnir í framhaldsskólum eru gefnar í heilum tölum frá 1 til 10. Til að standast lokamat og fá leyfi til að hefja nám í eftirfarandi áfanga þarf lágmarkseinkunn 5. Þó er nemanda heimilt að útskrifast með einkunnina 4 ef um lokaáfanga eða stakan áfanga er að ræða. Þessir áfangar gefa ekki einingar.
  • Ef nemandi er veikur þegar lokamat í áfanga á sér stað skal hann tilkynna það til ritara skólans hið fyrsta. Skylt er að skila inn læknisvottorði.
  • Nemandi sem verður uppvís að því að hafa rangt við í prófi telst fallinn á prófinu. Hið sama gildir um misferli þar sem námsmat felst í öðru en skriflegu prófi.
  • Nemendur virði reglur um höfundarétt og notkun og skráningu heimilda. Gildir þá einu hvort um er að ræða búta úr verki eða verkið í heild.

 

Hegðun og umgengni

Einelti og annað ofbeldi er ekki liðið (sjá eineltisáætlun). Ætlast er til að nemendur sýni góða hegðun og umgengni í skólanum og á lóð hans. Matar og drykkjar má ekki neyta í kennslustofum eða á bókasafni. Allt rusl er flokkað og því hent í þar til gerð ruslaílát. Spjöll sem nemendur kunna að vinna á húsnæði skólans eða öðrum eigum hans ber þeim að bæta að fullu. Auglýsingar varðandi skólahald og félagslíf nemenda eru leyfðar á veggjum skólans. Utanaðkomandi sem vilja auglýsa innan veggja skólans eru beðnir um að hafa samband við skrifstofu skólans. Öll tóbaksnotkun er bönnuð í skólanum og á lóð hans. Það sama á við um rafsígarettur. Öll meðferð áfengis og annarra vímuefna er stranglega bönnuð í skólanum og á samkomum og ferðalögum á vegum hans.

 

Viðurlög við brotum á skólareglum

Ítrekuð eða alvarleg brot á reglum þessum geta leitt til brottvísunar og brot sem varða við landslög verða kærð til lögreglu. Brjóti nemandi reglur skólans er honum veitt skrifleg viðvörun áður en til áminningar kemur. Fái nemandi áminningu skal hún vera skrifleg þar sem fram kemur tilefni áminningar, viðbrögð við henni og tímafrestur til andmæla. Forráðamönnum nemenda yngri en 18 ára skal senda afrit skriflegra viðvarana og áminninga.