ÍSLE2BR05

Íslenska - bókmenntir, málnotkun og ritun

Áfangalýsing:

Í áfanganum er fjallað um grunnhugtök málfræði, ritunar og bókmenntagreiningar. Nemendur þjálfast í að lesa ýmiss konar texta, jafnt bókmennta- og fræðitexta og greina þá. Þjálfuð verður ritun ólíkra texta, s.s. persónulegra, skapandi og formlegra. Rifjuð verða upp helstu málfræðihugtök og áhersla lögð á að nemendur læri að byggja upp texta og skipta honum í málsgreinar og efnisgreinar. Þá verða nemendur þjálfaðir í því að flytja mál sitt fyrir framan hóp. Nemendur velja sér skáldsögu í samráði við kennara, lesa hana og skrifa bókmenntaritgerð.

 

Forkröfur: ÍSLE1LR05 eða hæfniseinkunn B úr grunnskóla

 

Markmið:

 Nemandi skal hafa aflað sér almennrar þekkingar og skilnings á:  

 • málfræðihugtökum og ritreglum sem nýtast í tal- og ritmáli.
 • grunnhugtökum í bókmenntafræði.
 • grundvallarvinnubrögðum við skrif ýmiss konar ritsmíða.
 • nauðsyn þess að kunna góð skil á íslensku máli og vanda mál sitt í ræðu og riti.

 Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:  

 • lesa sér til gagns og gamans fræðitexta og bókmenntaverk og fjalla um inntak þeirra.
 • rita ólíkar tegundir ritsmíða þar sem hann beitir gagnrýnni hugsun og kemur skoðunum sínum á framfæri á skýran og greinargóðan hátt.
 • nota viðeigandi hjálpargögn við frágang ritsmíða.
 • draga saman og nýta upplýsingar úr ýmiss konar heimildum.
 • nýta málfræðihugtök og málfræðilegar upplýsingar til þess að efla eigin málfærni.
 • standa fyrir framan hóp og flytja mál sitt.

 Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:  

 • vinna ólík verkefni í tengslum við námsefnið og sýna tilbrigði í málnotkun.
 • styrkja eigin málfærni og nám í erlendum tungumálum.
 • beita skýru og blæbrigðaríku máli í ræðu og riti.
 • taka þátt í málefnalegum umræðum, byggja upp skýra röksemdafærslu, tjá afstöðu og efasemdir um efnið og komast að niðurstöðu.

 

Áfangakeðja í íslensku