LÍOL2SS05

Líffæra- og lífeðlisfræði

Áfangalýsing:

Í áfanganum verður farið yfir grundvallaratriði í líffæra- og lífeðlisfræði. Valin atriði úr námsefninu verða tekin fyrir í reglulegum verkefnum til dýpri skilnings, þekkingar og þjálfunar á notkun hugtaka á íslensku, ensku og latínu auk framsetningar ýmissa lífeðlisfræðilegra þátta. Þau atriði eru meðal annars svæðaskipting líkamans, áttir, líkamshol, bygging og starfsemi frumna og vefja, flutningur efna yfir himnur, frumuskiptingar, vefir og líffæri.

Farið verður yfir eftirfarandi líkamskerfi: Þekjukerfið (lagskipting húðar og líffæri húðar), beinakerfið (beinmyndun, flokkum beina og beinagrindin), vöðvakerfið (hlutverk og bygging vöðva, vöðvasamdráttur, helstu vöðvar og hlutverk þeirra), taugakerfið (skipulag og starfsemi taugakerfis, miðtaugakerfið), úttaugakerfið (viltaugakerfi og dultaugakerfi), skynfærakerfið (skynfærin og hlutverk þeirra) og innkirtlakerfið (bygging og starfsemi kirtla og vaka).

 

Forkröfur: Engar

 

Markmið:

Nemandi skal hafa aflað sér almennrar þekkingar og skilnings á:  

 • þeirri frumustarfsemi sem liggur til grundvallar allri líkamsstarfssemi.
 • enskum og latneskum heitum á helstu byggingareiningum sem fjallað er um í námsefninu.
 • grunnbyggingu og starfsemi mannslíkamans.
 • helstu líffærum og líffærakerfum og samspili þeirra í að viðhalda stöðugleika í líkamanum.
 • byggingu og starfsemi þekju-, beina-, vöðva-, tauga-, skynfæra- og innkirtlakerfis.

Nemandi skal hafa öðlast leikni i að:  

 • nota fræðiheiti við að lýsa afstöðu líffæra og líffærahluta.
 • þekkja meginþætti lífeðlisfræðilegra ferla.
 • þekkja íslensk, ensk og latnesk fræðiheiti sem fram koma í námsefninu.
 • tengja byggingu líffæra- og líffærahluta við starfsemi þeirra.

Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:  

 • nýta þekkingu sína í líffæra- og lífeðlisfræði í öðrum námsgreinum.
 • geta sýnt fram á hvernig lífshættir geta haft áhrif á heilbrigði líkamans.
 • þekkja megin frákvik í starfsemi líffærakerfa líkamans.