Ávarp skólameistara í tilefni 50 ára afmælis

2 okt 2020

Ávarp skólameistara í tilefni 50 ára afmælis

Kæru nemendur, starfsfólk og aðrir velunnarar 

Menntaskólinn á Ísafirði hóf starfsemi sína haustið 1970 og fagnar þann 3. október 50 ára afmæli. Stofnun skólans má þakka ötulli baráttu heimamanna fyrir stofnun framhaldsskóla. Sú barátta verður ekki rakin frekar hér enda var henni og starfi skólans gerð ítarleg skil í Sögu Menntaskólans á Ísafirði til 2008 sem gefin var út í tilefni af 40 ára afmæli skólans þann 2010. 

Í tilefni af 50 ára afmæli skólans voru fyrirhuguð mikil hátíðarhöld en í ljósi aðstæðna í samfélaginu urðu þau smærri í sniðum. Ákveðið var að gera afmælismyndband og var samið við þrjá fyrrverandi nemendur skólans, Ásgeir Helga Þrastarson, Hauk Sigurðsson og Snævar Sölvason um framleiðslu á því. Myndbandið er nú tilbúið til sýningar og frumsýning er í dag, föstudaginn 2. október, sem er vel við hæfi því þann dag fyrir 50 árum mættu fyrstu nemendur skólans til að taka á móti stundatöflum. 

Það er engan veginn hægt að gera hálfrar aldar sögu skóla skil í stuttu myndbandi. Myndbandinu var því ekki ætlað að gera sögu skólans skil heldur að gefa góða innsýn í þann skólabrag sem einkennir Menntaskólann á Ísafirði. Það tekst kvikmyndagerðarmönnunum afar vel og hafa þeir frá því í vor fylgst með skólastarfinu og myndað það fjölbreytta starf sem fram fer í skólanum. Auk þess hafa þeir tekið viðtöl við starfsfólk og nemendur, gamla sem nýja og safnað gömlu myndefni.  

Skóli sem hefur starfað í hálfa öld er í stöðugri þróun. Innan skólans er lögð áhersla á fjölbreytt námsframboð, bæði í bók- og verknámi. Á síðustu árum hefur námsfyrirkomulagið breyst mikið frá því að vera kennsla á staðnum yfir í dreif- og fjarnám.  Kennarar hafa í auknum mæli tileinkað sér ýmsa tækni til að sinna breyttu námsfyrirkomulagi og kom það sér vel þegar skólanum var lokað um miðjan mars vegna COVID-19 og allt bóknám færðist í fjarnám. Í rúman áratug hefur skólinn síðan lagt áherslu á að breyta kennsluháttum og námsmati með þeim hætti að nám nemenda skili betri árangri.  

Nú þegar skólinn fagnar 50 ára afmæli hafa aldrei fleiri nemendur verið skráðir í nám við skólann en þeir voru við upphaf haustannar 489.  Mikill eldmóður, hæfni og góður skólabragur er einkennandi innan skólans. Framtíð MÍ er björt. 

 

Til hamingju með 50 ára afmælið, 

 

Jón Reynir Sigurvinsson 

skólameistari

 

Afmælismyndband Menntaskólans á Ísafirði

Til baka