16 maí 2025
Nemendur á starfsbraut hafa undanfarið unnið að því að hanna og framleiða skilti fyrir friðlandið á Hornströndum og voru skiltin afhent með viðhöfn í dag 16. maí í Hornstrandastofu á Ísafirði. Aðdragandi verkefnisins var sá að Kristín Ósk Jónasdóttir starfsmaður Hornstrandastofu fékk þá hugmynd að fara í samvinnu við nemendur á starfsbraut MÍ um gerð skilta fyrir friðlandið. Íslenskt lerki var útvegað til verksins, nokkrir nemendur lærðu hvernig setja á upp verk á tölvu fyrir fræsara og svo voru skiltin fræst, málað ofan í stafina og pússað. Mikil ánægja var með útkomuna og þótti skiltagerðin hið skemmtilegasta samvinnuverkefni. Á meðfylgjandi myndum sjáum við vinnuferlið og afhendingu skiltanna í Hornstrandastofu.