Vel heppnuð vörumessa

18 mar 2024

Vel heppnuð vörumessa

Vörumessa ungra frumkvöðla var haldin í húsnæði Vestfjarðastofu í síðustu viku. Það voru nemendur í áfanga sem heitir Hugmyndir og nýsköpun sem stóðu þar vaktina og kynntu vörur sínar og þjónustu fyrir gestum og gangandi. Kynningar nemenda voru virklega áhugaverðar og greinilegt að þau höfðu lagt sig fram bæði í hugmyndavinnu, útfærslu og hönnun á ýmis konar vörum og þjónustu. Ólöf Dómhildur kennari í lista- og nýsköpunargreinum hefur haldið utan um verkefnið og leitt nemendur áfram í sinni vinnu, við þökkum Ólöfu kærlega fyrir framlagið og óskum bæði henni og nemendum hennar til hamingju með vel heppnaða vörumessu. Við þökkum einnig þeim Alberti Högnasyni, Sæbjörgu Freyju Gísladóttur, Önnu Maríu Daníelsdóttur og Gunnar Ólafssyni fyrir þeirra framlag en þau tóku að sér að vera ráðgjafar fyrir nemendur og leiðbeindu þeim áfram með verkefnin sín. 

Tveir nemendahópar hlutu viðurkenningar frá dómnefnd fyrir vörur sínar. Annars vegar hlutu Ingibjörg Anna Skúladóttir og Jórunn Inga Guðný Sigurgeirsdóttir viðurkenningu fyrir frumlegasta sölubásinn. Þær kynntu fyrirtækið I&A sem hannar og framleiðir bakka í formi Vestfjarðakjálkans. Hins vegar voru það Unnur Guðfinna Daníelsdóttir, Jón Gunnar Kanishka Shiransson, Adrian Adam Nieduzak og Guðrún Helga Sigurðardóttir sem hlutu viðurkenningu fyrir öflugasta sölustarfið. Þau kynntu hugmynd sína að smáforriti með spurningakeppni í anda Gettu Betur sem þau nefna Vitlaus. 

Í dómnefnd sátu Sædís Ólöf Þórsdóttir frá Kertahúsinu, Jakob Tryggvason frá Þrym, Anna María Daníelsdóttir frá Bláma og Magnús Bjarnason frá Vestfjarðastofu. 

Þá voru einnig veittar viðurkenningar frá Vestfjarðastofu fyrir myndbandsverkefni sem nemendur unnu fyrr á önninni. Myndböndin sýndu hugmyndir nemenda um Vestfirði árið 2045 og var unnið í samstarfi við Vestfjarðastofu. Það var Anna Sigríður Ólafsdóttir verkefnastjóri sem afhenti viðurkenningar fyrir myndbandsverkefnin. Nánar má lesa um þau í frétt á vef Vestfjarðastofu.

Hluti nemendanna hefur skráð sig til þátttöku í Vörumessu ungra frumkvöðla sem haldin verður í Smáralind í apríl og mun því leggja land undir fót með vörur sínar og kynningar. 

Til baka