15 des 2008

Sjúkra- og endurtektarpróf

Þeir nemendur sem hyggjast þreyta sjúkrapróf eða eiga rétt á að endurtaka próf verða að skrá sig í sjúkra- og endurtektarpróf hjá ritara fyrir kl.15:00 mánudaginn 15. desember. Nemendur sem voru veikir í prófi verða auk þess að skila inn læknisvottorði vegna veikindanna til þess að hafa heimild til að þreyta sjúkrapróf.

Prófstjóri
24 nóv 2008

Hádegistónleikar á sal

Tónlistarnemar í Menntaskólanum á Ísafirði efna til stuttra hádegistónleika í skólanum miðvikudaginn 26. nóvember kl. 12:10. Dagskráin er fjölbreytt og aðgengileg, m.a. verk eftir klassísku tónskáldin Bach, Franz Liszt, Poulenc en einnig lög af léttara taginu. Nemendurnir sem fram koma eru Arnar Hafsteinn Viðarsson (gítar), Ásgeir Helgi Þrastarson (gítar), Bjarni Kristinn Guðjónsson (rafgítar),Fabio Tafuni (píanó), Fjóla Aðalsteinsdóttir (þverflauta), Halldór Smárason (píanó), Jónbjörn Finnbogason (bassi) og loks hljómsveit skipuð Baldri Þ. Sigurlaugssyni (trompet). Smára Alfreðssyni (saxófónn), Baldri Hannessyni (gítar) Brynjólfi Óla Árnasyni (bassi) og Daða Má Guðmundssyni (trommur).

Tónleikarnir eru einnig opnir almenningi og eru allir hjartanlega velkomnir að koma í sal Menntaskólans á miðvikudaginn kemur kl. 12.10 til að hlusta á þessi efnilegu ungmenni.

Á fjórða tug nemenda Menntaskólans á Ísafirði stunda nú tónlistarnám í Tónlistarskóla Ísafjarðar, Tónlistarskólanum í Bolungarvík eða í Listaskóla Rögnvaldar Ólafssonar og fá það nám metið til eininga í sínu menntaskólanámi. Þessir tónleikar nú eru ekki síst ætlaðir til að kynna þetta nám fyrir kennurum og samnemendum þeirra í MÍ. Ef vel tekst til nú verður efalítið framhald á slíku tónleikahaldi í skólanum.

19 nóv 2008

Heilræði fyrir próf

Jólapróf munu hefjast 1. desember og er próftaflan aðgengileg í INNU og hér á heimasíðunni. Til að nemendur geti undirbúið sig sem best undir próf er hér einnig að finna heilræði sem námsráðgjafar skólans hafa tekið saman. Námsráðgjafar skólans hafa ráð undir rifi hverju og geta aðstoðað nemendur við að skipuleggja sig fyrir próf. Einnig er mikilvægt að nemendur sem haldnir eru prófkvíða panti sér tíma hjá námsráðgjafa.
17 nóv 2008

Menntamálaráðherra kynnir nýja menntastefnu á Ísafirði

Þessa dagana er menntamálaráðherra á ferð um landið að kynna nýja menntastefnu og ný lög um þrjú skólastig og menntun kennara. Næsti fundur verður haldinn í Menntaskólanum á Ísafirði miðvikudaginn 19. nóvember kl. 20. Á fundinum mun Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, kynna nýja menntastefnu og Arnór Guðmundsson, skrifstofustjóri í menntamálaráðuneyti, kynnir nýja menntalöggjöf nánar. Að erindum loknum verða pallborðsumræður með málshefjendum ásamt Guðna Olgeirssyni og Sölva Sveinssyni, sérfræðingum í menntamálaráðuneyti. Fundarstjóri verður Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar og formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Fundurinn er öllum opinn og vill menntamálaráðuneytið hvetja skólafólk, foreldra, nemendur og annað áhugafólk um skólamál til að mæta og ræða nýja menntalöggjöf sem býður upp á mörg og spennandi tækifæri fyrir íslenskt skólakerfi.

17 nóv 2008

Umsjónartími vegna prófa

Í fundartíma fimmtudaginn 21. nóvember eiga nemendur að hitta umsjónarkennara sína í umsjónarstofum. Farið verður yfir ýmis mikilvæg atriði er varða haustannarprófin sem eru framundan. Sérstaklega er mikilvægt að nemendur kanni stöðu sína vegna mætinga og hvort þeir hafa próftökurétt.
29 okt 2008

VAL VORANNAR

Nemendur bóknámsbrauta og sjúkraliðanemar eru minntir á að velja sér áfanga fyrir vorönn 2009. Hér eru leiðbeiningar með rafrænu vali í INNU.
13 okt 2008

Heimsókn frá Frakklandi

Nemendur frá samstarfsskóla okkar Lycée Sainte Marie du Port í Sable d´Olonne eru í heimsókn þessa vikuna. Þau komu á föstudaginn og verða hér fram á fimmtudag. Um helgina fóru þau m.a. á Hrafnseyri, í Dýrafjörð og á Flateyri og Suðureyri. Þau munu einnig heimsækja Bolungarvík o.fl á meðan á dvölinni stendur. Við vonum að þau njóti dvalarinnar en nemendur úr MÍ munu endurgjalda þeim heimsóknina í mars á næsta ári.
10 okt 2008

Gettu betur í vetur

Það voru þau Hallberg Brynjar Guðmundsson, Halldór Smárason og Þorgerður Þorleifsdóttir sem sigruðu í spurningakeppninni Gettu betur í vetur. Þau lögðu lið Ásgeir Guðmundar Gíslasonar, Hjalta Más Magnússonar og Stefáns Pálssonar í spennandi úrslitaviðureign. Áhugi og árangur keppenda hefur verið mikill í kringum keppnina og er tilvonandi þátttakendum í Gettu betur keppni framhaldsskólanna óskað góðs gengis.
10 okt 2008

Frá Heimili og skóla

Landsamtökin Heimili og skóli hafa sent skólanum skilaboð til birtingar á heimasíðunni. Skilaboðin er hægt að nálgast hérna.
10 okt 2008

Reglur um dreifnámið

Nemendum er bent á að kynna sér vel eftirfarandi reglur um dreifnám:
Greiða skal innritunar- og kennslugjald við upphaf annar.
Dreifnám í MÍ er lotunám. Gert er ráð fyrir að a.m.k. 6 lotum á hverri önn. Samkvæmt 6 lotu skipulagi er lagt inn efni annan hvern þriðjudag.

 

Meira