24 feb 2020

Þátttöku MÍ í Gettu betur lokið

Spennandi Gettu betur viðureign Menntaskólans á Ísafirði og Verzlunarskóla Íslands fór fram föstudagskvöldið 21. febrúar og lauk með sigri Verzlunarskólans með 32 stigum gegn 25.  

Við óskum báðum liðum til hamingju með góða frammistöðu í keppninni.  

Ekkert ferðaveður var frá Ísafirði fimmtudag og föstudag, hvorki með bíl né flugi. Sem betur fer fór Gettu betur lið MÍ suður á miðvikudeginum þegar sá í hvað stefndi samkvæmt veðurspá. Við þökkum kærlega öllum þeim áhorfendum sem svöruðu kallinu og mættu í sjónvarpssal til að styðja MÍ þegar í ljós kom að stuðningslið MÍ kæmist ekki suður með rútu á föstudeginum eins og til stóð vegna veðurs. Vel gert velunnarar MÍ!  

19 feb 2020

Frumsýning sólrisuleikrits 2020

Undanfarnar vikur hafa menntskælingar sem koma að sólrisuleikriti NMÍ æft stíft.

Sólrisuleikritið í ár er söngleikurinn víðförli Mamma Mía og verður verkið frumsýnt í Edinborgarhúsinu föstudaginn 28. febrúar kl. 20.

Leikstjóri sýningarinnar er Skúli Gautason og formaður leikfélagsins er Ásrós Helga Guðmundsdóttir.

 

Nánari upplýsingar um dagskrá og miðapantanir á Facebook síðu leikritisins:

MAMMA MIA 

17 feb 2020

RÚV heimsótti Gettu betur lið MÍ

Undirbúningur fyrir 8 liða úrslit Gettu betur er í fullum gangi og spennan orðin mikil í Menntaskólanum á Ísafirði.  

Í dag heimsótti RÚV skólann og fylgdi Gettu betur liði MÍ í undirbúningi sínum fyrir keppnina í sjónvarpssal næsta föstudag. 

Þórarinn Bjartur Breiðfjörð Gunnarsson kennari í menntaskólanum og forstöðumaður FabLabsins á Ísafirði, sem staðsett er í menntaskólanum, aðstoðaði liðið í dag meðal annars við skiltagerð fyrir liðið.   

MÍ keppir gegn Verzlunarskóla Íslands í 8 liða úrslitum og fer viðureignin fram föstudaginn 21. febrúar nk. í sjónvarpssal. Bein útsending hefst á RÚV kl. 19.45.  

Lið MÍ skipa Davíð Hjaltason, Einar Geir Jónasson og Þuríður Kristín Þorsteinsdóttir. 

Áfram MÍ!  

16 feb 2020

Háskóladagurinn á Ísafirði

Háskóladagurinn heimsækir Ísafjörð fimmtudaginn 12. mars nk. kl. 11:30-13:00.

Kynningin verður í Gryfju Menntaskólans á Ísafirði. 

Allir háskólar landsins kynna námsframboð sitt, sem telur yfir 500 námsleiðir, nemendur, kennarar og námsráðgjafar verða á staðnum.

Langar þig í háskólanám? Ef svarið er já, þá viltu ekki missa af þessu einstaka tækifæri.

Allir eru velkomnir á kynninguna. 

Takið daginn frá!

Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu og samfélagsmiðlum:

www.haskoladagurinn.is
www.facebook.com/haskoladagurinn
www.instagram.com/haskoladagurinn

13 feb 2020

Tilkynning vegna væntanlegs óveðurs 14. febrúar

Ágætu nemendur og starfsfólk

Vegna slæmrar veðurspár fyrir föstudaginn 14febrúar hefur verið ákveðið að loka skólahúsnæði Menntaskólans á Ísafirði. Staðbundin kennsla fellur niður en nemendur og starfsfólk sinna vinnu og námi í gegnum námsumsjónarkerfið Moodle. Kennarar verða í sambandi við nemendur í tölvupósti ef breytingar verða á fyrirkomulagi kennslu.

Fyrirhugaðri árshátíð nemenda sem halda átti annað kvöld er frestað um óákveðinn tíma.

Með góðri kveðju,

stjórnendur Menntaskólans á Ísafirði

12 feb 2020

Gettu betur lið MÍ gegn kennurum MÍ

Gettu betur lið Menntaskólans á Ísafirði skoraði á kennara skólans í spurningakeppni sem liður í undirbúningi fyrir viðureignina gegn Verzlunarskóla Íslands í sjónvarpssal RÚV föstudaginn 21. febrúar nk. 

Kennarar tóku að sjálfsögðu áskoruninni og fór viðureignin fram í Gryfjunni í dag.

Gettu betur lið MÍ hafði tveggja stiga forskot eftir hraðaspurningar og hélt þeirri forystu eftir bjölluspurningar. Gettu betur lið MÍ náði svo að svara lokaspurningunni með glæsibrag og vann lið kennara því nokkuð örugglega með fjögurra stiga mun. 

Við óskum Gettu betur liði MÍ til hamingju með sigurinn og áframhaldandi velgengni í undirbúningi fyrir viðureignina gegn Verzlunarskóla Íslands. 

 

4 feb 2020

Hvatning á afreksíþróttasviði MÍ

Dagur Sigurðsson landsliðsþjálfari Japans í handbolta hélt í dag fyrirlestur fyrir nemendur á afreksíþróttasviði Menntaskólans á Ísafirði.

Fyrirlesturinn fjallaði um hvað það er sem skiptir máli til að ná árangri í íþróttum. Dagur tók dæmi frá sínum ferli sem leikmaður í handbolta og sem þjálfari Bregenz, Füchse Berlin og austuríska, þýska og japanska landsliðsins í handbolta, en Dagur á að baki farsælan feril bæði sem leikmaður og þjálfari. Skemmst er að minnast Evrópumeistaratitils þýska landsliðsins árið 2016, og fyrir tíu dögum náðu Japanir bronsi á Asíuleikunum undir stjórn Dags.

Fyrirlesturinn vakti mikla athygli nemenda og verður þeim án efa góð hvatning í sínu námi. 44 nemendur Menntaskólans á Ísafirði stunda nám á afreksíþróttasviði.

Menntaskólinn á Ísafirði þakkar Degi Sigurðssyni fyrir heimsóknina og óskar honum og japanska landsliðinu góðs gengis á Ólympíuleikunum í Tokyo í sumar.

30 jan 2020

Skólasýningin BETT 2020

Tveir kennarar Menntaskólans á Ísafirði sóttu skólasýninguna BETT í London 21. - 24. janúar sl.

BETT er stór skólasýning sem haldin er árlega í London. Helstu fagaðilar sem tengjast skólamálum kynna þar nýjungar í skólastarfi, vörur og kennsluefni. Á sýningunni er einnig fjölbreytt dagskrá fyrirlestra um menntamál og örnámskeiða í þeim nýjungum sem verið er að kynna. 

Menntaskólinn á Ísafirði hefur tekið þátt í BETT undanfarin ár með veglegum styrkjum frá RANNÍS og sent einn til tvo kennara á sýninguna. Þátttakan nýtist skólanum í starfi kennara og stjórnenda sem fá hugmyndir og aðgang að kennsluefni, kennslubúnaði og nýjungum í tækni, sem og til að mynda tengingar við alþjóðanet fagaðila í skólastarfi.

Kennararnir sem tóku þátt í BETT í ár voru Helga Guðrún Gunnarsdóttir kennari háriðngreina og starfsbrautar, og Júlía Björnsdóttir kennari stjórnmálafræði, dönsku og ritlistar og safnvörður bókasafns skólans. 

28 jan 2020

Sólarkaffi MÍ

Löng hefð er fyrir sólarkaffi innan Menntaskólans á Ísafirði. Fimmtudaginn 23. janúar sl. var boðið upp á sólarkaffi í skólanum. Um kaffið sáu útskriftarferðarfarar skólans. 

25. janúar er hinn eiginlegi sólardagur Ísfirðinga en sólardagur er miðaður við þann dag er sól sleikir Sólgötu við Eyrartún (ef veður leyfir) eftir langa vetursetu handan fjalla. Á Ísafirði hvefur sólin á bak við fjöll seint í nóvember og birtist aftur í lok janúar. Í meira en 100 ár hafa Ísfirðingar fagnað komu sólar með því að drekka sólarkaffi og gæða sér á pönnukökum. 

Ekki hefur þó sést til sólar síðan sólin fór að ná yfir fjöllin, en allar líkur eru á að það muni gerast í dag, þriðjudaginn 28. janúar. Við bjóðum sólina velkomna aftur í bæinn. 

 

20 jan 2020

MÍ komið áfram í sjónvarpshluta Gettu betur

Í 2. skiptið í sögu MÍ er Gettu betur lið skólans komið áfram í sjónvarpshluta keppninnar eða 8 liða úrslit. MÍ sigraði Verkmenntaskóla Austurlands (VA) í endurtekinni keppni annarrar umferðar með 23 stigum gegn 12.

MÍ mun mæta Verzlunarskóla Íslands í sjónvarpssal föstudaginn 21. febrúar n.k. Við óskum keppendunum og þjálfara innilega til hamingju en liðið skipa þau Davíð Hjaltason, Einar Geir Jónasson og Þuríður Kristín Þorsteinsdóttir. Þjálfari er Veturliði Snær Gylfason.