8 jan 2024

MÍ komið áfram í Gettu betur

Lið Menntaskólans á Ísafirði er komið áfram í 2. umferð Gettu betur. Liðið vann góðan sigur á Menntaskólanum á Egilsstöðum, 29-13. 

 

Lið MÍ er skipað þeim Daða Hrafni Þorvarðarsyni, Mariann Raehni og Sögu Líf Ágústsdóttir. Signý Stefánsdóttir er varamaður og þjálfarar eru þeir Einar Geir Jónasson og Jón Karl Ngosanthiah Karlsson. 

Við óskum Gettu betur-liðinu innilega til hamingju með sigurinn!

5 jan 2024

MÍ keppir við ME í Gettu betur á mánudaginn

Lið Menntaskólans á Ísafirði og lið Menntaskólans á Egilsstöðum eigast við í fyrstu umferð Gettu betur á mánudaginn, 8. janúar. Fyrsta umferð fer fram í útvarpi. 

Lið MÍ er skipað þeim Daða Hrafni Þorvarðarsyni, Mariann Raehni og Sögu Líf Ágústsdóttir. Signý Stefánsdóttir er varamaður og þjálfarar eru þeir Einar Geir Jónasson og Jón Karl Ngosanthiah Karlsson. Liðið hefur æft stíft síðan í haust og er spennt fyrir komandi viðureign. Við óskum Gettu betur liðinu góðs gengis. Áfram MÍ!

 

2 jan 2024

Upphaf vorannar

Skólastarf hefst að nýju eftir jólafrí fimmtudaginn 4. janúar. Nemendur eiga að mæta í Gryfjuna kl. 11:45 þar sem verður stuttur fundur en eftir hann hefst kennsla skv. stundatöflu. 

21 des 2023

Brautskráning

Miðvikudaginn 20. desember fór fram brautskráning frá Menntaskólanum á Ísafirði. Athöfnin fór fram í Ísafjarðarkirkju og var henni jafnframt streymt af Viðburðastofu Vestfjarða.

Á haustönn voru 448 nemendur skráðir í nám við skólann. Alls voru 184 nemendur í dagskóla og þar af 57 nýnemar. Aðrir nemendur stunduðu dreifnám eða fjarnám. Nemendahópurinn okkar er mjög fjölbreyttur. Yngsti nemandinn er 14 ára og sá elsti 65 ára. Margir nemendur eru með annan tungumála- og menningarbakgrunn en íslenskan og í dagskóla er hlutfall þeirra 25%. Um helmingur dagskólanemenda skólans stundar nám á starfs- eða verknámsbrautum og er það svipað hlutfall og undanfarnar annir.

Alls brautskráðust 32 nemendur frá skólanum að þessu sinni. Af þeim voru 5  dagskólanemendur, 16 dreifnámsnemendur og 11 nemendur í fjarnámi með MÍ sem heimaskóla.

Nemendurnir 32 útskrifuðust af 13 námsbrautum:

  • 1 nemandi úr grunnnámi rafiðngreina 
  • 6 nemendur úr húsasmíði
  • 3 nemendur úr iðnmeistaranámi 
  • 1 nemandi af sjúkraliðabraut
  • 1 nemandi af sjúkraliðabrú
  • 1 nemandi af skipstjórnarbraut A 
  • 3 nemendur af skipstjórnarbraut B
  • 1 nemandi úr stálsmíðanámi 
  • 1 nemandi með viðbótarnám við smáskipanám 
  • 18 nemendur með stúdentspróf (4 af félagsvísindabraut, 1 af náttúruvísindabraut, 8 af opinni stúdentsbraut og 4 með stúdentspróf af fagbraut) 
     

Fimm nemendur fengu verðlaun við brautskráninguna:

Baldur Freyr Gylfason hlaut verðlaun fyrir góðan árangur í grunnnámi rafiðna. Fríða Ástdís Steingrímsdóttur hlaut verðlaun fyrir seiglu í námi. Jón Karl Ngosanthiah Karlsson hlaut verðlaun fyrir góða þátttöku í félagsstörfum. Lára Ósk Pétursdóttir hlaut verðlaun fyrir góðan námsárangur. Robera Soparaite hlaut verðlaun fyrir góðan árangur í húsasmíðanámi.

Við óskum útskriftarnemendum innilega til hamingju með áfangann og þökkum þeim ánægjulega samfylgd á námsárum þeirra í MÍ.

19 des 2023

Brautskráning 20. desember

Miðvikudaginn 20. desember verða 32 nemendur brautskráðir af 13 námsbrautum. Brautskráningarathöfnin fer fram í Ísafjarðarkirkju og hefst kl. 15:00. Viðburðarstofa Vestfjarða mun streyma frá athöfninni, hægt er að horfa hér.

14 des 2023

Stöðupróf

Viljum vekja athygli á að Menntaskólinn við Sund heldur stöðupróf í eftirfarandi tungumálum fimmtudaginn 25. janúar 2024:

Arabíska
Hollenska
Lettneska
Pólska
Rússneska
Víetnamíska
Þýska

Sjá nánari upplýsingar hjá MS

5 des 2023

Sænska 1&2 í fjarnámi á vorönn 2024

Á vorönn 2024 verða bæði sænska 1 og 2 í boði í fjarnámi* við MÍ.

Inntökuskilyrði í sænsku 1 (SÆNS2NB05) eru að nemendur hafi grunnþekkingu í sænsku.
Inntökuskilyrði í sænsku 2 (SÆNS2NV05) eru að nemendur hafi lokið sænsku 1.

Áhugasamir geta sótt um í gegnum umsóknarvef skólans til 3. janúar 2024.

Allar nánari upplýsingar veitir Martha Kristín áfanga- og fjarnámsstjóri, martha@misa.is

*með fyrirvara um næga þátttöku

30 nóv 2023

Jólavika

MÍ er sannarlega að komast í jólaskap þessa dagana. Jólavika nemendafélagsins stendur yfir og hafa nemendur verið að gera jólalegt í kringum sig með borðskreytingum og jólalegu þema alla vikuna. Í dag var jólapeysuþema og á morgun er sparifataþema í tilefni 1. des. Um kvöldið verður svo haldinn hinn árlegi fullveldisfagnaður og mikil stemning í loftinu. Vikan sem er að líða er síðasta heila vikan í kennslu og taka svo við námsmatsdagar 6. - 13. desember. 

30 nóv 2023

Jólavika

MÍ er sannarlega að komast í jólaskap þessa dagana. Jólavika nemendafélagsins stendur yfir og hafa nemendur verið að gera jólalegt í kringum sig með borðskreytingum og jólalegu þema alla vikuna. Í dag var jólapeysuþema og á morgun er sparifataþema í tilefni 1. des. Um kvöldið verður svo haldinn hinn árlegi fullveldisfagnaður og mikil stemning í loftinu. Vikan sem er að líða er síðasta heila vikan í kennslu og námsmatsdagar taka við 6. - 13. desember. 

28 nóv 2023

Nemendur frá EUC Lillebælt í heimsókn

Undanfarna daga hafa danskir málmsmíðanemendurnemendur og kennari þeirra frá samstarfsskóla okkar, EUC Lillebælt, verið í skólaheimsókn. Nemendurnir hafa unnið að verkefnum undir leiðsögn Jonasar kennara auk þess sem þeir hafa skoðað sig um hér á svæðinu. Hópurinn gistir á heimavistinni.

Menntaskólinn á Ísafirði og EUC Lillebælt hafa átt gott samstarf í málmiðngreinum frá árinu 2011. Nemendur og kennarar frá skólunum hafa skipst á heimsóknum, kynnst þannig nýjum skólaaðstæðum og farið í fyrirtækjaheimsóknir. Samstarfið hefur verið farsælt frá upphafi og stefnt er að því að hópur frá MÍ fari til Danmerkur árið 2024.