24 okt 2011

Boost í mötuneyti

Eins og flestir vita er MÍ heilsueflandi framhaldsskóli. Á þessu skólaári einbeitum við okkur að næringunni. Í tilefni af því hefur verið ákveðið að bjóða nemendum og starfsfólki að kaupa boost í mötuneytinu. Í boði verða fjórar bragðtegundir og þarf að leggja inn pöntun daginn áður. Boostið er svo afhent kl. 10:00 í mötuneytinu. Nánari upplýsingar um verð, bragð og fyrirkomulag er að finna hér.

22 sep 2011

KAPPRÓÐUR

Hinn árlegi kappróður fór fram á Pollinum í dag í blíðskapar veðri. Keppt var á sjókayökum líkt og í fyrra, en þetta er í 11. sinn sem keppnin fer fram. Að þessu sinni mættu 9 lið til leiks og er það einu liði fleira en í fyrra. Úrslitin urðu þau að lið kennara sigraði á tímanum 4:56:46. Í öðru sæti var kvennalið skipað þeim Thelmu Rut Jóhannsdóttur, Lydíu Sigurðardóttur og Natalíu Sigurðardóttur. Lið stjórnar NMÍ var í þriðja sæti, rétt á undan liði dönsku gestanemndanna. Besta tíma náði Rúnar Helgi Haraldsson, 1:36:19 en næstbesta tímann átti Martha Þorsteinsdóttir, 1:38:45. Heildarúrslitin er að finna hér. Fleiri myndir eru komnar inn undir MYNDIR hér til vinstri á síðunni.
9 sep 2011

Bók í mannhafið

Við anddyri skólans er að finna kassa með ýmsum bókum sem  nemendum er frjálst að taka og lesa.

Það má skila bókinni aftur í kassann eða koma henni áfram á næsta mann.  Á næstu vikum munu bókakassar verða settir upp á fleiri stöðum innan skólans.


Hugmyndin er fengið frá Háskólanum á Akureyri sem í tilefni alþjóðadags læsis  ( 8. september) hefur komið bókakössum víðs vegar um Akureyri sem í eru bækur, sem fólk á öllum aldri getur tekið heim með sér.  Að lestri loknum er bókinni komið fyrir í sambærilegum bókakassa eða á stað sem er aðgengilegur öðrum.  Hver bók er merkt með límmiða þar sem á stendur Bók í mannhafið.

 

Þessa stórsniðugu hugmund má síðan rekja til fram taksins bookcrossing ( www.bookcrossing.com) þar sem m.a. er hægt að fylgjast með ferðalagi hverrar bókar um heiminn.

 

Bókavörður MÍ

 

 

 

 

8 sep 2011

Nýnemaferð 2011

Hin árvissa nýnemaferð var farin í Dýrafjörð og Arnarfjörð dagana 1. og 2. september s.l. Nýnemar og umsjónarkennarar byrjuðu ferðina á heimsókn í safn Jóns Sigurðssonar á Hrafnseyri í Arnarfirði, undir leiðsögn staðarhaldara Valdimars Halldórssonar. Síðan var ekið að Núpi í Dýrafirði þar sem gist var um nóttina. Nýnemar fengu fræðslu og leiðsögn um Núpsskóla og garðinn Skrúð. Haldin var kvöldvaka og stjórn NMÍ mætti til að kynna félagslíf skólans fyrir nýnemum. Daginn eftir var ratleikur og svo var haldið til baka um hádegisbilið. Meðfylgjandi myndir eru úr ferðinni og fleiri myndir eru á myndasíðunni hér til vinstri.
30 ágú 2011

Skólasetning

Skólinn var settur við hátíðlega athöfn þann 22. ágúst s.l. að viðstöddu fjölmenni. Skólameistari flutti skýrslu og ávarpaði nemendur. Freyja Rein Grétarsdóttir nýnemi lék á píanó, Bátssönginn eftir Felix Mendelsohn. Að vanda sungu allir viðstaddir saman Ísland ögrum skorið, lag Sigvalda Kaldalóns við ljóð Eggerts Ólafssonar. Hulda Bragadóttir lék undir á píanó. Myndir af setningarathöfninni er að finna á myndasíðunni hér til vinstri.
18 ágú 2011

Stundatöflur opnar

Stundatöflur þeirra nemenda sem greitt hafa innritunar- og þjónustugjöld eru nú opnar í INNU. Nýnemar fá notenda- og lykilorð að lokinni skólasetningu.
30 maí 2011

Skólaslit 2011

Menntaskólanum á Ísafirði var slitið í 41. sinn við hátíðlega athöfn í Ísafjarðarkirkju laugardaginn 28. maí sl. Að þessu sinni voru 57 nemendur brautskráðir frá skólanum. Tveir nemendur luku námi í förðunarfræði, og átta luku A-námi vélstjórnar. Þrír nemendur luku B-námi vélstjórnar, tveir stálsmiðir voru brautskráðir og þrír vélvirkjar. Einnig luku tveir sjúkraliðar námi og einn iðnmeistari í rafvirkjun var brautskráður. Einn nemandi brautskráðist af starfsbraut og 33 nemendur luku stúdentsprófi. Hefur skólinn þar með brautskráð 65 nemendur á því skólaári sem er að ljúka, þar eð 8 nemendur voru brautskráðir um síðustu jól. Hæstu meðaleinkunn á stúdentsprófi 9,39 hlaut Sólveig Guðmunda Guðmundsdóttir stúdent af náttúrfræðibraut. Katrín Sif Kristbjörnsdóttir stúdent af náttúrufræðibraut hlaut meðaleinkunnina 9,37.  Fjölmörg verðlaun voru veitt nemendum við athöfnina fyrir góðan árangur og ástundun í námi. Við athöfnina söng kór MÍ undir stjórn Bjarneyjar Ingibjargar Guðmundsdóttur nokkur lög og Bára Jónsdóttir nýstúdent lék einleik á píanó. Einnig fluttu fulltrúar afmælisárganga ávörp og færðu skólanum gjafir.

            Útskriftarveisla var í íþróttahúsinu um kvöldið og voru þar um 230 gestir. Kór MÍ flutti þar mjög skemmtilegan söngleik og útskriftarnemar voru með skemmtiatriði ásamt afmælisárgöngum. Halldór Smárason lék á píanó undir borðhaldi eins og hann hefur gert frá 15 ára aldri en hann spilaði svo einnig með hljómsveitinni Húsinu á sléttunni í fjörugum og samfelldum dansleik sem stóð til kl.02.00.

 

18 apr 2011

Stuttmyndakeppni - MÍ í 2. sæti

Nemendur á Starfsbraut MÍ urðu í öðru sæti í Stuttmyndakeppni starfsbrauta í framhaldsskólum sem haldin var í Borgarholtsskóla 14. apríl. Þetta var í fyrsta skiptið sem þeir taka þátt í slíkri keppni. Í umsögn dómnefndar, sem skipuð var þremur leikstjórum, segir m.a. að myndin hafi verið frumleg og fyndin og að leikarar hafi sýnt mikil tilþrif.  Kristján Viggósson, enskukennari við Menntaskólann, sá um að velja efni myndarinnar í samráði við nemendur og leikstjórn var einnig í höndum hans. Hreinn Þórir Jónsson og Einar Bragi Guðmundsson, sem báðir eru nemendur í skólanum, tóku upp myndina og klipptu hana til sýningar. Það voru alls 16 skólar sem tóku þátt í keppninni. Í fyrsta sæti var framlag Fjölbrautaskólans í Garðabæ og í þriðja sæti varð Verkmenntaskólinn á Akureyri. Nemendum á starfsbraut er óskað innilega til hamingju með þennan frábæra árangur! Myndir úr ferðinni eru komnar inn á heimasíðuna.
31 mar 2011

Laus störf

Nokkur laus störf eru í boði við skólann. Nánari upplýsingar er að finna þegar smellt er á hnappinn laus störf hér til hægri á síðunni.