5 jún 2023

Heimsókn frá Flensborg

Flensborgarskólinn í Hafnarfirði kom í heimsókn á starfsdögum í lok maí.

Skemmtileg heimsókn sem fólst í gagnkvæmum kynningum á skólunum, vinnufundi um gervigreind og EKKÓ mál, sameiginlegum kvöldverði og skemmtun.

Þökkum Flensborgarfólki góð kynni og hlökkum til að heimsækja þau við tækifæri.

1 jún 2023

Starfsfólk kvatt

Í lok skólaárs verða oft á tíðum breytingar á starfsliði skólans.

Nú við lok vorannar var haldið kveðjukaffi fyrir þá starfsmenn sem kvöddu okkur, við þökkum samstarfsfólki okkar kærlega fyrir samfylgdina og samstarfið.

Eftirfarandi starfsmenn létu af störfum:

Auður stuðningsfulltrúi 
Jón Reynir skólameistari
Helga Björt sviðsstjóri starfsbrautar 
Helga Guðrún kennari í háriðngreinum
Ragnheiður Fossdal líffræðikennari

Megi ykkur vegna vel á nýjum vettvangi.
Kveðja,
Samstarfsfólk í MÍ

1 jún 2023

Veisla matartæknibrautar

Í lok vorannar héldu nemendur matartæknibrautar glæsilega matarveislu fyrir vini, vandamenn og starfsfólk skólans.

Veislan var hluti af námi nemenda og buðu þeir upp á þríréttaða veislu sem samanstóð af glæsilegum forréttum, lambi og meðlæti í aðalrétt og stórglæsilegu eftirréttahlaðborði.

Með veislunni luku nemendur fyrstu önn sinni í matartæknináminu og æfðu sig í leiðinni í framreiðslu, þjónustu og fleiru tengdu veisluhöldum.

Voru veislugestir á eitt sammála um að vel hefði tekist til og hlakka til næstu veislu.

1 jún 2023

MÍ nær fimmta græna skrefinu

Menntaskólinn á Ísafirði er kominn með 5 græn skref! Vegferð skólans í þessu verkefni hófst fyrir alvöru í byrjun árs 2022 og náðust fyrstu tvö skrefin á vorönn. Um haustið bættist við þriðja skrefið, það fjórða rétt fyrir páskafrí og undir lok vorannar 2023 var svo fimmta og síðasta skrefið í höfn. Það má segja að vinnan við að uppfylla aðgerðir grænu skrefanna hafi oft verið krefjandi en um leið bæði skemmtileg og fróðleg auk þess að bæta umhverfisvitund starfsfólks og nemenda.

Margt hefur áunnist hvað varðar vinnu við að draga markvisst úr losun gróðurhúsalofttegunda í starfsemi skólans. Sem dæmi hefur blandaður (óflokkaður) úrgangur minnkað mikið, enda hefur markvisst verið unnið að því að bæta aðstöðu til flokkunar og að fræða starfsfólk og nemendur. Notkun á skrifstofupappír hefur dregist verulega saman og ávallt eru valdar vistvænar rekstrarvörur séu þær í boði. Matseðillinn í mötuneytis skólans er orðinn “grænni“ en áður, ávallt er grænkeraréttur í boði, en einnig er reynt að sporna við matarsóun eins og kostur er. Þá hefur ferðavenjukönnun verið framkvæmd haust og vor til að gera bæði starfsfólk og nemendur meðvitaðri um ferðamáta til og frá skóla og hvort hægt væri að draga úr umhverfisáhrifum vegna samgangna.

Þessari vinnu er þó ekki nærri lokið heldur verður áfram unnið í ýmsum aðgerðum á þessu sviði. Til að tryggja betur að svo verði hefur teymið sem sett var á laggirnar til að hafa yfirumsjón með innleiðingu grænu skrefanna fengið framhaldslíf og mun framvegis starfa sem umhverfisnefnd MÍ.

1 jún 2023

MÍ nær fimmta græna skrefinu

Menntaskólinn á Ísafirði er kominn með 5 græn skref! Vegferð skólans í þessu verkefni hófst fyrir alvöru í byrjun árs 2022 og náðust fyrstu tvö skrefin á vorönn. Um haustið bættist við þriðja skrefið, það fjórða rétt fyrir páskafrí og undir lok vorannar 2023 var svo fimmta og síðasta skrefið í höfn. Það má segja að vinnan við að uppfylla aðgerðir grænu skrefanna hafi oft verið krefjandi en um leið bæði skemmtileg og fróðleg auk þess að bæta umhverfisvitund starfsfólks og nemenda.

Margt hefur áunnist hvað varðar vinnu við að draga markvisst úr losun gróðurhúsalofttegunda í starfsemi skólans. Sem dæmi hefur blandaður (óflokkaður) úrgangur minnkað mikið, enda hefur markvisst verið unnið að því að bæta aðstöðu til flokkunar og að fræða starfsfólk og nemendur. Notkun á skrifstofupappír hefur dregist verulega saman og ávallt eru valdar vistvænar rekstrarvörur séu þær í boði. Matseðillinn í mötuneytis skólans er orðinn “grænni“ en áður, ávallt er grænkeraréttur í boði, en einnig er reynt að sporna við matarsóun eins og kostur er. Þá hefur ferðavenjukönnun verið framkvæmd haust og vor til að gera bæði starfsfólk og nemendur meðvitaðri um ferðamáta til og frá skóla og hvort hægt væri að draga úr umhverfisáhrifum vegna samgangna.

Þessari vinnu er þó ekki nærri lokið heldur verður áfram unnið í ýmsum aðgerðum á þessu sviði. Til að tryggja betur að svo verði hefur teymið sem sett var á laggirnar til að hafa yfirumsjón með innleiðingu grænu skrefanna fengið framhaldslíf og mun framvegis starfa sem umhverfisnefnd MÍ.

27 maí 2023

Brautskráning á vorönn 2023

Laugardaginn 27. maí voru 47 nemendur brautskráðir frá skólanum við hátíðlega athöfn í Ísafjarðarkirkju. Útskriftarnemar, starfsfólk skólans, afmælisárgangar og aðrir gestir voru viðstödd athöfnina og sá Viðburðarstofa Vestfjarða um að streyma henni beint. Hefð er fyrir útskriftarfagnaði að kvöldi brautskráningardags með útskriftarnemum, fjölskyldum þeirra og afmælisárgöngum.

Nemendur voru brautskráðir af 13 námsbrautum. Af útskriftarnemum voru 22 dagskólanemendur, sex dreifnámsnemendur og 19 nemendur í fjárnámi með Menntaskólann á Ísafirði sem heimaskóla. Tveir nemendur útskrifuðust úr grunnnámi háriðngreina og jafnframt með diplómu í förðun, tveir nemendur úr grunnnámi rafiðngreina, þrír nemendur úr húsasmíði, einn af lista- og nýsköpunarbraut, tveir af skipstjórnarbraut B og tveir úr stálsmíði. Alls útskrifuðust 40 nemendur með stúdentspróf og skiptust þannig eftir brautum: Einn af félagsvísindabraut, sjö af náttúruvísindabraut og þrír af náttúruvísindabraut - afreksíþróttasviði, 19 af opinni stúdentsbraut og tveir af opinni stúdentsbraut - afreksíþróttasviði, fimm með stúdentspróf af fagbraut og þrír nemendur útskrifuðust með stúdentspróf af starfsbraut. 

Fjölmörg verðlaun voru afhent fyrir góðan námsárangur og að vanda setti tónlistarflutningur útskriftarnema stóran svip á athöfnina.

Í fyrsta sinn í sögu Menntaskólans á Ísafirði var fjarnemi með hæstu meðaleinkunn á stúdentsprófi. Dux scholae 2023 er Ylfa Lind Gylfadóttir stúdent af opinni stúdentsbraut með meðaleinkunnina 9,11. Semidux er Viktoría Rós Þórðardóttir stúdent af náttúruvísindabraut með meðaleinkunnina 8,9. 

Við óskum öllum útskriftarnemum innilega til hamingju með áfangann og óskum þeim gæfu og gengis í framtíðinni.

 

25 maí 2023

Brautskráning á vorönn 2023

Laugardaginn 27. maí 2023 verður brautskráning frá Menntaskólanum á Ísafirði. Athöfnin fer fram í Ísafjarðarkirkju og hefst kl. 13:00.

Brautskráðir verða 47 nemendur af 13 námsbrautum. Af útskriftarnemum eru 22 dagskólanemendur, 6 dreifnámsnemendur og 19 nemendur í fjarnámi sem eru með Menntaskólann á Ísafirði sem heimaskóla.

Tveir nemendur útskrifast úr grunnnámi háriðngreina og útskrifast jafnframt með diplómu úr förðun, tveir nemendur útskrifast úr grunnnámi rafiðngreina. Þrír nemendur útskrifast úr húsasmíði, einn nemandi útskrifast af lista- og nýsköpunarbraut, tveir nemendur af skipstjórnarbraut B og tveir nemendur útskrifast úr stálsmíðanámi

39 nemendur útskrifast með stúdentspróf. Einn af félagsvísindabraut, 6 af náttúruvísindabraut og þrír af náttúruvísindabraut - afreksíþróttasviði, 19 af opinni stúdentsbraut og tveir af opinni stúdentsbraut - afreksíþróttasviði,
fimm nemendur útskrifast með stúdentspróf af fagbraut og þrír nemendur útskrifast með stúdentspróf af starfsbraut.

Allir eru velkomnir í athöfnina en hún verður einnig í beinu streymi frá Viðburðastofu Vestfjarða. Hér er tengill á beint streymi

22 maí 2023

Forsetaheimsókn starfsbrautar

Nemendur starfsbrautar MÍ fóru í skemmtilega menningar- og fræðsluferð til Reykjavíkur á dögunum ásamt kennurum sínum.

Fóru þau meðal annars á Alþingi, í Hitt húsið og fleiri áhugaverða staði í borginni sem fólk heimsækir ekki dags daglega.

Hápunktur ferðarinnar var heimsókn til Guðna forseta á Bessastaði þar sem þau fengu meðal annars að gægjast í leynihólf forsetans!