22 sep 2023

Gildin okkar

Nemendur á starfsbraut tóku upp á því í vikunni að veita gildum skólans meiri athygli en gildi skólans eru virðing, metnaður og vellíðan. Úr varð þessi skemmtilega hurðarskreyting sem nú prýðir stofuna þeirra. Unnið er að því að gera gildi skólans meira sýnileg innan veggja hans og utan og þökkum við nemendunum kærlega fyrir þetta frábæra frumkvæði. 

18 sep 2023

Gjöf frá Félagi íslenskra rafvirkja

Sigurður Freyr Kristinsson frá Félagi íslenskra rafvirkja kom færandi hendi á dögunum með þrjá fjölmæla að gjöf.

Sigurður Óskar kennari í rafiðngreinum tók á móti mælunum og þökkum við Patreki og félögum kærlega fyrir gjöfina sem mun koma að góðum notum í kennslu.

15 sep 2023

Heimsókn frá finnskum framhaldsskóla

Í síðustu viku fengum við ákaflega skemmtilega heimsókn frá Finnlandi þegar 12 nemendur og 4 kennarar frá framhaldsskóla í Helsinki komu hingað í Erasmus verkefni. Verkefnið ber yfirskriftina Menning og líf í vatni og fengu gestirnir að kynnast skólanum okkar, nemendum og svæðinu almennt hér í kring. Dvöldu gestirnir hér á Ísafirði í rúma viku og sinntu fjölbreyttum viðfangsefnum innan dyra og utan. Finnsku nemendurnir voru hýstir af íslenskum nemendum og vonumst við til að fá tækifæri til að endurgjalda heimsóknina við tækifæri.

14 sep 2023

Sápudagar í september

Í vikunni var skólastarfið brotið hressilega upp með tveimur óhefðbundnum dögum, 13. og 14. september. Þema daganna var umhverfismál og gildi skólans - Virðing, metnaður og vellíðan. Markmið daganna var að hrista nemendur saman í byrjun skólaársins og í stað hefðbundinnar stundaskrár var dagskrá skipulögð bæði af starfsfólki og nemendum. Nemendur fengu að velja heiti á dagana og fékk nafnið ,,Sápudagar" flest atkvæði í valinu. Nemendur tók m.a. þátt í íþróttadegi, endurnýttu gömul skrifborð, tóku ljósmyndir og bjuggu til myndbönd tengd þemanu.

Við þökkum nemendum og starfsfólki kærlega fyrir vel heppnaða daga, þið eruð frábær!

 

 

5 sep 2023

Stöðupróf í búlgörsku og serbnesku

Viljum vekja athygli á að Fjölbrautaskólinn í Garðabæ býður nú upp á stöðupróf í búlgörsku og serbnesku.

Prófin verða bæði haldin þann 15. september n.k.

Nánari upplýsingar um skráningu er hægt að fá hjá Mörthu Kristínu áfanga- og fjarnámsstjóra MÍ, martha@misa.is

 

4 sep 2023

Stöðupróf í dönsku og spænsku í MS

Vekjum athygli á að Menntaskólinn við Sund býður nú upp á stöðupróf í dönsku og spænsku.

Prófin verða þriðjudaginn 26. september kl. 12:00.

Athugið að í stöðuprófi er gert ráð fyrir sérstakri færni í tungumálinu t.d. ef um er að ræða annað móðurmál viðkomandi eða búsetu erlendis. Skólinn byggir á viðmiðum evrópsku tungumálamöppunnar og kallar til fagaðila sem framkvæma munnlegt og skriflegt mat á nemendum.

Nánari upplýsingar er hægt að fá hjá Menntaskólanum við Sund

4 sep 2023

Heimsókn í Safnahúsið

Nemendur í íslensku sem öðru máli fóru á dögunum í heimsókn í Safnahúsið. Sigmar safnvörður sýndi þeim bókasafnið þar sem m.a. er að finna sérstakar hillur með bókum á pólsku og tælensku. Pólska hillan er nokkuð vel útilátin en það má bæta hressilega við tælenska bókakostinn. Að því loknu leiddi Sigmar okkur upp á aðra hæð þar sem er að finna myndlistarsýninginguna "Paradise lost: Daniel Solander's legacy". Sýningin er á vegum sænska sendiráðsins til að minnast náttúrufræðingsins Daniel Solander sem kom m.a. í leiðangur til Íslands á 18. öld.

30 ágú 2023

Ert þú að fara að útskrifast?

Útskrift að hausti frá MÍ verður þann 20. desember n.k.

Þeir nemendur sem telja sig vera að fara að útskrifast eru hvattir til að hafa samband við Mörthu Kristínu áfanga- og fjarnámsstjóra og fara yfir málin.

 

21 ágú 2023

57 nýnemar hefja nám í MÍ

Í dag var nýnemadagur í MÍ en þá hófu 57 nýnemar nám við skólann. Á nýnemadeginum var farið yfir það helsta sem varðar skólastarfið, nemendur fóru í skoðunarferð um skólann og að lokum var þeim boðið í hádegismat í mötuneytinu.

Við í MÍ tökum fagnandi á móti þessum stóra hóp og hlökkum til að kynnast þeim.

17 ágú 2023

Stöðupróf í sænsku og norsku

Árlega býður Menntaskólinn við Hamrahlíð upp á stöðupróf í norsku og sænsku. Stöðuprófin eru einungis haldin í lok ágúst ár hvert og auglýst á heimasíðu skólans. ( breyttist 2023)

Stöðupróf í norsku og sænsku eru samin með hliðsjón af gildandi námskrá viðkomandi tungumála. Þess er gætt að haga uppbyggingu prófa með þeim hætti að þau sýni þekkingu, hæfni og leikni próftakans sem best og taka mið af lesskilningi, ritun, málfræði, orðaforða og stafsetningu. Athugið að munnlegi þátturinn er ekki prófaður.

Stöðuprófin eru fyrir einstaklinga sem hafa lokið yfirferð á námsefni á framhaldsskólastigi í norsku í Noregi eða sænsku í Svíþjóð.

Nánari upplýsingar er hægt að nálgast á heimasíðu Menntaskólans við Hamrahlíð