14 jan 2020

Skólahald samkvæmt stundatöflu fimmtudaginn 16. janúar

Skólahald verður samkvæmt stundatöflu í Menntaskólanum á Ísafirði á morgun, fimmtudaginn 16. janúar.

Nemendur og starfsfólk sem komast ekki í skólann vegna ófærðar þurfa að láta vita af því og senda tölvupóst á netfangið elin@misa.is.

Mikilvægt er að þeir nemendur sem komast ekki í skólann sinni áfram námi sínu á Moodle.

Stjórnendur MÍ 

 

14 jan 2020

Landskeppni í líffræði

Landskeppni framhaldsskólanna í líffræði verður haldin miðvikudaginn 15. janúar kl. 9.10 í fyrirlestrasal skólans, stofu 17. 
 

Nokkrir nemendur MÍ taka þátt í ár, en þetta er í þriðja sinn sem nemendur MÍ taka þátt í keppninni. 


Þátttaka er opin öllum framhaldsskólanemum landsins. Þeim keppendum sem standa sig best í landskeppninni verður boðið að taka þátt í verklegum æfingum í Háskóla Íslands á vorönn. Úr þeim hópi verður síðan valinn 4 manna hópur sem keppir fyrir Íslands hönd á ólympíuleikunum í líffræði í Japan næsta sumar
 
Keppnin er á formi krossaprófs með 50 spurningum á ensku. Keppendur fá úthlutaðan ensk-íslenskan orðalista með prófinu. Prófið er samið samkvæmt áherslum ólympíuleikanna í líffræði og byggir á alþjóðlegu námsefni fyrir framhaldsskóla. 
 
Keppnin fer fram samtímis um land allt.  Við óskum nemendum MÍ góðs gengis í keppninni. 

14 jan 2020

Lið MÍ keppir í 2. umferð Gettu betur

Gettu betur lið MÍ komst áfram eftir keppni síðustu viku og tekur þátt í 2. umferð í dag, þriðjudagin 14. janúar, kl. 19.30. Lið MÍ mætir liði Verkmenntaskóla Austurlands.

Keppnin verður í beinni útsendingu á Rás 2.

Lið Menntaskólans á Ísafirði skipa Davíð Hjaltason, Einar Geir Jónasson og Þuríður Kristín Þorsteinsdóttir.

Þjálfari liðsins er Veturliði Snær Gylfason.

Við óskum liði MÍ góðs gengis og hvetjum alla til að fylgjast með í kvöld. Áfram MÍ. 

Áfram MÍ 

12 jan 2020

Vegna veðurs

Áríðandi tilkynning:
 
Vegna slæmrar veðurspár og færðar fellur skólahald í Menntaskólanum á Ísafirði niður mánudaginn 13. janúar.
 
Ef veðurspár næstu daga rætast gæti svo farið að skólahald falli einnig niður þriðjudaginn 14. janúar en fari svo verður send út tilkynning um það á morgun, mánudag.
 
Nemendur eru beðnir um að sinna áfram námi sínu á Moodle.
 
Í þessu sambandi er vakin athygli á tilkynningu frá Lögreglunni á Vestfjörðum:
Lögreglan á Vestfjörðum vill vekja athygli á veðurspá Veðurstofu Íslands, fyrir mánudaginn 13. janúar og í raun þriðjudaginn 14. janúar nk. Eins og veðurspáin sýnir verður ekkert ferðaveður á morgun og í raun ekki heldur á þriðjudaginn, a.m.k. á norðanverðum Vestfjörðum.
Útlit er fyrir að örðugt verði að halda vegum milli þéttbýlisstaða opnum í þessum aðstæðum og erfitt verður að komast milli staða í þéttbýlinu, ef veðurspáin gengur eftir.
Hvatt er til þess að fylgst sé reglulega með veðurspá og eins að skoða upplýsingar á vef Vegagerðarinnar og einnig má fá upplýsingar í símanúmerið 1777.
 
 
 
Stjórnendur Menntaskólans á Ísafirði

 

12 jan 2020

Fyrsta lota í húsasmíði vorönn 2020

Nú er dreifnám farið af stað í húsasmíði og hófst smíði á sumarhúsi á bílaplani skólans föstudagskvöldið í ágætis slagviðri. Má hrósa hópnum fyrir mikla seiglu við smíðina um helgina.

Skipstjórnarlotu þurfti hins vegar að fresta vegna veðurs þar sem veður hamlaði för bæði eins kennara og nokkurra nemenda og verður hún haldin næstu helgi í staðinn.

Alls stunda 53 nemendur dreifnám í húsasmíði og skipstjórn við MÍ.

9 jan 2020

Lið MÍ áfram í Gettu betur

Gettu betur lið MÍ sem þau Davíð Hjaltason, Einar Geir Jónasson og Þuríður Kristín Þorsteinsdóttir skipa keppti miðvikudagskvöldið 8. janúar við lið Fjölbrautaskólans í Ármúla. FÁ hafði betur í keppninni en MÍ komst áfram í næstu umferð sem stigahæsta taplið umferðarinnar. Mun lið MÍ keppa á móti Verkmenntaskóla Austurlands n.k. þriðjudag, 14. janúar.

Hægt er að fylgjast með Gettu betur á vef RÚV Núll:  www.ruv.is/null 

8 jan 2020

Gettu betur

Menntaskólinn á Ísafirði keppir við Fjölbrautaskólann við Ármúla í Gettu betur í kvöld, miðvikudaginn 8. janúar. Hægt er að fylgjast með keppninni á RÚV Núll kl. 21.00. www.ruv.is/null

Lið Menntaskólans á Ísafirði skipa Davíð Hjaltason, Einar Geir Jónasson og Þuríður Kristín Þorsteinsdóttir.

Þjálfari liðsins er Veturliði Snær Gylfason.

Við óskum liði MÍ góðs gengis og hvetjum alla til að fylgjast með í kvöld. Áfram MÍ. 

8 jan 2020

Upphaf vorannar 2020

Skólahald Menntaskólans á Ísafirði hófst mánudaginn 6. janúar með hraðstundatöflu og kennsla hófst samkvæmt stundaskrá þriðjudaginn 7. janúar.

Innritun fyrir vorönn er lokið bæði í fjarnám og dagskóla. 

Nemendur Menntaskólans á Ísafirði hafa aldrei verið fleiri en nú. Alls eru 477 nemendur skráðir í skólann.

Fjarnemum fjölgar stöðugt og eru nú 163.  Af fjarnemum eru 54 nemendur með Menntaskólann á Ísafirði sem sinn heimaskóla. Dagnemum fækkar og eru nú 161 dagnemi í skólanum. Í dreifnámi eru 20 nemendur í húsasmíði, 33 nemendur í námi á A-stigi skipstjórnar og 100 nemendur eru í sjúkraliðanámi.

Skólahald fer ánægjulega af stað með metfjölda nemenda í skólanum.