27 maí 2023

Brautskráning á vorönn 2023

Laugardaginn 27. maí voru 47 nemendur brautskráðir frá skólanum við hátíðlega athöfn í Ísafjarðarkirkju. Útskriftarnemar, starfsfólk skólans, afmælisárgangar og aðrir gestir voru viðstödd athöfnina og sá Viðburðarstofa Vestfjarða um að streyma henni beint. Hefð er fyrir útskriftarfagnaði að kvöldi brautskráningardags með útskriftarnemum, fjölskyldum þeirra og afmælisárgöngum.

Nemendur voru brautskráðir af 13 námsbrautum. Af útskriftarnemum voru 22 dagskólanemendur, sex dreifnámsnemendur og 19 nemendur í fjárnámi með Menntaskólann á Ísafirði sem heimaskóla. Tveir nemendur útskrifuðust úr grunnnámi háriðngreina og jafnframt með diplómu í förðun, tveir nemendur úr grunnnámi rafiðngreina, þrír nemendur úr húsasmíði, einn af lista- og nýsköpunarbraut, tveir af skipstjórnarbraut B og tveir úr stálsmíði. Alls útskrifuðust 40 nemendur með stúdentspróf og skiptust þannig eftir brautum: Einn af félagsvísindabraut, sjö af náttúruvísindabraut og þrír af náttúruvísindabraut - afreksíþróttasviði, 19 af opinni stúdentsbraut og tveir af opinni stúdentsbraut - afreksíþróttasviði, fimm með stúdentspróf af fagbraut og þrír nemendur útskrifuðust með stúdentspróf af starfsbraut. 

Fjölmörg verðlaun voru afhent fyrir góðan námsárangur og að vanda setti tónlistarflutningur útskriftarnema stóran svip á athöfnina.

Í fyrsta sinn í sögu Menntaskólans á Ísafirði var fjarnemi með hæstu meðaleinkunn á stúdentsprófi. Dux scholae 2023 er Ylfa Lind Gylfadóttir stúdent af opinni stúdentsbraut með meðaleinkunnina 9,11. Semidux er Viktoría Rós Þórðardóttir stúdent af náttúruvísindabraut með meðaleinkunnina 8,9. 

Við óskum öllum útskriftarnemum innilega til hamingju með áfangann og óskum þeim gæfu og gengis í framtíðinni.

 

25 maí 2023

Brautskráning á vorönn 2023

Laugardaginn 27. maí 2023 verður brautskráning frá Menntaskólanum á Ísafirði. Athöfnin fer fram í Ísafjarðarkirkju og hefst kl. 13:00.

Brautskráðir verða 47 nemendur af 13 námsbrautum. Af útskriftarnemum eru 22 dagskólanemendur, 6 dreifnámsnemendur og 19 nemendur í fjarnámi sem eru með Menntaskólann á Ísafirði sem heimaskóla.

Tveir nemendur útskrifast úr grunnnámi háriðngreina og útskrifast jafnframt með diplómu úr förðun, tveir nemendur útskrifast úr grunnnámi rafiðngreina. Þrír nemendur útskrifast úr húsasmíði, einn nemandi útskrifast af lista- og nýsköpunarbraut, tveir nemendur af skipstjórnarbraut B og tveir nemendur útskrifast úr stálsmíðanámi

39 nemendur útskrifast með stúdentspróf. Einn af félagsvísindabraut, 6 af náttúruvísindabraut og þrír af náttúruvísindabraut - afreksíþróttasviði, 19 af opinni stúdentsbraut og tveir af opinni stúdentsbraut - afreksíþróttasviði,
fimm nemendur útskrifast með stúdentspróf af fagbraut og þrír nemendur útskrifast með stúdentspróf af starfsbraut.

Allir eru velkomnir í athöfnina en hún verður einnig í beinu streymi frá Viðburðastofu Vestfjarða. Hér er tengill á beint streymi

22 maí 2023

Forsetaheimsókn starfsbrautar

Nemendur starfsbrautar MÍ fóru í skemmtilega menningar- og fræðsluferð til Reykjavíkur á dögunum ásamt kennurum sínum.

Fóru þau meðal annars á Alþingi, í Hitt húsið og fleiri áhugaverða staði í borginni sem fólk heimsækir ekki dags daglega.

Hápunktur ferðarinnar var heimsókn til Guðna forseta á Bessastaði þar sem þau fengu meðal annars að gægjast í leynihólf forsetans! 

13 maí 2023

Styrktarsjóður Gyðu Maríasdóttur - auglýst eftir umsóknum

Auglýst er eftir umsóknum um styrk úr Styrktarsjóði Gyðu Maríasdóttur. Styrktarsjóðurinn var stofnaður árið 1962 af nemendum Húsmæðraskólans Óskar.


Styrkurinn er ætlaður til stuðnings vestfirskum konum sem stunda sérhæft framhaldsnám á sviði lista eða menningar. Umsækjandi þarf að hafa náð átján ára aldri og hafa átt lögheimili á Vestfjörðum í a.m.k. tvö ár.


Umsóknir skulu berast til Heiðrúnar Tryggvadóttur skólameistara Menntaskólans á Ísafirði, heidrun@misa.is

Umsóknarfrestur er til 31. maí 2023

8 maí 2023

Nemendasýningin Sjö punktar

Miðvikudaginn 10. maí kl. 14:30-15:30, verður opnun sýningar á lokaverkefnum nemenda í áfanganum MYNL2FF05 í Edinborgarhúsinu.

Nemendur í áfanganum hafa unnið að lokaverkefnum sínum síðustu vikur. Megin útgangspunkturinn er formfræði og fjarvídd sem fól m.a. í sér hlutateikningu, klippimyndir, fjarvídd, formfræði og skapandi vinnu.

Fjölbreytt verk verða á sýningunni þar sem hver og einn vinnur út frá sinni persónulegu nálgun á náminu.

Yfirskrift sýningarinnar er Sjö punktar og verður hún opin á opnunartíma Edinborgarhússins til 24. maí.

Vonumst til að sjá sem flesta

8 maí 2023

Pylsur settar í samband...

Já - það er hægt :)

Nú þegar önnin er að líða undir lok, var ákveðið að fara í smá tilraunastarfsemi í rafmagnsfræði.

Nemendur mættu með pylsur og meðlæti í tíma og ákváðu að prófa að stinga pylsunum í samband við innstungu og virkaði þetta bara nokkuð vel.

Nemendur voru ánægðir með árangurinn og gæddu sér á veitingum.

4 maí 2023

Strandhreinsun

Menntaskólinn á Ísafirði og Háskólasetur Vestfjarða tóku þátt í skemmtilegu samstarfsverkefni nú á sumardaginn fyrsta.

Nokkrir MÍ nemendur fóru í strandhreinsunarferð undir stjórn nemenda Háskólasetursins. Rusl var tínt bæði í Bolungarvík og á Ísafirði, það flokkað og verkefni unnin. Nemendur MÍ unnu sér verkefni sem mun nýtast þeim í námi við skólann á komandi haustönn.

Háskólasetrið birti þessa skemmtilegu frétt