2 jan 2014

Upphaf vorannar

Skólastarf hefst að nýju eftir jólaleyfi, mánudaginn 6. janúar. Nemendur mæta á sal kl. 9 þann dag og að loknu ávarpi skólameistara fá þeir afhentar stundatöflur hjá umsjónarkennurum (nemendur yngri en 18 ára) eða ritara (eldri nemendur). Stundatöflur opna í INNU á morgun föstudaginn 3. janúar, hafi innritunar- og þjónustugjöld verið greidd. Töflubreytingar hefjast kl. 10, hjá námsráðgjöfum og áfangastjóra. Með ósk um gleðilegt ár og árangursríka samvinnu á önninni.

20 des 2013

Brautskráning

Í dag, 20. desember kl. 13 verður útskriftarathöfn í Ísafjarðarkirkju. Þá verða sjö nemendur brautskráðir frá skólanum, einn sjúkraliði og sex stúdentar, tveir af náttúrufræðibraut og fjórir af félagsfræðabraut. Einnig munu 20 nemendur sem lokið hafa viðbótarnámi í vélgæslu hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða í samvinnu við MÍ, fá afhent skírteíni sín. Við athöfnina mun Skólakórinn syngja nokkur lög undir stjórn Bjarneyjar Ingibjargar Gunnlaugsdóttur og við undirleik Péturs Ernis Svavarssonar. Allir velunnarar skólans eru velkomnir.
2 des 2013

Umsókn um skólavist

Enn er hægt að sækja um skólavist í MÍ fyrir vorönn 2014. Umsóknarfrestur er til og með 10. desember. Sérstök athygli er vakin á því að á vorönn verður í boði húsasmíðanám með vinnu. Um er að ræða lokaönn í húsasmíði sem kennd verður í lotubundnu fjarnámi alla önnina. Alls verða námsloturnar átta helgar þar sem kennt verður laugardag og sunnudag. Allar nánari upplýsingar veitir skrifstofa skólans. Sótt er um í gegnum heimasíðu skólans http://www.misa.is/namid/umsokn_um_skolavist/ eða í gegnum menntagátt https://www.inna.is/framhaldsskolaumsokn/

27 nóv 2013

Skólafundur - frumsýning á jólapeysu

Skólafundur var haldinn í fundartíma í dag. Rætt var um aðstöðu félagsmiðstöðvar í Gryfjunni og upplýst um kaup á nýjum sófum í stað þeirra sem félagsmiðstöðin er nú með að láni. Þá var fjallað um flokkun á sorpi og nýjar merktar ruslatunnur kynntar. Nemendur kynntu einnig 1. des hátið sem haldin verður í Félagsheimilinu í Bolungarvík næsta föstudag. Hápunktur fundarins var stundin þegar skólameistari skrýddist glæsilegri jólapeysu sem hönnuð var og skreytt af fulltrúum nemenda. Peysunni klæddist Jón Reynir þar sem tekist hafði að safna rúmum 20 þúsund krónum í söfnun Barnaheilla á síðunni jolapeysan.is. Þar má sjá að lið skólans er sem stendur í 5. sæti af 26 liðum sem hafa skráð sig til leiks. Ekki er loku fyrir það skotið að Jón Reynir klæðist peysunni aftur við gott tækifæri, í löngu frímínútum eða hádegishléi fljótlega, gangi söfnuni áfram vel.
20 nóv 2013

Lokaönn húsasmíði á vorönn 2014

Á vorönn mun nám á lokaönn í húsasmíði verða í boði við skólann ef næg þátttaka fæst. Kennslan mun fara fram um helgar og í fjarnámi. Eftirfarandi áfangar verða kenndir: ÁGS102, HÚB102, SVH102 og TEH303 sem eru fagbóklegir áfangar og TRS102, TST101 og LHÚ104 sem eru verklegir áfangar. Sveinspróf verður í maí og útskrift þann 24. maí. Námið er lánshæft hjá LÍN. Nánari upplýsingar um skipulag námsins má finna með því að smella hér. Einnig er hægt að fá upplýsingar hjá Hildi Halldórsdóttur aðstoðarskólameistara í síma 450-4402 eða tölvupósti hildur@misa.is

Við Menntaskólann er  heimavist með 20 nýuppgerðum herbergjum með sturtu og snyrtingu. Nokkur herbergjanna henta vel fyrir pör. Við skólann er mjög gott mötuneyti sem er vel nýtt af nemendum og starfsmönnum skólans. Nánari upplýsingar um heimavist veitir Gísli H. Halldórsson fjármálastjóri í síma 450-4404 eða tölvupósti gisli@misa.is

Skráning fer fram í gegnum menntagátt eða heimasíðu skólans.

8 nóv 2013

Dagur gegn einelti

Nú er áttundi nóvember í þriðja sinn helgaður baráttunni gegn einelti hér á landi. Á þessum degi er þjóðin hvött til að standa saman gegn einelti í samfélaginu, ekki síst í skólum og á vinnustöðum. Að þessu sinni er sjónum beint að skólasamfélaginu og sérstaklega framhaldsskólum. Nemendur eru hvattir til að fara inn á síðuna gegneinelti.is og skrifa undir þjóðarsáttmála um baráttu gegn einelti. Allir nemendur skólans fá afhent bókamerki með hvatningu um að skrifa undir þjóðarsáttmálann. Í tilefni dagsins verður sérstök dagskrá í Verzlunarskóla Íslands á vegum verkefnisstjórnar um aðgerðir gegn einelti. Þar verður m.a. frumsýnd stuttmyndin Saga Páls Óskars sem gerð hefur verið um upplifun poppstjörnunnar af einelti sem hann varð fyrir í æsku.
7 nóv 2013

Skólareglur

Skólaráð samþykkti á fundi sínum þann 5. nóvember nýjar skólareglur fyrir Menntaskólann á Ísafirði. Reglurnar hafa verið hengdar upp á auglýsingatöflum í skólahúsnæði og eru einnig birtar á heimasíðu skólans. Nemendur og starfsfólk skólans eru hvött til að kynna sér reglurnar vel og hafa þær að leiðarljósi í daglegu starfi í skólanum.
7 nóv 2013

Skólavist á vorönn

Opnað hefur verið fyrir umsóknir um skólavist í MÍ á vorönn 2014. Sótt er um í gegnum menntagátt. Vakin er athygli á því að skólinn er nú þátttakandi í Fjarmennaskólanum. Upplýsingar um það hvaða áfanga MÍ mun bjóða upp á í Fjarmenntaskólanum er að finna hér á heimasíðunni. Allar upplýsingar um Fjarmenntaskólann er að finna á fjarmenntaskolinn.is

23 okt 2013

Valdagur á haustönn

Í dag 23. október er valdagur í skólanum. Nemendur yngri en 18 ára eiga að hitta umsjónarkennara í umsjónartíma kl. 14.05 og velja áfanga fyrir komandi vorönn. Opið verður fyrir val í gegnum INNU til og með 28. október. Eftir það þurfa nemendur að fá tíma hjá námsráðgjafa eða áfangastjóra til að fá aðstoð við valið. Smellið á hlekkina hér fyrir neðan til að fá nánari upplýsingar um hvernig og hvað þið eigið að velja.
Leiðbeiningar um hvernig valið er í gegnum INNU
Framvinda bóknámsbrauta eftir árum
Framvinda verknámsbrauta eftir árum
Áfangar í boði á vorönn 2014