8 ágú 2013

Annarbyrjun

Skrifstofa skólans er nú opin aftur eftir sumarleyfi. Námsráðgjafar koma til starfa þann 15. ágúst og skólinn verður settur þann 22. ágúst kl. 9. Nýnemar og nemendur yngri en 18 ára hitta umsjónarkennara að lokinni skólasetningu og fá stundatöflur afhentar. Að því búnu hefjast töflubreytingar. Kennsla hefst föstudaginn 23. ágúst.
13 jún 2013

Menntaskólanemar sauma sér þjóðbúning í MÍ næsta vetur

Menntaskólinn á Ísafirði í samstarfi við Þjóðbúningafélag Vestfjarða mun bjóða nemendum skólans að sauma sér þjóðbúning í vali næsta vetur. Um er að ræða kvenbúninga, upphlut eða peysuföt frá 19. eða 20. öld. Kennt verður einu sinni í viku, allan veturinn í tvo til þrjá tíma í senn og ljúka nemendur við að sauma sér heilan búning á þeim tíma. Kennarar verða Anna Jakobína Hinriksdóttir og Soffía Þóra Einarsdóttir, en þær hafa kennt þjóðbúningasaum hjá Þjóðbúningafélagi Vestfjarða undanfarin misseri. ÞBFV hefur fengið styrk frá Menningaráði Vestfjarða, þannig að þátttakendur í þessu námskeiði munu ekki þurfa að greiða námskeiðsgjöld, einungis efniskostnað. Þetta er því einstakt tækifæri og hefur þjóðbúningasaumur aldrei verið kenndur við framhaldsskóla hér á landi fyrr svo vitað sé. Enn eru nokkur pláss laus í þessum áfanga og áhugasamir þurfa að setja sig í samband við Friðgerði Ómarsdóttur fridgerd@misa.is eða Hrafnhildi Hafberg hrafnh@misa.is til að fá nánari upplýsingar.

27 maí 2013

Brautskráning 2013

Laugardaginn 25. maí voru 67 nemendur brautskráðir frá Menntaskólanum á Ísafirði. Að vanda var útskriftarathöfnin haldin í Ísafjarðarkirkju að viðstöddu fjölmenni. Að þessu sinni voru átta nemendur útskrifaðir með diplóma í förðunarfræðum. Þeir nemendur hafa auk þess lokið þeim greinum í hársnyrtiiðn sem kenndar eru á tveggja ára grunnnámsbraut við skólann. Þá voru 12 nemendur útskrifaðir með A réttindi vélstjórnar. Einnig luku fjórir sjúkraliðar námi og fimm stálsmiðir. Af félagsfræða- og náttúrufræðibraut voru brautskráðir 36 nemendur og tveir luku viðbótarnámi til stúdentsprófs. Að vanda sáu útskriftarnemar um tónlistarflutning í athöfninni en einnig kom Sönghópur MÍ fram undir stjórn Bjarneyjar Ingibjargar Gunnlaugsdóttur og við undirleik Kristínar Hörpu Jónsdóttur nema á fyrsta ári. Þá fluttu fulltrúar 10, 20 og 25 ára stúdenta ávörp og einnig formaður skólanefndar, Jóna Benediktsdóttir. Við athöfnina voru fjölmargar viðurkenningar veittar fyrir góðan námsárangur. Hæstu meðaleinkunn á stúdentsprófi hlaut Sigmundur Ragnar Helgason en hann lauk prófi af náttúrufræðibraut með einkunnina 9,67. Er það hæsta einkunn sem gefin hefur verið við skólann. Næst hæstu einkunn hlaut Marelle Maekalle en hún lauk prófi af náttúrufræðibraut á þremur árum, með einkunnina 9,37.
24 maí 2013

Brautskráning

Laugardaginn 25. maí verða 67 nemendur brautskráðir frá Menntaskólanum á Ísafirði. Brautskráning og skólaslit verða í Ísafjarðarkirkju og hefst athöfnin kl. 13. Á dagskrá verða tónlistaratriði og ávörp afmælisárganga auk brautskráningar og hefðbundinna skólaslita. Allir velunnarar skólans eru velkomnir á meðan húsrúm leyfir.
14 maí 2013

Lokainnritun nýnema

Nú stendur yfir lokainnritun nemenda sem eru að ljúka námi í 10. bekk grunnskóla. Innritunin fer fram í gegnum menntagatt.is og nemendur hafa fengið sendan veflykil frá námsmatsstofnun. Frestur til að sækja um eða breyta umsókn rennur út á miðnætti þann 10. júní n.k.
2 maí 2013

Innritun

Innritun nemenda annarra en 10. bekkinga er hafin og stendur til 31. maí. Fjölbreytt nám er í boði við skólann. Enn er hægt að bæta við nemendur á 1. og 2 ár vélstjórnar og málmiðngreina. Einnig verða eftirtaldar verk- og starfsnámsbrautir í boði ef nægt þátttaka fæst:

  • Grunnám bygginga- og mannvirkjagreina
  • Grunnnám hár- og förðunargreina
  • Sjúkraliðanám
  • Vélstjórn B-nám

Einnig býður skólinn upp á bóknám til stúdentsprófs. Við skólann er starfrækt stafræn smiðja (FAB-LAB) og nemendur geta tekið áfanga í hönnun og nýsköpum í tengslum við smiðjuna. Nemendur sem stunda listnám geta fengið það metið og auk þess verða frá og með næstu önn í boði áfangar með áherslu á listir og menningu sem nýtast nemendum í listnámi.

 

Upplýsingar um það hvaða áfangar eru í boði á haustönn má finna hér. Áfangar í boði.

 

Sótt er um í gegnum menntagátt á slóðinni http://www.menntagatt.is

 

30 apr 2013

Prófdagar hefjast

Prófa- og námsmatsdagar hefjast mánudaginn 6. maí. Próftaflan er opin í INNU hjá öllum nemendum. Einnig er hægt að sjá próftöfluna í heild sinni hér á heimasíðunni. PRÓFTAFLAN.
15 apr 2013

Nótan, lokahátíð í Eldborgarsal Hörpunnar

Þann 14. apríl s.l. tóku tvö atriði á vegum Tónlistarskóla Ísafjarðar þátt í lokahátíð Nótunnar, uppskeruhátíð íslenskra tónlistarskóla, í Eldborgarsal Hörpunnar. Þátttakendur frá TÍ voru samtals 20 og þar af voru 14 nemendur úr MÍ. Það skemmst frá því að segja að þessi ungmenni komu, sáu og sigruðu í Hörpunni. Skólakór TÍ undir stjórn Bjarneyjar Ingibjargar Gunnlaugsdóttur var valinn sem eitt af níu framúrskarandi atriðum sem fengu sérstakan verðlaunagrip. Kórinn flutti verkið Gloria eftir Michael Bojesen. Auk þess hlaut hljómsveit píanónemenda sérstök verðlaun Tónlistarsafns Íslands í tengslum við "Ísmúsþema" í viðurkenningarflokknum frumsamin/frumleg atriði. Verðlaunin hlutu þau fyrir flutning sinn á verkinu "Krummi international" en verkið útsettu nemendurnir sjálfir ásamt kennara sínum Beötu Joó. Innilegar hamingjuóskir með þessa glæsilegu frammistöðu.

Sjá má nánari upplýsingar á heimasíðu Nótunnar, http://www.notan.is/index.php?option=com_content&view=article&id=250&Itemid=327

12 apr 2013

Próftafla

Próftafla nemenda er nú opin í INNU fyrir hvern og einn nemanda. Próftaflan í heild sinni verður birt hér á heimasíðu skólans innan skamms.

Prófstjóri.