Menntaskólinn á Ísafirði vinnur nú að uppsetningu á sólarsellum á lóð skólans sem nota á til kennslu, þjálfunar og til að sinna hluta af orkunotkun skólans. Þar verða þær í augsýn gangandi vegfaranda og nýtast vonandi sem lærdómstækifæri fyrir fleiri en nemendur skólans.
Nemendur í húsasmíða-, málm- og vélstjórnargreinum munu smíða grind undir sólarsellurnar og nemendur í rafiðn- og vélstjórnargreinum munu koma þeim fyrir og tengja í samvinnu við sérfræðinga frá Orkubúi Vestfjarða og Bláma. Nemendur í ýmsum öðrum námsgreinum munu vinna ýmis verkefni í tengslum við sólarorkuverið. Þannig verður verkefnið bæði hluti af þverfaglegum áfanga sem skólinn mun hanna en sömuleiðis skapast möguleikar í hinum ýmsu áföngum til að tengjast verkefninu, bæði bóklegum og verklegum.
Verkefninu í heild er ætlað að auka skilning kennara og nemenda á orkuframleiðslu og hvernig hægt er að nýta mismunandi orkugjafa til að draga úr losun, umhverfisáhrifum og kostnaði. Verkefnið verður unnið með sérfræðingum Bláma (Blámi er samstarfsverkefni Landsvirkjunar, Orkubús Vestfjarða, Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis og Vestfjarðastofu) og Orkubús. Með þverfaglegri nálgun innan skólans mun skapast vettvangur til að samþætta námsgreinar og tengja saman nemendur úr ólíkum námsgreinum.
Verkefnið hlaut styrkt frá mennta- og barnamálaráðuneyti úr skólaþróunarsjóði sem ætlað að styðja við nýja nálgun og vera hreyfiafl framfara í skóla- og frístundastarfi við innleiðingu menntastefnu, jafna tækifæri nemenda um land allt og hvetja skóla til nýsköpunar á sviði skólaþróunar.
Verkefnið var eitt af fimm sem valið var af miðstöð menntunar og skólaþjónustu til að gera kynningarmyndband um og má horfa á það í spilaranum hér fyrir neðan: