Áfangamessa Menntaskólans á Ísafirði var haldin þriðjudaginn 7. október og tókst hún afskaplega vel. Góð mæting var á viðburðinn og nýttu nemendur tækifærið til að kynna sér þá áfanga sem verða í boði á vorönn 2026.
Áfangamessan fór fram í Gryfjunni þar sem kennarar kynntu fjölbreytt námsframboð næstu annar, svöruðu spurningum nemenda og veittu nánari upplýsingar um innihald og áherslur áfanganna. Auk þess skapaði messan gott tækifæri fyrir kennara og nemendur til að spjalla saman um námið, ræða áhugasvið og fræðast um aðrar brautir og námsleiðir innan skólans. Andrúmsloftið var jákvætt og lifandi og má með sanni segja að Áfangamessan hafi verið vel heppnuð í alla staði.
Þetta er í fyrsta skiptið sem svona viðburður er haldinn í MÍ en tilgangurinn er einmitt að nemendur átti sig betur á því námi sem er í boði í skólanum og þeir fái betri innsýn í þá áfanga sem þeir eiga að fara í eftir áramót.